Stofnun hlutafélags um Norðurorku

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 22:38:15 (2669)

2002-12-12 22:38:15# 128. lþ. 55.20 fundur 457. mál: #A stofnun hlutafélags um Norðurorku# frv. 159/2002, ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 128. lþ.

[22:38]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst hv. þingmenn Vinstri grænna sjá rautt í hvert skipti sem orðið hlutafélag kemur hér fram. Það er Akureyrarbær sem biður um þetta og það er ekki þörf á þessu nema af því að það er einkaréttur Akureyrar varðandi þetta mál. Fyrir liggur að kjör starfsmanna eru tryggð í þessu, þar á meðal lífeyrisréttindi. Þeir geta valið að vera áfram í lífeyrissjóðum sem fyrir eru. Rekstrarformið, þ.e. hlutafélagsformið er jákvætt í atvinnuumhverfi. Síðan er allt annað mál hvort Akureyrarbær kýs að selja þessi hlutabréf. Það kemur ekkert fram í þessu frv. um það. Það er hins vegar mjög góð leið þegar menn eru í samkeppnisumhverfi.

Við í Samfylkingunni lítum svo á að rekstrarform atvinnulífsins sé hlutafélagsformið. Önnur form eins og sjálfeignarform, bæjarfélög, byggðasamlög eða önnur slík gefast verr. Það er hins vegar allt annað mál hver á hlutabréfin og með hvaða hætti menn vilja varða því.

Arðsemissjónarmið eru neytendum hagkvæm í lágu verði. Þó að ég leggi nú ekki í vana minn að bregðast til varnar eða skjóta skildi fyrir Framsfl. þá finnst mér, herra forseti, það að líkja Framsfl. við stefnu Jósefs Stalíns vera vægast sagt mjög ósmekklegt á hinu háa Alþingi.