Skipulag ferðamála

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 23:06:23 (2684)

2002-12-12 23:06:23# 128. lþ. 55.11 fundur 447. mál: #A skipulag ferðamála# (afnám Ferðamálasjóðs) frv. 156/2002, JB
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 128. lþ.

[23:06]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þetta mál var til umræðu fyrr í dag. Umræðu var þá ekki lokið. Frumvarpið felur í sér að Ferðamálasjóður verði lagður af og verkefni hans færð undir Byggðastofnun.

Það sem ég vildi vekja athygli á er hversu gríðarleg vöntun er á fjármagni í ferðageirann, bæði í afþreyingariðnað og hvers konar uppbyggingu ferðaþjónustunnar um land allt. Þessi unga atvinnugrein hefur ekki byggt sér upp höfuðstól eins og hinar eldri atvinnugreinar. Hún hefur ekki byggt sér upp höfuðstól og megnið af verðmætum hennar er fólgið í hugviti og atorku einstaklinga og félaga.

Slíkar eignir eru ekki veðhæfar. Þegar taka á lán er krafist veðs í fasteignum en í ferðaþjónustunni er eignin fólgin í frumkvæði, hugviti, viðskiptavild og markaðssókn eða markaðssamböndum. Þetta er ekki talið veðhæft. Þetta er hinn stóri vandi greinarinnar. Hana sárvantar þolinmótt fé sem ekki krefst veðsetninga á steinsteypu. Komumst við ekki út úr þeim vítahring verður mjög erfitt að byggja upp ferðaþjónustu í landinu.

Ég vil árétta að þessi verkefni eru nú falin Byggðastofnun án þess að þar sé nokkurt nýtt fjármagn sett inn. Ferðamálasjóður hefur verið sveltur fjárhagslega árum saman og það eru ein rökin fyrir því að hann er lagður niður, að hann hafi alls ekki ráðið við verkefni sín vegna þess að honum voru ekki einu sinni gefin tækifæri til þess. Hann er þess vegna lagður niður. Fróðlegt væri að fá upp á borðið hversu háar skuldir Ferðamálasjóðs eru.

Hið alvarlega er að hann er nú fluttur undir Byggðastofnun án þess að þar komi til nokkurt nýtt fjármagn. Meira að segja við afgreiðslu fjárlaga nú hér á Alþingi, þar sem það hlaut að liggja fyrir að færa ætti Ferðamálasjóð undir Byggðastofnun, er ekkert nýtt fjármagn sett í Byggðastofnun eða byggðaáætlun. Hið eina sem gert er er að fjármagn er fært til, frá eignarhaldsfélögunum inn í byggðaáætlunina, en atvinnuþróunarfélögin sem líka eru aðalstuðningsaðili í þessum aðgerðum eru áfram fjársvelt.

Ég vil benda á, virðulegi forseti, að þessi mikilvæga atvinnugrein er í miklu fjársvelti og það leysir ekkert vanda hennar þó að Ferðamálasjóður sé færður undir aðra fjársvelta stofnun sem er Byggðastofnun. Hér þarf að koma inn nýtt fjármagn til að standa að baki þessari öflugu atvinnugrein eða til að gera hana öfluga eins og við berum væntingar til.