Stofnun hlutafélags um Norðurorku

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 22:44:20 (2673)

2002-12-12 22:44:20# 128. lþ. 55.20 fundur 457. mál: #A stofnun hlutafélags um Norðurorku# frv. 159/2002, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 128. lþ.

[22:44]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég vil í upphafi taka undir þá einkunnagjöf sem hv. þm. Ágúst Einarsson gaf líkingamáli hv. þm. Ögmundar Jónassonar. En það er nú einu sinni svo að þegar minnst er á stóriðju þá verður ákafi hv. þm. stundum svo mikill að honum blindast sýn og hann lokast í orðinu stóriðja. Ég get sagt honum til hugarhægðar að ég mun með glöðu geði færa honum gögn til að hann geti séð allan fjölbreytileikann sem finna má í stefnu Framsfl. um atvinnumálin og vona ég að það rói hv. þm.

En ég kom nú ekki upp fyrst og fremst vegna þessa heldur af því að hv. þm. beindi þeim orðum til iðnn. að fara vel yfir stöðu starfsmanna Norðurorku komi til þess að þeirri stofnun verði breytt í hlutafélag. Það kemur fram, eins og hv. þm. minntist á, í greinargerðinni að við undirbúning málsins hafa núverandi eigendur Norðurorku, þ.e. Akureyrarbær, og veitustjórn haft mjög náið samráð við starfsmenn og það er yfirlýstur vilji þeirra að kjör og réttindi starfsmanna haldist. Að sjálfsögðu mun iðnn. fara ofan í þessi mál enda er rétt að minna á að markmiðið er, eins og fram hefur komið, á engan hátt að hrófla við kjörum starfsmanna heldur að breyta um form og gera það meira aðlaðandi fyrir vinnuumhverfið, eins og Akureyrarbær og bæjarstjórn Akureyrar hefur óskað eftir.