Póstþjónusta

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 17:22:41 (2634)

2002-12-12 17:22:41# 128. lþ. 54.16 fundur 257. mál: #A póstþjónusta# (EES-reglur) frv. 136/2002, Frsm. minni hluta JB
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 128. lþ.

[17:22]

Frsm. minni hluta samgn. (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Frv. til laga um póstþjónustu kemur nú til 3. umr. en eins og komið hefur fram bæði við 1. og 2. umr. í máli hv. þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs þá felur frv. í sér að verið er að taka bita út úr hinni almennu póstþjónustu og fella hann undan ábyrgð ríkisins, gera mögulegt að einkavæða þann hluta póstþjónustunnar og bjóða hann út, þ.e. einkavæða hann og taka hann undan ábyrgð ríkisins.

Um er að ræða að verið er að fækka þeim bréfaflokkum sem áður lutu ábyrgð ríkisins á póstþjónustu og Íslandspóstur hafði bæði kvöð og einkarétt að annast dreifingu á. Það þýðir að sú þjónusta sem Íslandspóstur hf., sem er í eigu ríkisins, ber ábyrgð á gagnvart landsmönnum öllum verður óhagkvæmari. Það þýðir að hægt er að einkavæða þá hluta póstþjónustunnar sem kannski eru arðbærastir, t.d. póstþjónustuna á höfuðborgarsvæðinu. Það er hægt að bjóða hana út. Það er hægt að losa hana frá Íslandspósti. En Íslandspóstur, hin sameiginlega opinbera póstþjónusta stendur fyrst og fremst undir hinum óhagkvæmari þáttum póstþjónustunnar.

Þetta teljum við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði alveg andstætt þeirri samfélagshugsjón sem við byggjum okkar stefnu á. Við teljum að grunnþjónusta eins og póstþjónusta skuli vera á ábyrgð ríkisins, að jafnt aðgengi skuli vera að henni hvar sem er á landinu og að jafnframt skuli hún vera á sama verði, vera jafnörugg og hafa sömu gæði. Sú tilaga sem hér er á ferðinni rýrir það, býður upp á aukna einkavæðingu í póstþjónustunni.

Herra forseti. Ég vil bara aðeins vekja athygli á umsögn um þetta frv. sem barst frá Póstmannafélagi Íslands. Ég vil fá að vitna til hennar, með leyfi forseta:

,,Stjórn Póstmannafélags Íslands tók á fundi sínum 3. des. 2002 til umræðu frumvarp til laga um póstþjónustu. Frumvarpið mun fram komið vegna tilskipunar Evrópusambandsins um breytingu á reglum um einkarétt póststjórna í Evrópu til flutnings á bréfapósti.``

Þetta er örstutt umsögn Póstmannafélagsins, virðulegi forseti, sem ég ætla að leyfa mér að vitna áfram í:

,,Þrenging einkaréttar og væntanlegt afnám hefur verið til umræðu innan Evrópusambandsins í mörg ár. Stéttarfélög póstmanna og samtök sömu félaga í Evrópu hafa varað við þessari þróun með þeim rökum að hún valdi minnkandi atvinnuöryggi félagsmanna og að póstþjónusta við dreifðari byggðir verði dýrari og verri þar sem sá hluti póstþjónustunnar sem ekki nýtur einkaréttar muni eingöngu verða áhugaverður á þeim svæðum þar sem reksturinn er arðvænlegur. Óttast er að rekstrarleyfishafar sem njóta einkaréttar og hafa þar með skyldur til að þjóna öllum svæðum landsins muni tapa tekjum þar sem nýir aðilar muni fleyta rjómann af tekjunum þar sem eru þéttust er byggðin og ódýrast að sjá um dreifingu pósts. Það mun leiða til rekstrartaps viðkomandi rekstrarleyfishafa nema til komi leyfi til mishárrar gjaldskrár eftir landsvæðum sem þá muni valda mismunun þegnanna. Póstþjónusta er að mati Póstmannafélags Íslands samfélagsþjónusta sem allir landsmenn eiga að hafa aðgang að á jafnréttisgrundvelli.``

Virðulegi forseti. Þetta er umsögn Póstmannafélags Íslands um þetta frv. sem við erum að fjalla um. Við þessu öllu er skellt skollaeyrum af hálfu meiri hlutans á Alþingi, meiri hluta Sjálfstfl. og Framsfl. sem hugsar um það eitt hvernig hægt er að einkavæða og framselja almannaþjónustuna og rýra þar með jöfnuð og samábyrgð í þjóðfélaginu.

Það er líka rétt að vekja athygli á því sem hér hefur komið fram að ein rökin fyrir þessu í samgn. og með greinargerðinni eru að hér sé verið að framfylgja EES-tilskipunum, tilskipunum sem fyrst og fremst eru sniðnar að Mið-Evrópusvæðunum, að Mið-Evrópu þar sem þéttbýlustu svæði í heiminum eru ef frá eru taldar nokkrar þjóðir í Asíu þar sem allt aðrar aðstæður eru en hér. Þetta er því ekki sambærilegt. Þegar það var til umræðu í hv. samgn. hvort þessar EES-tilskipanir pössuðu við íslenskar aðstæður, þá kom fram í nefndinni að ekki þýddi að velta svoleiðis löguðu fyrir sér, ekkert þýddi að ræða þessi mál á skynsemisgrunni, þau væru utan við skynsemi, þau væru bara tilskipanir sem yrði að fara eftir.

Ég mótmæli því að á Alþingi eigi bara að taka við tilskipunum eins og þegar verið er að ala gæsir til fitunar. Ég mótmæli slíku. Og er það þó heldur engin meðferð á aligæsum, fjarri því. En svo virðist framkoman vera hjá íslenskum stjórnvöldum að þau láta mata sig með þessum hætti og klígjar ekki við.

Ég minni á að hæstv. forsrh. hefur sagt á Alþingi að okkur beri ekki að gleypa skoðunarlaust og skynsemislaust við hverri og einni tilskipun frá Evrópusambandinu. Sú virðist þó vera raunin. Ég minni líka á, og það hefur komið fram í umræðunni, að hv. þm. Björn Bjarnason, fyrrv. hæstv. menntmrh., hefur einmitt lýst þessu yfir líka. Þó að þessir hv. þm. hafi kannski oft annarlegar skoðanir annars þá er ég sammála þeim í þessu, að ekki á að gleypa með svona einföldum hætti tilskipanir Evrópusambandsins hér í hinu dreifbýla eyríki Íslandi.

Virðulegi forseti. Ég verð ítrekað að benda á að ég tel það vott um slæm vinnubrögð og skammsýni eða rangsýni að lögfesta hér gagnrýnislaust reglugerðir, reglur og tilskipanir Evrópusambandsins hvað varðar almannaþjónustu í landinu. Ég mótmæli því og lýsi því yfir nú við 3. umr. að við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs erum andvígir því að einkavæðingu póstþjónustunnar sé haldið hér áfram í bútum því hún leiðir til skertrar þjónustu og skertra möguleika á að halda uppi góðri þjónustu um allt land. Ég mótmæli því enn fremur að við þurfum hér eins og viljalaus dýr að undirgangast tilskipanir Evrópusambandsins. Við eigum að hafa myndugleika til þess að leggja eigið og sjálfstætt mat á hvað okkur er fyrir bestu.