Stofnun hlutafélags um Norðurorku

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 21:11:25 (2654)

2002-12-12 21:11:25# 128. lþ. 55.20 fundur 457. mál: #A stofnun hlutafélags um Norðurorku# frv. 159/2002, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 128. lþ.

[21:11]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að það kom fram hjá hv. þm. Birni Bjarnasyni að sú staðreynd að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð eigi aðkomu að borgarstjórn Reykjavíkur hafi orðið til þess að sameignarfélag var stofnað. Það er alveg rétt að við urðum til þess. Ég tel að í framhaldi af þeim umræðum sem þar urðu og átökum um form hafi ekki vafist fyrir mönnum að fara yfir í þetta rekstrarform. Eftir því sem ég veit best hefur það gefist ágætlega, það sem af er. Aðrar upplýsingar hefur maður ekki.

Það er því mjög gott að það komi skýrt fram að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð varð þess valdandi að fyrirtækið varð ekki hlutafélagavætt og þarf þá ekki að hafa áhyggjur í allra nánustu framtíð af því að það verði sett á markað og selt eins og aðrar félagslegar eignir á síðustu missirum.