Afbrigði

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 18:59:15 (2636)

2002-12-12 18:59:15# 128. lþ. 55.94 fundur 322#B afbrigði# (afbrigði við dagskrá), ÖJ (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 128. lþ.

[18:59]

Ögmundur Jónasson (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Í upphafi þessa þingfundar verður gengið til atkvæða um heimildir til að veita afbrigði. Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs mun sitja hjá við þá atkvæðagreiðslu. Ástæðan er sú að undanfarna klukkutíma hafa staðið yfir viðræður hæstv. forseta þingsins við formenn þingflokka um þinghaldið og þinglokin. Það er ekki séð fyrir endann á þeim viðræðum og viljum við ekki bregða fæti fyrir framgang mála á nokkurn hátt. Þótt við sitjum hjá við atkvæðagreiðsluna er ekki í því fólginn nokkur stuðningur við þau frv. sem um er að tefla. Reyndar erum við andvíg sumum þessara frv., mjög svo, og gagnrýnum mjög harðlega vinnubrögð ríkisstjórnarinnar.

Síðustu daga og síðustu klukkustundir hefur hver ráðherrann á fætur öðrum komið hlaðinn frv. og ætlast til þess að þau séu sett á dagskrá, fái umræðu í þinginu og verði síðan samþykkt nánast blindandi, ólesin. Þetta eru vinnubrögð sem Alþingi á ekki að láta bjóða sér.