Stofnun hlutafélags um Norðurorku

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 22:43:00 (2672)

2002-12-12 22:43:00# 128. lþ. 55.20 fundur 457. mál: #A stofnun hlutafélags um Norðurorku# frv. 159/2002, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 128. lþ.

[22:43]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sammála hv. þm. Ágústi Einarssyni um að við eigum ekki að skattyrðast hér lengur um það hvort Framsfl. reki stalíníska stefnu í efnahagsmálum, en báðir stöðvuðumst við við það. Ágúst telur það afskaplega ósmekklegt að líkja stóriðjustefnunni sem hér er rekin við þær áherslur sem uppi voru í Sovétríkjunum á stalínstímanum. Mér finnst þetta vera fullkomlega málefnalegt.

Hann segir að ekkert nýtt hafi komið fram í málflutningi Vinstri grænna hér í þessu máli. Mér fannst hv. þm. ekkert sérstaklega ferskur heldur. Hann heldur uppi málsvörn fyrir kratismann hér á landi og í Bretlandi þar sem menn hafa gengið jafnvel enn lengra en hægri menn í að markaðsvæða grunnþjónustu samfélagsins, velferðarþjónustuna og stoðkerfi samfélagsins, með hörmulegum afleiðingum. Ég varði ræðutíma mínum í kvöld til þess að færa rök fyrir mínu máli og tefla fram dæmum. Það var það sem ég átti við þegar ég sagði að hv. þm. hefði misst af umræðunni.