Stofnun hlutafélags um Norðurorku

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 22:13:15 (2667)

2002-12-12 22:13:15# 128. lþ. 55.20 fundur 457. mál: #A stofnun hlutafélags um Norðurorku# frv. 159/2002, JB
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 128. lþ.

[22:13]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um stofnun hlutafélags um Norðurorku. Hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, Ögmundur Jónasson, Árni Steinar Jóhannsson og Steingrímur J. Sigfússon, hafa farið mjög svo ítarlega í gegnum þetta mál og rakið rækilega hversu fáránlegur málatilbúnaðurinn er sem hér er til umræðu.

Skilgreiningin á hlutafélagi var kannski einkennandi fyrir umræðuna hér í lokin, í orðaskiptum hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og hv. þm. Björns Bjarnasonar. Hjá hv. þm. Birni Bjarnasyni kom fram að fyrir honum er hlutafélag trú en ekki umgjörð fyrirtækis. Menn stofna hlutafélag og það er ekki bara formbreyting heldur í raun eðlisbreyting. Í máli hv. iðnrh. er sami misskilningur á ferð. Maður stofnar hlutafélög til að geta selt hluti, ekki endilega í heilu lagi. Menn stofna hlutafélag til að geta selt, til að gera verðmetið hlutinn, selt hann og reiknað arð út á hann.

[22:15]

Ef maður hefur þessi markmið ekki að leiðarljósi þarf maður ekki að stofna hlutafélag. Þá eru önnur rekstrar- og eignarform miklu nærtækari og eðlilegri. Þegar maður stofnar hlutafélag hefur maður þetta markmið að leiðarljósi. Það getur átt við í mörgum tilvikum að þetta sé gert. En það sem er gagnrýnisvert er að hér á í hlut almannaþjónustufyrirtæki, hér á að hlutafélagavæða almannaþjónustuverkefni til að hugsanlega sé hægt að selja það, í áföngum ef svo býður við að horfa, eða fá aðra aðila inn sem hluthafa, sem er þó óbein eða bein sala, eða geta verðmetið hlutinn og reiknað sér formlega arð út á hann. Annars hefur þetta ekki tilgang.

Það er því alger misskilningur hjá hæstv. ráðherra, eða hæstv. ráðherra skilur ekki umgjörð innan hlutafélaga ef hún heldur að hér sé aðeins um lítils háttar formbreytingu að ræða. Þá skilur hún bara ekki hvað um er að ræða. Því miður.

Við skulum þá aðeins víkja að öðrum þáttum í þessu frv.

Í 3. gr. stendur: ,,Norðurorku hf. er heimilt að standa að stofnun og gerast eignaraðili að öðrum félögum og fyrirtækjum.`` Það er engin afmörkun þar á. Engin. Þetta fyrirtæki getur því daginn eftir að búið er að heimila þessa breytingu verið komið út í útgerð, farið út í rekstur á kjúklingabúi, rekstur á kjúklingasláturhúsi, rekstur á fóðurblöndufyrirtæki, getur sem sagt verið komið inn í þann rekstur sem bankarnir eru núna komnir inn í. Það er engin afmörkun þarna á. Og svo þegar illa gengur í rekstri á þessu fyrirtæki getur fyrirtækið og eignarleg staða þess allt í einu farið að mótast af því hvernig rekstur á óskyldri starfsemi gengur.

Lítum aðeins í þessu samhengi á 10. gr. en þar stendur, með leyfi forseta:

,,Um skyldu Norðurorku hf. til greiðslu opinberra gjalda til ríkis og sveitarsjóða fer á sama hátt sem um skyldu fyrirtækja og stofnana sem sýslu- og sveitarfélög reka og bera ótakmarkaða ábyrgð á og hafa slíkan rekstur með höndum. Norðurorka hf. skal undanþegin stimpilgjöldum.``

Hvað eru menn að segja þarna? Jú, að þjónustufyrirtækið Norðurorka getur orðið eignaraðili að hinni ýmsu atvinnustarfsemi, óskyldum rekstri, en samt verið undanþegið stimpilgjöldum.

Ég er hissa á því að hv. þm. Pétur H. Blöndal skuli ekki blanda sér í umræðuna og skýra fyrir okkur hvers konar fríðindi þetta fyrirtæki væri að fá gagnvart almennum fjárfestingum og almennum rekstri. Ég bið hæstv. iðnrh. að skýra þetta, hvernig maður les saman 10. gr. og 3. gr., annars vegar heimild til Norðurorku um að gerast með ótakmörkuðum hætti aðili að stofnun og gerast eignaraðili að öðrum félögum og fyrirtækjum og hins vegar að fá allar þessar undanþágur á greiðslu á sköttum og gjöldum til hins opinbera. Ég sé ekki að þetta samræmist á nokkurn hátt og vildi fá á því skýringar.

Lítum líka á hlutafélagsformið. Áður hefur verið sagt eins og hæstv. iðnrh. sagði áðan: ,,Þetta er bara formbreyting og á ekki að breyta neinu.`` Var ekki nákvæmlega það sama sagt þegar ríkisbönkunum var breytt í hlutafélög? Að þetta ætti bara að vera formbreyting, það stæði ekki til að breyta neinu öðru, það þætti rekstrarlega réttara og hagkvæmara að hafa þetta í hlutafélagsformi. Hvað var sagt um Landssímann á sínum tíma? Meira að segja hæstv. þáv. samgrh., Halldór Blöndal, sagði að þetta væri bara svona smáformbreyting á Landssímanum, það stæði alls ekki til að reyna að selja hann, það kæmi þessu máli bara ekkert við. Hve oft höfum við ekki heyrt nákvæmlega þetta? Það liðu kannski ekki nema tvö, þrjú ár og þá var viðkomandi fyrirtæki komið á sölulista.

Slíkar yfirlýsingar sem hæstv. ráðherrar gáfu af því tilefni voru gjörsamlega á fölskum nótum slegnar.

Það er því sáralítið hægt að gefa fyrir þau orð hæstv. iðnrh. að þetta sé bara lítils háttar formbreyting. Þegar maður breytir stofnun í hlutafélag er verið að breyta til að geta selt síðar og selt í hlutum ef út í það er farið.

Það er stefna okkar, þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, að rafveitur og vatnsveitur séu grunnþjónustufyrirtæki fyrir íbúana. Þess vegna skýtur það alveg skökku við sem stendur í 6. gr.: ,,Gætt skal almennra arðsemissjónarmiða við setningu gjaldskrár.`` Það er hvergi minnst á þjónustu, að þess skuli gætt að þjónustan sé í boði á sem öruggastan og ódýrastan hátt. Hvergi í einni setningu er minnst á þjónustu í þessu frv. Hvergi, hvergi nokkurs staðar. Er hægt að ganga freklegar fram hjá þessari hugsjón og þeirri staðreynd að allt fólk er háð því að fá í hús sín raforku og kalt og heitt vatn? Það er hvergi minnst á þjónustu eða öryggi þjónustunnar. Hvergi. En það skal gæta almennra arðsemissjónarmiða.

Og hver eru þessi almennu arðsemissjónarmið? Það væri gott ef hæstv. iðn.- og viðskrh. gæti skilgreint það. Hver eru hin almennu arðsemissjónarmið? Sumir segja 10%, aðrir segja 15% eða 25% og þaðan af hærra. En það er ljóst að þegar verið var að ræða um stöðu Landssímans fyrir ári var talin of lítil arðsemiskrafa að gera ráð fyrir 12% arðsemi eigin fjár. Það var á aðalfundi Landssímans talin of lág arðsemiskrafa. Menn þyrftu að fara í 15--25% arðsemiskröfur til þess að það væri viðunandi, til þess að hægt væri að selja fyrirtækið og til þess að hægt væri að segja að það gæti skilað eðlilegum arði til eigenda sinna.

Er það þessi arðsemiskrafa sem á að leggja hér upp með? 15--25%? Það væri fróðlegt að vita hvernig hæstv. iðn.- og viðskrh. skilgreinir ,,almenna arðsemiskröfu``. Ég hefði gjarnan viljað heyra hæstv. ráðherra skilgreina það og vita hvort hæstv. ráðherra getur ekki í einu orði í andsvari sagt að þetta fyrirtæki ætti jú að inna af hendi þjónustu og hefði einhverjar þjónustuskyldur því að hvergi er minnst á það í þessu frv. að neinar slíkar kvaðir séu til varðandi rekstur á þessu fyrirtæki.

Svona nálgun á málum sem þessum er algerlega á svig við og andstæð stefnu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs varðandi almannaþjónustu í landinu.

Það hefur áður verið bent á að hér er verið að samþykkja sérlög um orkuveitu sem taka m.a. til raforku. Raforkulög sem taka á öllum þessum þáttum eru ekki enn komin hér til umræðu. Þeim hefur að vísu verið dreift. Hefði ekki verið eðlilegra að afgreiða þau fyrst og taka svo þessi mál þar á eftir? Menn eru hér stöðugt að bíta í skottið á sér í meðferð á málum.

Þær voru líka fróðlegar, þessar yfirlýsingar hæstv. iðnrh. sem er ráðherra alls landsins, allra landshluta, allra íbúa landsins, er a.m.k. kjörin til þess. Er það eitthvert markmið í sjálfu sér að koma öllum orkufyrirtækjum til Akureyrar, hvort sem það er Orkubú Vestfjarða eða Rarik eða hvaða önnur orkuveita? Að heyra þetta frá hæstv. ráðherra sem er ráðherra alls landsins, hún er ekki bara ráðherra yfir einhverri götu á Akureyri. (HBl: Þú mátt nú þakka fyrir á meðan hún er ekki ráðherra Evrópusambandsins.) Hugur hæstv. ráðherra stendur ábyggilega til þess. Hugur hæstv. ráðherra stendur til þess að vera ráðherra Evrópusambandsins og fá þar að trítla eftir tröppum og á eftir öðrum dökkklæddum körlum og konum. (Gripið fram í: Hann er ekki ráðherra yfir vellinum.) Þetta er ágætisábending hjá hv. 1. þm. Norðurl. e., hann ljóstrar upp draumi framsóknarráðherranna. Það er alveg hárrétt. Ég ætla svo ekki að fara frekari orðum um draumspeki eða forspá hans.

Virðulegi forseti. Ég ætla bara að ítreka það að þetta mál hér er mjög alvarlegt. Þetta er mál sem varðar almannaþjónustu, orku- og vatnsveitur. Hérna er líka dregið inn í þetta frv. viðskiptamál, möguleiki á að þetta fyrirtæki geti stundað fjármálastarfsemi, þannig að mér sýnist alveg augljóst að þetta frv. þurfi að fá mjög vandaða meðferð á Alþingi, fá umsögn aðila sem lúta bæði að almennu atvinnulífi, að fjármálarekstri, og að almannaþjónustu. Þetta mál mun þurfa að fara bæði fyrir iðnn. og efh.- og viðskn., kannski fyrst og fremst fyrir efh.- og viðskn. því það er fyrst og fremst viðskiptalegs eðlis sem hér er verið að fjalla um, og reyndar líka varðandi þjónustuna fyrir iðnn. Það er ekki minnst orði á þjónustu í þessu frv., hvergi, eins og hún komi þessu máli ekkert við. Það er bara minnst á arðsemi og rekstrarform og möguleika á annarri almennri atvinnustarfsemi.

Virðulegi forseti. Ég tel mjög mikilvægt að þetta mál fái mjög vandaða meðferð, bæði hjá hv. iðnn. og hv. efh.- og viðskn.