Almannavarnir o.fl.

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 23:22:01 (2686)

2002-12-12 23:22:01# 128. lþ. 56.1 fundur 464. mál: #A almannavarnir o.fl.# (breyting ýmissa laga) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 128. lþ.

[23:22]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hefur tekið þetta frv. til umfjöllunar á þingflokksfundi. Við höfum gagnrýnt hve seint það er fram komið. Í því efni er ekki við hæstv. dómsmrh. eina að sakast vegna þess að flestir ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa komið inn í þingið með frumvörp á síðustu dögum og sólarhringum, jafnvel klukkustundum, og ætlast til þess að þau nái fram að ganga.

Varðandi efnisinnihald frv. höfum við einnig miklar efasemdir. Almannavarnir snúa að heilsugæslu, vegagerð og vegakerfi, þær snúa að sveitarfélögum, slökkviliði og vissulega einnig löggæslunni. En lögreglan og löggæslan eru aðeins einn þáttur. Hlutverk almannavarna er einnig samræmingar- og samhæfingarstarf.

Við óttumst að ef almannavarnir verða færðar undir embætti ríkislögreglustjóra verði of mikil áhersla lögð á þann eina þátt. Um þetta mál þarf að sjálfsögðu að fjalla ítarlega í þinginu. Við munum ekki leggjast gegn því að málið nái fram að ganga við 1. umr. og verði vísað til nefndar og fái þar ítarlega og málefnalega umfjöllun.