Stofnun hlutafélags um Norðurorku

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 21:57:52 (2660)

2002-12-12 21:57:52# 128. lþ. 55.20 fundur 457. mál: #A stofnun hlutafélags um Norðurorku# frv. 159/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 128. lþ.

[21:57]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég bakka að sjálfsögðu ekki fet með það að í 3. gr. frv. er skilgreindur tilgangur fyrirtækisins Norðurorku hf. og þar eru algerlega galopnar heimildir til þess að stunda hvaða starfsemi sem er. Það er ekki einu sinni áskilnaður um að starfsemi óskyld orkuvinnslunni og vatnsdreifingunni sé þá a.m.k. höfð í sjálfstæðum dótturfyrirtækjum. Nei, nei, þetta má bara allt saman vera í nafni þessa fyrirtækis, Norðurorku hf., þess vegna fjármálastarfsemi, verðbréfasala eða hvað það nú er.

Varðandi síðan spurningar um sameiningu fyrirtækja og endurskipulagningu í raforkugeiranum þá bið ég hæstv. ráðherra að vera ekkert að reyna að leggja mér orð í munn eða gera mér upp skoðanir. Ég tjáði mig ekkert um hvort það væri slæmur kostur eða æskilegur, t.d. að höfuðstöðvar orkufyrirtækis sem væri með Norðurland undir eða þess vegna landsbyggðina, eins og Rariks væru á Akureyri. Það situr síst á mér að vera ekki opinn fyrir hugmyndum af slíku tagi en ég skrifa heldur ekki upp á neitt í þeim efnum fyrr en ég sé hvernig það er útfært. Og ég skrifa ekki upp á það ef það gæti á endanum orðið þannig að þau verðmæti, eignarhlutur Akureyringa í þessum orkufyrirtækjum endaði sem mikill minni hluti inni í fyrirtæki sem yrði svo kannski að lokum með höfuðstöðvar í Reykjavík. Ef hæstv. ráðherra vill flytja Rarik norður á Akureyri, þá á hæstv. ráðherra bara að flytja Rarik norður á Akureyri en ekki hengja það endilega við það að færa þurfi bæjarveiturnar í því sveitarfélagi inn í það fyrirtæki. Mér finnst það eiga að vera sjálfstætt mál.

Ég held að það sé margt sem kalli á og hafi gert um árabil að endurskipuleggja orkumarkaðinn á Íslandi. Ég hef oft nefnt það að í raun og veru er þetta vandræðafyrirkomulag að reka annars vegar Landsvirkjun og hins vegar Rarik og að mörgu leyti hefði verið miklu betra að sameina framleiðsluþáttinn í einu fyrirtæki og kannski dreifinguna í öðru fyrir löngu og hafa ekki þetta óhagstæða fyrirkomulag í raun og veru sem Rarik er með fyrir landsbyggðina og hefur farið versnandi.