Stofnun hlutafélags um Norðurorku

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 20:39:44 (2644)

2002-12-12 20:39:44# 128. lþ. 55.20 fundur 457. mál: #A stofnun hlutafélags um Norðurorku# frv. 159/2002, iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 128. lþ.

[20:39]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um stofnun hlutafélags um Norðurorku. Frv. er flutt að beiðni bæjarstjórnar Akureyrarbæjar en á fundi bæjarstjórnar þann 3. des. sl. var samþykkt að stofna hlutafélag um rekstur Norðurorku.

Á undanförnum árum hafa eigendur orkufyrirtækja verið að breyta rekstrarformi þeirra. Þannig voru fyrir nokkru stofnuð hlutafélög um rekstur Orkubús Vestfjarða og Hitaveitu Suðurnesja. Þá má geta stofnunar sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur. Þessar breytingar voru allar heimilaðar með lögum frá Alþingi.

Frv. það sem hér er flutt er sambærilegt við frv. um stofnun hlutafélaga um önnur orkufyrirtæki. Ástæður þess að nauðsyn ber til þess að setja sérlög um stofnun hlutafélagsins eru einkum tvær. Í fyrsta lagi telst starfræksla vatnsveitu í þeim tilgangi að fullnægja vatnsþörf almennings, heimila og atvinnufyrirtækja meðal skylduverkefna bæjarstjórna í kaupstöðum og bæjum samkvæmt lögum um vatnsveitur sveitarfélaga. Í frv. er gert ráð fyrir að hlutafélagið yfirtaki skyldu Akureyrarbæjar til starfrækslu vatnsveitu en það verður ekki gert nema til þess sé heimild í sérlögum.

Í öðru lagi er í orkulögum að finna heimild til að veita sveitarfélögum og samtökum þeirra einkaleyfi til þess að starfrækja hitaveitur og sveitarfélag getur með samþykki ráðherra framselt einstaklingum eða félögum að einhverju eða öllu leyti slíkt einkaleyfi um ákveðið tímabil í senn. Samkvæmt frv. er gert ráð fyrir að hlutafélagið taki við einkarétti Akureyrarbæjar og Norðurorku til starfrækslu rafveitu og hitaveitu á þeim svæðum sem Norðurorka þjónar við stofnun hlutafélagsins.

Í frv. er gert ráð fyrir að Norðurorka hf. taki til starfa 1. janúar 2003 og yfirtaki þá allar eignir, réttindi, skuldir og skuldbindingar Norðurorku. Frumvarpið gerir ráð fyrir að allir starfsmenn Norðurorku eigi rétt á störfum hjá hinu nýja fyrirtæki og verða þeim boðin störf hjá Norðurorku hf. sambærileg þeim er þeir áður gegndu. Í athugasemdum við 7. gr. frv. er gerð ítarleg grein fyrir réttarstöðu starfsmanna við breytingu á rekstrarformi Norðurorku.

Hæstv. forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjalla nánar um einstakar greinar frv. og tel að frv. skýri sig sjálft. Ég leyfi mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. iðnn.