Stofnun hlutafélags um Norðurorku

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 22:06:38 (2664)

2002-12-12 22:06:38# 128. lþ. 55.20 fundur 457. mál: #A stofnun hlutafélags um Norðurorku# frv. 159/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 128. lþ.

[22:06]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Varðandi hið síðastnefnda tel ég að þær ábendingar og sú umræða sé fyrst og fremst sprottin af þeirri trú manna að af slíkum formbreytingum verði. Ég er út af fyrir sig alveg sammála því að ef menn fara út á þessa braut, að slík þjónustufyrirtæki og einokunarfyrirtæki með einkaleyfisbundna starfsemi séu einkavædd og rekin eins og hver önnur fyrirtæki, þurfi að huga sem aldrei fyrr að stöðu neytendanna eða notendanna. En þar með er ekki sagt að menn þurfi að fara út í formbreytinguna, séu fyrirtækin rekin sem hrein þjónustufyrirtæki á vegum opinberra aðila á félagslegum grunni er staðan allt önnur. Þá eru það hinir kjörnu fulltrúar íbúanna sem fara með umboðin og eiga að sjá til að þessi þjónusta sé skilvirk og vel af hendi leyst eins og annað sem það sveitarfélag eða ríki eða félagslegi aðili stendur fyrir. Við eigum að mínu mati að taka grundvallarumræðuna fyrst.

Varðandi það að grauta hlutum saman og blanda saman þessari orku- eða veitustarfsemi annars vegar og öðrum þáttum er það þó þannig --- það eru kannski rökin fyrir því að orkufyrirtæki eins og Landsvirkjun eða Orkuveita Reykjavíkur séu með fjarskiptastarfsemi eða leggi ljósleiðara --- að þar er skyld starfsemi í þeim skilningi að það eru lagnir sem fara um viðkomandi sveitarfélag. Af starfinu eru ákveðin samlegðaráhrif og annað í þeim dúr. Það eru væntanlega rökin og ég er alveg móttækilegur fyrir þeim. En ég tel auðvitað að menn verði að draga þar einhvers staðar mörk. Ég er ekkert endilega sérstakur stuðningsmaður slíkrar blöndunar. Ég sæi gjarnan fyrir mér að menn hefðu þar mjög kláran aðskilnað á milli. Það byrja strax að myndast grá svæði og rísa deilur þegar einkaleyfisbundinni starfsemi og öðrum slíkum óskildum þáttum í samkeppni við aðila úti á markaði er blandað saman. Það segir sagan.