Stofnun hlutafélags um Norðurorku

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 22:47:00 (2675)

2002-12-12 22:47:00# 128. lþ. 55.20 fundur 457. mál: #A stofnun hlutafélags um Norðurorku# frv. 159/2002, BBj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 128. lþ.

[22:47]

Björn Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Það er einkennilegt að heyra þingmann bera blak af stalínismanum með því að líkja honum við rekstur álvera og stóriðjunnar og telja að stalínisminn hafi falist í því að menn rækju álver eða stóriðjuver. Voru þess vegna drepin 20 milljón manns í Úkraínu? Var þess vegna hungursneyð í Sovétríkjunum, af því menn ráku þar álver eða stóriðjuver? Að koma hér upp og tala þannig um stalínismann nú á tímum er alveg dæmalaust að heyra hér í þingsölum og það er jafndæmalaust að heyra það er menn líkja því saman að Norðurorka skuli verða hlutafélag að fara þá að tala um Vivendi og Enron í sömu andránni. Það eru fyrirtæki sem voru einkarekin hlutafélög með hlutabréf á markaði og fóru eins og þau hafa farið af allt öðrum ástæðum en þeim sem liggja hér að baki þegar menn eru að tala um að breyta Norðurorku í hlutafélag. Það félag verður ekki selt nema þessum lögum verði breytt og Alþingi komi að því með ákvörðunum sínum.

Einnig tengist það sem hv. þm. segir um orkuverð í Noregi ekkert rekstrarfyrirkomulagi fyrirtækjanna heldur því hvernig Noregur er tengdur inn á evrópska raforkumarkaðinn. Þar eru stunduð viðskipti með raforku sem er framleidd af kjarnorkuverum. Hún er keypt á nóttunni en síðan er en seld raforka sem framleidd er með vatni á daginn og þar er verið að taka þátt í viðskiptum á evrópska raforkumarkaðnum. Það ræður verðlaginu í Noregi en ekki hvort þar séu hlutafélög sem starfa eða ekki. Allur þessi málflutningur er gjörsamlega út í hött þegar við erum að ræða frv. sem hér liggur fyrir.