Stofnun hlutafélags um Norðurorku

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 22:41:46 (2671)

2002-12-12 22:41:46# 128. lþ. 55.20 fundur 457. mál: #A stofnun hlutafélags um Norðurorku# frv. 159/2002, ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 128. lþ.

[22:41]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. verður vitaskuld að ákveða sjálfur hvernig hann hagar sínu máli og það breytir engu í því sem ég sagði áðan að mér finnst ósmekklegt að hafa líkt Framsfl. við stefnu Jósefs Stalíns og það sem hann notaði hér til skýringar á því breytir í engu skoðun minni á því. Hann verður að eiga það við sjálfan sig hvernig hann vill haga sínum rökum.

Hv. þm. nefndi það að ég hefði misst af miklu við að heyra ekki umræðuna hér um kosti og galla hlutafjárvæðingar. Hins vegar hefur þetta nú heyrst áður þegar Vinstri grænir fara hamförum gegn þessu rekstrarformi og því sem við köllum hlutafjárvæðingu. Mér kæmi satt að segja mjög á óvart ef eitthvað sérstaklega nýtt hefur komið fram í þeirri umræðu af hálfu þess ágæta flokks.

Hlutafélag er heppilegt rekstrarform í þessu umhverfi sem við erum hér að ræða um. Hér er hvergi verið að ræða um það hvernig eignarhaldinu verður háttað, sem er framhaldsumræða um einkavæðingu. Þetta form er hin eðlilega lagalega umgjörð um þetta. Eigandi hlutafjárins verður í þessu tilfelli Akureyrarbær og hagar sínum eignarhlut með hagsmuni Akureyringa í huga. Ég treysti Akureyringum ágætlega til að fara með þann hlut.