Almannavarnir o.fl.

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 23:23:38 (2687)

2002-12-12 23:23:38# 128. lþ. 56.1 fundur 464. mál: #A almannavarnir o.fl.# (breyting ýmissa laga) frv., BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 128. lþ.

[23:23]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Samfylkingin gagnrýnir hversu seint þetta frv. er fram komið, eins og reyndar fjölmörg önnur frv. frá hæstv. ríkisstjórn. Auðvitað kemur slíkur seinagangur í veg fyrir að mál fái æskilega og viðunandi málsmeðferð í þinginu.

Samfylkingin telur einsýnt að ef skipulagsbreytingar þær á fyrirkomulagi almannavarna sem hér eru ræddar eigi að þjóna tilgangi sínum þurfi að ríkja um þær eindrægni og sátt. Við höfum miklar efasemdir um að svo sé og teljum alls ekki augljóst að þessum málaflokki sé best fyrir komið undir hatti hins ört stækkandi ríkislögreglustjóraembættis.

Mikilvægast af öllu er þó að málið fái umfjöllun í samfélaginu, að þeir sem að málaflokknum koma geti gefið um málið umsagnir og þingið síðan krufið þær til mergjar þegar þær berast. Því hefur þingflokkur Samfylkingarinnar fallist á þá málsmeðferð sem hér er viðhöfð, að málinu verði eftir stutta umræðu vísað til nefndar og þaðan sent til umsagnar til þeirra sem láta sig málið varða.