Stofnun hlutafélags um Norðurorku

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 21:35:25 (2658)

2002-12-12 21:35:25# 128. lþ. 55.20 fundur 457. mál: #A stofnun hlutafélags um Norðurorku# frv. 159/2002, SJS
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 128. lþ.

[21:35]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hæstv. iðn.- og viðskrh. hafði um það þau orð áðan í andsvari eða orðaskiptum að hér væri eingöngu um formbreytingu á fyrirtæki að ræða og í raun lá í orðunum, ef ég má leyfa mér að túlka þau svo, að þetta væri hreint smámál því þetta væri bara svona um að rétt setja stafina hf. aftan við þetta orkufyrirtæki. Mér sýnist nú ekki svo vera, herra forseti. Ég held að hæstv. ráðherra hafi nú ekki alveg farið nákvæmlega með að hér sé verið að breyta einfaldlega formi á fyrirtæki sem stundar öflun og dreifingu vatns, raforku og hitaorku í formi heits vatns. Staðreyndin er sú að samkvæmt frv. er verið að gefa fyrirtæki, hlutafélagi, í raun heimildir til að reka alla starfsemi milli himins og jarðar. Þetta nýja hlutafélag, ef stofnað verður með þessum hætti, Norðurorka hf., getur gert það sem því sýnist algerlega samkvæmt eigin ákvörðunum og það getur blandað allri þessari starfsemi saman eins og því sýnist.

Ég verð að segja, herra forseti, að það undrar mig nokkuð að þetta mál skuli koma hér fram á allra síðustu klukkustundum þinghaldsins fyrir jól og að því skuli dreift um svipað leyti, eða kannski einhverjum klukkutímum á eftir, og nýju frv. til raforkulaga sem ekki hefur enn verið rætt og verður væntanlega ekki afgreitt, alla vegana ekki fyrir jól. Það dettur væntanlega engum í hug. Þetta er eiginlega neyðarleg tilviljun, herra forseti, því ég sé ekki betur en að það sé í hrópandi mótsögn við þá framtíð sem þrátt fyrir allt má reikna með að sé að teiknast upp með þessari nýju skipan raforkumála ef marka má ákvæðin sem koma fyrir í frv. og kemur það ekki á óvart vegna þess í að orkutilskipun Evrópusambandsins sem við erum bundin af þó íslensk stjórnvöld hafi að vísu ekki fullgilt hana enn þá, er kveðið á um algeran aðskilnað einkaleyfisbundinnar starfsemi og meira að segja aðskilnað hinna einstöku þátta innan orkusviðsins, þ.e. orkuöflun eða virkjun orkunnar og síðan dreifingar, flutninga og dreifingar og smásölu.

Þá má líka spyrja: Er ekki verið að fara í hlutina í algjörlega öfugri röð með að rjúka til og breyta nú þessu fyrirtæki nyrðra á þessum grunni áður en raforkulögin hin nýju líta dagsins ljós og framtíðarstarfsumhverfi orkufyrirtækjanna liggur fyrir? Ég held það.

Ég verð að segja að það eru nokkur vonbrigði að sjá að meiri hluti bæjarstjórnar á Akureyri, sem að vísu er hinn sami og er í ríkisstjórninni og kemur þar af leiðandi kannski ekki á óvart að spili hér saman, skuli ekki telja skynsamlegra að bíða átekta og láta hið nýja lagaumhverfi, bæði orkufyrirtækjanna og einnig þess vegna vatnsveitnanna sem sömuleiðis eru á borðum þingmanna, ganga fram fyrst og taka svo ákvarðanir um framtíðarfyrirkomulag sinna fyrirtækja eða síns fyrirtækis á þessu sviði.

Eins og hér hefur þegar komið fram hjá fyrri ræðumönnum úr þingflokki Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs þá hefðum við talið æskilegri leið í þessum efnum til að búa um og varðveita hið félagslega rekstrarform veitustarfsemi af þessu tagi, að ekki sé nú talað um auðvitað vatnsveiturnar sérstaklega, að um þær væri þá búið ef ekki í hreinum sveitarfélagafyrirtækjum þá í sameignarfyrirtækjum. Þau hafa í raun alla sömu kosti. Í öllum aðalatriðum er ekkert sem það rekstrarform býður ekki upp á eins og hlutafélögin svo ágæt sem þau eru til síns brúks. En hér er bara ósköp einfaldlega, herra forseti, ekki um venjulega viðskiptastarfsemi, venjulegan rekstur í samkeppni að ræða. Hér er um einkaleyfabundna starfsemi og hér er um að ræða starfsemi sem lýtur lögmálum eðlislægrar einokunar, fýsískrar einokunar, vegna þess að menn dreymir nú yfirleitt ekki um að lögð séu mörg dreifikerfi raforku eða margar vatnslagnir inn í hús í hverju og einu sveitarfélagi.

Fyrir það fyrsta verða menn því að horfast í augu við þetta, að hér er um mjög sérstaka starfsemi, mjög sérstök viðskipti að ræða, af því þau eru dæmd til að lúta lögmálum þessarar eðlislegu eða eðlisfræðilegu, efnislegu einokunar sem fólgin er því að það getur varla verið mikil skynsemi í að reka margföld dreifikerfi af þessu tagi.

Auðvitað er hægt að hugsa sér að fara einhverja fjarskiptalagaleið um það að skylda menn til að hafa samkeppni um aðgang að slíkum veitum. En þá byrja að myndast miklar flækjur sem menn hafa nú verið að glíma við að leysa úr víða í heimimum með vægast sagt misjöfnum árangri, þar sem menn hafa lent út í þessar ógöngur einkavæðingar og einkarekstrar á veitustarfsemi af þessu tagi. Það sýnir sagan. Reynslan frá Bretlandi, Nýja-Sjálandi og Bandaríkjunum er vægast sagt slæm. Blendin, væri vægt til orða tekið. Það hafa meira að segja hörðustu íhaldsmenn í Bretlandi viðurkennt, gallharðir thatcheristar viðurkenna að í ofstækinu á sínum tíma þá bar menn náttúrlega stórlega af leið og alveg sérstaklega þegar kom að því að menn ruku til og fóru að rembast við að reyna að einkavæða rekstur veitufyrirtækja og jafnvel járnbrauta og annað í þeim dúr með mjög misjöfnum árangri eins og kunnugt er.

Herra forseti. Nú er mér að vísu ljóst að hér er á ferðinni væntanlega skv. 3. gr. um samþykktir eða tilgang fyrirtækisins svipuð ákvæði og hafa áður litið dagsins ljós. En þau eru þó þannig að þetta fyrirtæki hefur ekki bara það verkefni skv. 3. gr. og heimildir til þess þá samkvæmt lögum ef stofnað verður, að sinna orkurannsóknum, vinnslu og framleiðslu raforku, varma og vatns og hvers konar annarra auðlinda --- þetta er nú nokkuð --- nei, dreifingu og sölu afurða fyrirtækisins einnig, ásamt hverri þeirri starfsemi annarri sem nýtt getur rannsóknir, þekkingu eða búnað fyrirtækisins --- þetta er nú orðið þó nokkuð vítt --- sem og iðnþróun og nýsköpun af hverju tagi --- eins og það sé nú ekki nóg að fyrirtækið hafi algjörlega opnar heimildir og frjálsar hendur til þess að taka þátt í hvers kyns starfsemi af þessum toga, er hnýtt aftan í --- ásamt annarri viðskipta- og fjármálastarfsemi samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni. Fyrirtæki getur blandað saman rekstri vatnsveitunnar á grundvelli einkaréttar sveitarfélagsins, rekstri rafveitunnar á grundvelli einkaréttar sveitarfélagsins og hitaveitunnar og hvers kyns annarri starsemi, þar með talinni viðskipta- og fjármálastarfsemi. Það getur væntanlega þess vegna rekið banka, sameinast á morgun stóru sjávarútvegsfyrirtæki, keypt banka daginn þar á eftir og grautað þessu öllu saman í rekstri sínum.

En í vændum er löggjöf ef marka má, raforkulöggjöf, þar sem á að kljúfa upp, ekki bara svona óskylda starfsemi heldur sjálfa orkustarfsemina niður í einstaka þætti, framleiðslu sér, flutningakerfi sér og dreifiveitur sér. Það er beinlínis óheimilt að færa fjármuni á milli þátta í þessum rekstri. Það er tekið fram í hverju tilviki fyrir sig. Það er hér alveg uppálagt og skýrt í sambandi við raforkuvinnsluna í frv. um raforkulög sem hér liggur á borðunum að vinnslufyrirtækjunum er heimilt að stunda sérleyfisstarfsemi en óheimilt er því að niðurgreiða vinnsluna með sérleyfastarfseminni eða starfsemi sem hefur sambærilega stöðu.

[21:45]

Sama gildir um flutningafyrirtækin. Þeim er óheimilt að blanda þessu saman og flytja fjármuni þarna á milli. Það er hluti af starfsskyldum þeirra að sjá til þess að þarna sé fullkominn aðskilnaður.

Dreifing, dreifiveitur. Þær skulu vera sjálfstæður skatta- og lögaðili. Þær mega ekki blandast saman við aðra þætti raforkumálanna, og óheimilt er dreifiveitu að niðurgreiða samkeppnisrekstur sem hún stundar af starfsemi vegna dreifingar eða annarri sérleyfisstarfsemi eða starfsemi sem hefur sambærilega stöðu.

Það verður því ekki annað séð en að þetta fyrirtæki, ef stofnað verður, verði í alveg fullkomnu ósamræmi við það sem í vændum er samkvæmt a.m.k. raforkulagaþætti þessa máls og reyndar í vandræðum gagnvart gildandi lögum, orkulögum og lögum um vatnsveitur sveitarfélaga. En eins og kunnugt er eru vatnsveitur samkvæmt gildandi lögum skylduverkefni sveitarfélaga og sveitarfélögin eiga að sjá um þann rekstur sjálf, og fyrir liggur lagaálit um að þannig eigi það að vera.

Það er t.d. alveg ljóst að ef vatnsveita er inni í stærra fyrirtæki sem annast raforkudreifingu eða hvaða aðra starfsemi sem er og það fyrirtæki er gert að hlutafélagi þá er það í reynd brot á gildandi lögum um vatnsveitur sveitarfélaga. Daginn sem einhver annar en sveitarfélag eignast eitt einasta prósent í því fyrirtæki er það alveg kolólöglegt, er skýrt lögbrot á skyldum sveitarfélaganna til að eiga og reka vatnsveiturnar og þar er um engar framsalsheimildir af einu eða neinu tagi að ræða.

Ég hefði haldið, herra forseti, að miklum mun farsælla væri að bíða átekta með breytingar af þessu tagi, láta þetta lagaumhverfi, bæði í raforkugeiranum og varðandi vatnsveiturnar og í sjálfu sér orkuþáttinn í hitaveiturekstrinum eða nýtingu jarðhitans einnig, skýrast og á grundvelli þess gætu menn svo tekið ákvarðanir sínar um fyrirkomulag fyrirtækja sinna. Nema mönnum liggi þessi lifandis ósköp á vegna þess að það sé auðvitað eitthvað meira í vændum en bara þetta sem hæstv. iðnrh. kallar formbreytingu. Og það er svo sem ekkert fjarlægt að láta sér detta það í hug því að hæstv. ráðherra hefur auðvitað kynnt hugmyndir sínar um stórfellda breytingu í þessum efnum og hefur ekki alls staðar vakið hrifningu, eins og t.d. það að taka Orkubú Vestfjarða og sameina það inn í nýtt félag með Rafmagnsveitum ríkisins og Norðurorku, og þótti þá Vestfirðingum fara lítið fyrir svardögum og loforðum um að ekki yrði hróflað við Orkubúi Vestfjarða þó að það yrði selt ríkinu. Ég veit að ég þarf ekki að rifja upp þá umræðu, það nægir að vitna til hennar.

Um þá hluti er auðvitað erfitt að ræða í tilgátustíl. En ég leyfi mér að hafa miklar efasemdir um að það sé endilega sérstaklega spennandi fyrir íbúa Akureyrar að lenda inni í þeim sviptingum. Ég vísa þar m.a. til þess sem hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson sagði áðan að það eru auðvitað Akureyringar sem hafa borið hitann og þungann af því að afskrifa hinar miklu fjárfestingar, einkum í hitaveitunni, og sjá nú loks fyrir endann á þeim hlutum og betri tíð í vændum þar sem þetta fyrirtæki, ef það heldur áfram að greiða niður skuldir sínar, er að komast í aðstöðu til að lækka verulega orkukostnaðinn á svæðinu, og íbúarnir fara þá að njóta góðs af þeirri fjárfestingu sem þeir hafa verið að afskrifa á undanförnum 20 árum eða svo í gegnum tiltölulega hátt verð hjá þjónustufyrirtæki eins og einkum hitaveitunni.

Er þá endilega víst að hagsmunum notenda á því svæði sé betur borgið inni í nýju fyrirtæki, ég tala nú ekki um ef það færi að fara út í samkvæmt heimildunum alls konar aðra starfsemi? Það hefði verið gaman að heyra hv. þm. Björn Bjarnason, sem aðeins blandaði sér hér inn í umræðurnar, tjá sig um það mál. Ber þá nýrra við ef sjálfstæðismenn eru orðnir sérstaklega hrifnir af því að óskyldum þáttum sé blandað saman í fyrirtækjum af þessu tagi. Mér hefur heyrst eitthvað annað á þeim að undanförnu, og ætla svo sem ekki að fara í þá umræðu frekar en ég hygg að hv. þm. viti til hvers ég er að vísa.

Ég held að orkufyrirtæki, að vatnsveitur eða hitaveitur eigi að vera vatnsveitur eða hitaveitur og reyna að sinna þeim verkefnum vel og reyna að bjóða upp á eins góða og ódýra þjónustu og kostur er og það sé síðan annarra að standa í annars konar viðskiptum og annars konar starfsemi í grunninn. Það er mitt álit í þessum efnum. Ég sé það ekki endilega sem framför í þessum efnum að þarna sé öllum hlutum grautað saman með þeim hætti sem þetta frv. á að bjóða upp á og það er vegna þess hversu viðkvæm þessi þjónusta í raun og veru er í eðli sínu. Það er vegna þess að á endanum er notandi sem á engan annan kost en að kaupa þjónustuna af þeim sem hana er að bjóða, því að það er bara ein vatnsleiðsla inn í húsið hjá viðkomandi og hann verður að fá sitt vatn.

Það er þess vegna sem þannig hefur verið búið um þetta í lögum að það sé lögbundin skylda viðkomandi sveitarfélags að tryggja þessa þjónustu rétt eins og margt annað sem við leggjum sveitarfélögunum á herðar að sjá um, að standa fyrir grunnskóla eins og nú er komið þannig að börnin í viðkomandi sveitarfélagi eigi kost á undirstöðumenntun, og að standa fyrir öðrum slíkum undirstöðuþörfum íbúanna sem er lögbundið hlutverk sveitarfélaganna. Ég held að greina eigi þarna á milli með mjög skýrum hætti.

Auðvitað vitum við vel að einkakapítalið mænir á hina opinberu þjónustu og vill komast inn í hana í gegnum einkavæðingu til þess að færa út kvíarnar og ná undir sig starfsemi af þessu tagi þannig að einnig þar sé hægt að fara að draga arð til að ávaxta fjármagnið. Þetta er ósköp einfaldlega svona og þess vegna er rekin sú stífa lína af forsvarsmönnum fjármagnsins, bæði hér á landi sem alþjóðlega, að færa út þessi landamæri þannig að einkafjármagnið komist inn á fleiri svið og geti farið að ávaxta sig einnig í gegnum samfélagsþjónustuna og velferðarkerfið. Þetta er ósköp einfaldlega spurningin um grundvallarpólitík og grundvallarhugmyndafræðiátök í stjórnmálum sem hér láta á sér kræla og ekkert óskaplega flókið mál ef út í það er farið. Það er nú bara þannig.

En þá er líka komið að þeirri spurningu hvort við teljum að engan greinarmun eigi að gera á starfsemi í samfélaginu yfirleitt, hvers eðlis hún er, hvaða tilgangi hún þjónar, hvaða þörfum hún á að mæta, að það sé alls staðar réttmætt að koma inn með kröfurnar um að fjármagnið fari þar inn og dragi sér síðan arð út úr viðkomandi hlutum, hvort sem það er umönnun á sjúku fólki, það að tryggja að menn fái vatn inn í húsin sín eða annað í þeim efnum.

Vonandi er nú langt í það, herra forseti, að vatnsmál beri á góma á Íslandi með sama hætti og þau ber á góma víða í þróunarríkjunum og á þeim svæðum þar sem vatnsskortur er viðvarandi og átök um vatn kynda jafnvel undir ófriði og allt það. Þar standa menn auðvitað frammi fyrir mikilli orrustu um á hvaða hátt þær grunnþarfir manna verða uppfylltar og hvort einnig þær verða vígvöllur hins alþjóðlega fjármagns til þess að ávaxta sig, en það eru hugmyndir manna að leggja þriðja heiminn undir sig, að fótum sér m.a. í þessum viðskiptum og hefur verið tekist á um það á alþjóðaráðstefnum að undanförnu. Við ættum að hafa þannig framtíð landi okkar að það væri nú ekki alveg handan við hornið.

En hver veit hvar vegferð af þessu tagi endar ef menn hefja hana með fyrstu skrefum sem eru að breyta þeim þjónustufyrirtækjum sem hafa verið í eigu íbúanna í viðkomandi sveitarfélögum í hlutafélög? Það verða alveg örugglega einhverjir til þess sem að því koma á næstu árum og áratugum þar sem slík formbreyting hefur átt sér stað, að hefja þá einkakvæðingu þeirra. Auðvitað er sú þróun kannski þegar hafin með vissum hætti vegna þess að fyrirtæki og illa stödd sveitarfélög hafa orðið að selja slík fyrirtæki frá sér, ekki að gamni sínu og ekki vegna þess að sveitarstjórnarmenn, held ég, almennt vilji það hvaða flokki sem þeir tilheyra, heldur vegna þess að neyðin hefur rekið menn til þess.

Reynslan hefur kennt okkur það, herra forseti, að trúa varlega öllum yfirlýsingum og svardögum um hluti af því tagi að ekkert nema saklaus formbreyting sé á ferðinni þegar verið er að breyta undirstöðuþjónustufyrirtækjum í hlutafélög.