Stofnun hlutafélags um Norðurorku

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 22:58:15 (2679)

2002-12-12 22:58:15# 128. lþ. 55.20 fundur 457. mál: #A stofnun hlutafélags um Norðurorku# frv. 159/2002, iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 128. lþ.

[22:58]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst svara síðari spurningunni um hugsanlega sameiningu þessara fyrirtækja. Það er svo, miðað við það frv. sem nú liggur frammi til nýrra raforkulaga, að kveðið er á um frestun III. kafla frv. sem gerir það að verkum að nýtt raforkulagaumhverfi tekur í raun ekki gildi fyrr en síðar, fyrr en 1. janúar 2004, sem þýðir að áform um sameiningu þessara fyrirtækja geta ekki átt sér stað fyrr en a.m.k. þá. Þetta vildi ég láta koma hér fram til þess að það liggi ljóst fyrir þó að við séum ekki að fjalla um frv. til raforkulaga.

Eins og ég hef oft sagt og ekki síst við Vestfirðinga --- af því hv. þm. er nú þingmaður Vestfirðinga --- þá geri ég mér alveg fulla grein fyrir því að það verður ekkert af sameiningu þessara fyrirtækja, þessara félaga, í óþökk landsmanna. Þessi hugmynd hefur því miður ekki fengið sérstaklega góðar viðtökur, hvorki fyrir vestan né almennt á landsbyggðinni. Það þykir mér miður. Ég veit ekki hvort það hefur eitthvað með það að gera að umræðan hefur í rauninni ekki farið fram á hv. Alþingi heldur hefur hún verið á öðrum vettvangi og þess vegna hefur kannski ekki verið auðvelt að koma að ýmsum rökum og ýmsum skýringum sem virkilega hefðu þurft að komast inn í umræðuna. En pólitískur stuðningur við þessa hugmynd hefur ekki verið mjög almennur. Það er óhætt að segja það. Ég get því ekkert svarað um hvað verður. En ég hef enn þá trú og þá skoðun að skynsamlegt hefði verið að gera þetta m.a. vegna þess að við erum að fara inn í samkeppni á sviði orkumála og sviði vinnslu raforku.

Um hitt atriðið, um kostnaðarauka fyrir Akureyringa með þessari formbreytingu, þá get ég ekki séð að af því verði með formbreytingunni einni og sér. Hins vegar erum við, eins og margoft hefur komið fram, að fara inn í breytt umhverfi þar sem verða gjaldskrársvæði. Ég get ekkert fullyrt um það á þessari stundu hvernig gjaldskrá verður nákvæmlega háttað á þessum gjaldskrársvæðum sem er óljóst í dag hvernig verður skipað og hvar mörk liggja. Því er ekki hægt að svara nákvæmlega um það hvernig gjaldskrá hins nýja raforkulagaumhverfis verður.