Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 23:35:05 (2689)

2002-12-12 23:35:05# 128. lþ. 56.4 fundur 441. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (Jöfnunarsjóður) frv. 167/2002, GÖ
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 128. lþ.

[23:35]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Hv. formaður félmn. hefur mælt fyrir nál. um frv. til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Þar kom að sjálfsögðu fram að frv. byggir annars vegar á samkomulagi sem undirritað var 4. desember milli ríkis og sveitarfélaga og hins vegar á þeirri skýrslu sem unnin var vegna Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

Auðvitað ber að fagna því að gert var ákveðið samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga í mikilli eindrægni og nál. er um margt afar ítarlegt. Hins vegar kom fram í nefndinni þegar við ræddum við gesti okkar að kannski hefði ekki verið gengið nægjanlega langt í að koma með breytingar á jöfnunarsjóðnum. Við erum náttúrlega að tala um sjóð sem er með yfir 10 milljarða í ráðstöfunarfé, sem eru gríðarlega miklir fjármunir og auðvitað til góðra mála. Mönnum varð tíðrætt um allt það regluverk sem er þarna í kring og kannski er tímabært að það verði skoðað í einhverri langtímanefnd sem mundi halda áfram því starfi sem hér er byrjað að vinna. Einnig var talað um að það væri kannski ekki alveg tímabært að gera grundvallarbreytingar á jöfnunarsjóðnum eða varðandi innbyrðis jöfnun sveitarfélaganna. Ég hef alltaf haft þá skoðun að svona hlutir eigi að vera í eilífri vinnslu og taka mið af breyttum háttum í samfélaginu þannig að sem flestir komi að og njóti.

Einnig var það afar áhugavert sem Kristján Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, sagði í nefndinni en hann var með sérstaka bókun hjá stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hann gagnrýndi einmitt að of skammt væri gengið í þeim brtt. sem nefndin leggur til. Hann talaði líka um úthlutunarreglurnar, að þær væru ekki nægjanlega gegnsæjar. Hann ræddi líka um þá fjármuni sem sveitarfélög gætu sótt um í stofnkostnað. Hann gagnrýndi það að þegar verið er að tala um þjónustu sem sveitarfélögin veita sé ekki spurt um það þegar sótt er um í sjóðinn. Hann talaði líka um að sú hagkvæmniskúrfa sem farið væri eftir í jöfnunarsjóðnum stoppaði í rauninni framlög til stærri sveitarfélaga og varnaði á vissan hátt því að sveitarfélög mundu sameinast. Hann tók dæmi af Eyjafjarðarsvæðinu um þau mál og vildi meina að allt reglugerðarverkið væri fyrst og fremst til að koma til móts við smærri sveitarfélög.

Auðvitað er alveg full þörf á að koma til móts við smærri sveitarfélög, það er enginn að tala um að svo eigi ekki að gera enda er það eitt af meginverkefnum jöfnunarsjóðsins. En hins vegar þyrfti vissulega að taka á fleiri málum þannig að hægt væri að samræma og í rauninni koma á ákveðinni hagkvæmni í þjónustunni og gefa meiri möguleika m.a. varðandi byggðasamlög.

En eins og ég segi, við vildum fyrst og fremst gera fyrirvara til að koma þessum athugasemdum á framfæri. Ráðherra gæti kannski séð til þess að vinna varðandi endurskoðun á jöfnunarsjóðnum væri sífellt í gangi miðað við nýjar hugmyndir og það sem er að gerast annars staðar á Norðurlöndunum.

Hvað varðar Reykjavíkurborg er jöfnunarsjóðurinn núllstilltur þannig að Reykjavík fær svo sem ekkert þar annað en þennan sérstaka samning sem var vegna skólamálanna sem við öll þekkjum hér inni.

Síðan kom upp umræða sem tengist þessu óbeint en ekki alfarið, þ.e. bæði um félagslegar bætur og félagsþjónustu sveitarfélaga. Það leiðir vissulega líka hugann að flutningi annarra málaflokka yfir til sveitarfélaganna og þá þyrfti kannski að koma enn frekari styrking varðandi jöfnunarsjóðinn. Þá er ég að hugsa um mál eins og málefni fatlaðra. Ef eitthvað er nærþjónusta þá væri kannski helst að nefna það.

En endurskoðunin á jöfnunarsjóðnum þarf sífellt að eiga sér stað og ég mælist til þess.

Síðan ræddum við talsvert í nefndinni og í rauninni má kannski orða það sem ákveðna gleymsku, þ.e. við tölum um innflytjendur í 13. gr. Við áttum eftir að finna það orð sem er mest notað en því mun þá bara breytt síðar í nýju frv. um tekjustofna og nýju samkomulagi.