Stofnun hlutafélags um Norðurorku

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 23:02:42 (2681)

2002-12-12 23:02:42# 128. lþ. 55.20 fundur 457. mál: #A stofnun hlutafélags um Norðurorku# frv. 159/2002, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 128. lþ.

[23:02]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst hv. þm. ekki hafa skilið orð mín rétt, a.m.k. miðað við síðari ræðu hans.

Ég sagði að ég sæi ekki að af þessari sameiningu gæti orðið ef það væri í óþökk landsmanna. Það þarf pólitískan stuðning við hugmyndir sem þessar. Eins og umræðan hefur verið í landinu á síðustu mánuðum og missirum er ekki hægt að skilja hana þannig að fyrir þessu sé almennt mikill vilji.

Ég vil líka taka fram að um það var rætt þegar ríkið keypti Orkubú Vestfjarða að miðað við að ríkið ætti 100% í báðum fyrirtækjunum yrðu þau sameinuð. Þetta undirgengust sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum í þeirri umræðu. Það hlaut að verða mitt hlutskipti sem iðnrh. að vinna að þeirri sameiningu.

Hins vegar kom í ljós að margir vildu ekki alveg kannast við að þessi umræða hefði farið fram í tengslum við sameininguna og þá verður bara svo að vera. Ég ætla ekki að fara út í slíka sameiningu í óþökk landsmanna, svo mikið er víst.