Stofnun hlutafélags um Norðurorku

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 22:00:09 (2661)

2002-12-12 22:00:09# 128. lþ. 55.20 fundur 457. mál: #A stofnun hlutafélags um Norðurorku# frv. 159/2002, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 128. lþ.

[22:00]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem ég var að reyna að segja áðan er að þó að fyrirtækið Norðurorka hf., miðað við að þetta frv. verði að lögum, stundi aðra starfsemi munu önnur lög koma í veg fyrir að öllu verði grautað saman eins og hv. þm. hélt fram að gæti orðið. Frv. til nýrra raforkulaga kveður á um gegnsæi eins og ég hef margsinnis látið koma fram og kveður einnig á um aðskilnað milli rekstrarþátta. Þetta ætti því ekki að vera áhyggjuefni að mínu mati.

Hv. þm. efast um réttmæti þess að sameina fyrirtæki og þar fram eftir götunum. Það er bara mannlegt og eðlilegt að efast en samt er ekki gott að nálgast hluti almennt á neikvæðan hátt, eins og mér finnst hv. þm. gera. Það sem var efst í huga okkar sem höfðum áhuga á því að sameina fyrirtæki --- ég vil nú ekki útiloka að það geti orðið þótt síðar verði --- er einmitt að á þann hátt væri hægt að búa til öflugt orkufyrirtæki sem fyrst og fremst starfaði á landsbyggðinni. Það var meginhugsunin og er enn. Mér finnst að hv. þm. ætti alla vega að geta komið upp og sagt að hann sé hlynntur þeirri hugsun þó hann geti haft efasemdir um útfærsluna.