Stofnun hlutafélags um Norðurorku

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 20:45:44 (2648)

2002-12-12 20:45:44# 128. lþ. 55.20 fundur 457. mál: #A stofnun hlutafélags um Norðurorku# frv. 159/2002, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 128. lþ.

[20:45]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. talaði um að flytja starfsemi Rariks norður í land. Allir vita að starfsemi Rariks er dreifð um landið þannig að það er ekki um það að ræða að flytja hana á einn stað. Hins vegar reikna ég með að hv. þm. sé að tala um höfuðstöðvar Rariks. Um það er að segja að miðað við það frv. sem nú hefur verið lagt fram á hv. Alþingi en ekki tekið til umræðu er samkomulag um að III. kafla frv. verður frestað þannig að gildistaka eigi sér ekki stað fyrr en 1. janúar 2004, verði frv. að lögum sem þýðir að raforkulagaumhverfið sem tengist tilskipun Evrópusambandsins mun ekki í raun taka gildi fyrr en 1. janúar 2004. Það þýðir að hugsanleg sameining þessara fyrirtækja getur ekki gengið í gegn fyrr en þá.

Þarna eru því nokkur tíðindi vil ég meina. Við getum a.m.k. ekki látið þessa breytingu eða sameiningu eiga sér stað fyrr en sú breyting hefur orðið sem kveðið er á um í III. kafla frv.