Stofnun hlutafélags um Norðurorku

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 21:08:12 (2652)

2002-12-12 21:08:12# 128. lþ. 55.20 fundur 457. mál: #A stofnun hlutafélags um Norðurorku# frv. 159/2002, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 128. lþ.

[21:08]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef hæstv. iðnrh. áttar sig ekki á því hver þessi breyting er erum við í verri málum en ég hélt. Þótt ég grípi ekki nema bara til 6. gr., sem ég gerði töluvert mál úr, kemur þar berlega fram að það skal gæta almennra arðsemissjónarmiða. Og hver eru almenn arðsemissjónarmið? Þau geta rokkað á stóru bili. Menn hafa verið í þessum sveitarfélagareknu fyrirtækjum kannski að taka 7% en ef almenn arðsemissjónarmið eru látin gilda, hvað vilja menn þá fá í þessu fyrirtæki? Vilja menn ekki fá kannski 12%? Eða kannski upp undir 20%? Það er spurningin.

Hér er um mjög mikla breytingu að ræða, auðvitað. Og það er líka um mjög mikla breytingu að ræða ef menn eru á framtíðarvegferð þar sem þeir slá sér saman við önnur fyrirtæki. Fyrirtækið eitt og sér mun á allra næstu árum vera í þeirri stöðu að orkuverð mun stórlega lækka.

Ef menn ætla að fara út í stækkun og nota fyrirtæki sem efnahagslegan bakhjarl til þess, hvort sem það er að slá sér saman við önnur fyrirtæki eins og ég rakti áðan eða annað, er náttúrlega vonin um að orkuverðið verði lægra fokið út í vindinn. Almennra arðsemissjónarmiða verður bara gætt.