Stofnun hlutafélags um Norðurorku

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 21:10:17 (2653)

2002-12-12 21:10:17# 128. lþ. 55.20 fundur 457. mál: #A stofnun hlutafélags um Norðurorku# frv. 159/2002, BBj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 128. lþ.

[21:10]

Björn Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. lét þess getið að það hefði ekki vafist fyrir borgarstjórn Reykjavíkur að fara út í að mynda sameignarfyrirtæki um Orkuveitu Reykjavíkur. Þetta er rangt. Það vafðist mjög fyrir borgarstjórn Reykjavíkur að fara út í að mynda sameignarfyrirtæki. Það voru aðeins fulltrúar Vinstri grænna í borgarstjórninni sem komu í veg fyrir að stofnað yrði hlutafélag. Hugur allra annarra stóð til þess, bæði þeirra sem eiga fyrirtækið með Reykjavíkurborg og annarra, og þeir töldu að það væri skynsamlegasta leiðin til þess að Orkuveita Reykjavíkur nyti sín sem best, að því yrði breytt í hlutafélag í eigu sveitarfélaganna.

Það vafðist því verulega fyrir borgarstjórn. Innan R-listans var að lokum látið undan kröfu Vinstri grænna um að þetta yrði sameignarfyrirtæki. Ef hv. þm. telur að arðsemiskrafan í 6. gr. sem hann nefnir sé eitthvað einkennandi fyrir þetta fyrirtæki vegna þess að það er hlutafélag ætti hann að kynna sér lögin um Orkuveitu Reykjavíkur, sameignarfyrirtækið, þar sem sams konar ákvæði eru.