Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 12. desember 2002, kl. 23:40:30 (2690)

2002-12-12 23:40:30# 128. lþ. 56.4 fundur 441. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (Jöfnunarsjóður) frv. 167/2002, SJS
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 128. lþ.

[23:40]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þetta frv. er aðallega afurð af samkomulagi sem undirritað var á dögunum milli Sambands ísl. sveitarfélaga og ríkisvaldsins um tilteknar fjármálalegar ráðstafanir í þeim samskiptum. Ég held að nauðsynlegt sé að menn átti sig á því að hér er ekki á nokkurn hátt á ferðinni viðamikil eða heildstæð endurskoðun, ekki einu sinni á lögum um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og þaðan af síður um tekjustofna sveitarfélaga almennt eða samskipti ríkis og sveitarfélaga á tekjusviðinu almennt. Hafa menn þó lengi beðið eftir slíku og vænts slíks.

Hér er á ferðinni minni háttar fínstilling á þessum samskiptum, fyrst og fremst að bæta sveitarfélögunum tekjutap eða útgjöld af tveimur ástæðum, annars vegar vegna breyttrar álagningar fasteignagjalda, breyttrar viðmiðunar í þeirri álagningu sem hefur leitt til tekjufalls hjá hluta sveitarfélaganna og hins vegar vegna þess að sveitarfélögin yfirtaka nú alfarið kostnaðinn af greiðslu húsaleigubóta.

Á móti er svo fært að ríkið tekur að sér að greiða þau 15% stofnkostnaðar í sjúkrahúsum og ýmsum heilsugæslustofnunum sem sveitarfélögin hafa hingað til gert. Punktur, búið, allt og sumt.

Þetta eru ekki stórmál í raun og veru, herra forseti, í ljósi hinnar miklu veltu jöfnunarsjóðs sem nálgast 10 milljarða kr. eða í ljósi þeirrar gríðarlegu umræðu sem hefur verið að undanförnum árum og missirum um þörfina á gagngerri endurskoðun og uppstokkun í tekjulegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Og nefndir hafa verið hér og þar að malla í þessum verkefnum en ákaflega lítið komið út úr því satt best að segja. Það kemur oft einhver bútasaumur út úr einhverju samkomulagi milli forsvarsmanna Sambands ísl. sveitarfélaga, þá mæta á sviðið þeir kumpánar Vilhjálmur og Þórður. Þá hefur verið gert eitthvert smásamkomulag um einhverja afmarkaða þætti í þeim samskiptum en heildstæð endurskoðun á þessum málum lætur mjög á sér standa.

Fjármunirnir sem hér eru á ferðinni eru ekki ýkja miklir, herra forseti. Hvað fasteignagjöldin varðar eru það rúmar 160 millj. kr. sem árlegt framlag ríkissjóðs hækkar vegna lækkunar fasteignaskattstekna, sem eru aftur afleiðingar af breytingum sem ákveðnar hafa verið hér á Alþingi og síðan 220 milljónir til að mæta beinum útgjöldum sem sveitarfélögin taka við vegna greiðslu húsaleigubóta. Til frádráttar þessu eru síðan þær 100 milljónir sem ríkið yfirtekur eða ígildi 100 millj. kr. kostnaðar sem ríkið yfirtekur frá sveitarfélögunum vegna heilbrigðisstofnananna.

Það sem meira er, herra forseti, er að í reynd er ekki að verða, það ég fæ séð, nein grundvallarbreyting á því fyrirkomulagi hvað varðar jöfnunarsjóðinn. Það eru aðeins lagfæringar í samræmi við breytingar sem hafa verið gerðar á tekjuviðmiðum. Viðmiðuninni hvað varðar tiltekið hlutfall skatttekna ríkissjóðs er þarna breytt lítillega til samræmis við þá framsetningu sem nú er í fjárlögum. Það er auðvitað ekki kerfisbreyting heldur tæknileg lagfæring.

Í grunninn er um óbreytt fyrirkomulag að ræða, þ.e. mælt er fyrir um tekjurnar inn í jöfnunarsjóð. Það er að vísu hólfað aðeins niður með lögunum í hvers konar jöfnunarframlög eða framlög þetta í grófum dráttum skuli fara, þ.e. í þessi lögbundnu framlög svo sem innheimtu á gjöldum til að reka samstarf sveitarfélaganna í landinu, tekjur til lánasjóðsins og annað í þeim dúr. Sérstökum framlögum er úthlutað í tilteknu skyni og jöfnunarframlög eiga aftur að skiptast í tekjujöfnunarframlög og útgjaldajöfnunarframlög, sem mun vera nýyrði í tungunni.

[23:45]

Þar lýkur í raun leiðsögn Alþingis í þessu máli. Afgangurinn er skilinn eftir í reglugerðarvaldi hæstv. ráðherra. Sjálf grundvallarúthlutunin, regluverkið um þessa miklu ráðstöfun fjármuna, er framselt til ráðherra í formi reglugerðarvalds. Það finnst mér og hefur á undanförnum árum fundist, herra forseti, vaxandi umhugsunarefni í ljósi hinnar miklu veltu jöfnunarsjóðs. Það er a.m.k. há velta miðað við það sem áður var.

Að vísu hefur verið upplýst að ef við berum okkur saman við hin Norðurlöndin eru tekjujöfnunaraðgerðir á Íslandi til handa sveitarfélögunum hlutfallslega ekki miklar. Það eru t.d. miklu umfangsmeiri millifærslukerfi í gangi á hinum Norðurlöndunum til handa lægri stjórnsýslustigum, þ.e. fylkjum, ömtum, héruðum og sveitarstjórnum, en hér. Það er reyndar umhugsunarefni þegar haft er í huga hversu breytileg sveitarfélögin hér í landinu eru að stærð og fjárhagslegri getu. Við höfum hlutfallslega stærstu höfuðborg á Norðurlöndunum. Hvergi annars staðar á Norðurlöndunum býr jafnhátt hlutfall þjóðarinnar í höfuðborginni sjálfri eins og á Íslandi. Við höfum líka fámenn og afar víðlend sveitarfélög sem sennilega eru óvíða til annars staðar eins og hér. Í því ljósi hefði maður getað ályktað að tekjujöfnunarþörfin hér væri ríkari en víðast hvar annars staðar.

Sem sagt: Það verður áfram í valdi ráðherra að ákveða flokkun sveitarfélaganna og hvers konar viðmiðanir eru notaðar til að finna út grundvöllinn fyrir tekjujöfnun milli þeirra. Þar af leiðandi þarf þessi breyting sem slík ekki að þýða í sjálfu sér neina breytingu á þeirri framkvæmd sem þar hefur verið í gildi, að ég fæ séð. Það er í sjálfu sér umhugsunarefni að niðurstaðan sé ekki sú að fara í neina umfangsmikla eða heildstæða uppstokkun á þessu kerfi, sem maður hefði reiknað með að væri kominn tími á, m.a. í ljósi umtalsverðra breytinga á samsetningu og fjárhagslegri afkomu sveitarfélaga á undanförnum árum.

Nú hefur verulega dregið í sundur í meðallaunum á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis á undanförnum árum. Það er mjög neikvæð og óæskileg þróun og mismununin eykst að þessu leyti í landinu. Sá sem hér talar er nokkuð reglulegur og dyggur lesandi fréttabréfs kjararannsóknarnefndar sem er hið ágætasta upplýsingarit. Það birtir ársfjórðungslega, ef ég man rétt, sundurliðun á tekjuþróun í landinu og tekjusamsetningu og skiptir þessu m.a. upp, ekki bara eftir kynjum heldur líka eftir landsvæðum. Menn þurfa ekki að hafa fylgst mikið með til að sjá, m.a. af því ágæta riti, að það dregur ískyggilega í sundur í meðallaunum á landsbyggðinni annars vegar og höfuborgarsvæðinu hins vegar. Lakastur þar er að sjálfsögðu hlutur kvenna á landsbyggðinni sem er mesti láglaunahópur landsins ef maður notar þá flokkun.

Þetta hlýtur auðvitað að hafa sín áhrif á stöðu sveitarfélaganna. Það er alveg óumflýjanlegt. Eftir því sem þessi þróun ágerist vex auðvitað þörfin fyrir raunverulega tekjujöfnun þegar við bætast mjög svo breytilegar aðstæður sveitarfélaganna við að sinna sinni lögbundnu þjónustu, t.d. að standa fyrir skólahaldi þar sem himinn og haf skilur á milli verkefna í fámennum strjálbýlum sveitarfélögum með umtalsverðum kostnaði. Skólahald í strjálbýlinu er ekki sambærilegt við að reka slíkt í miklu stærri einingum í þéttbýli. Ef eitthvað væri þyrfti að fara vandlega yfir þessi áhrif og skoða þessa framkvæmd með það í huga að auka jöfnunargetu kerfisins þannig að síður halli á í þessum efnum.

Herra forseti. Ég vil nefna hér sérstaklega heilbrigðisþátt málsins, þ.e. þær breytingar að ríkið taki alfarið að sér stofnkostnað sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva og fleiri slíkra heilbrigðisstofnana. Þetta samkomulag milli Sambands sveitarfélaga og ríkisins gengur út á að greiðsluþátttöku sveitarfélaganna ljúki nú, frá og með gildistöku þessara laga, en þau fái ekki endurgreiddan sinn hlut í þessum mannvirkjum og ekki fari að neinu leyti fram uppgjör á liðinni tíð. Þetta, herra forseti, vil ég nefna í því samhengi að fyrir nokkru síðan --- það mun hafa verið í desember 1998 --- gerðu ríkið og Reykjavíkurborg samkomulag þar sem borgarsjóður Reykjavíkur var leystur undan greiðsluskyldum samkvæmt 34. gr. laga um heilbrigðisþjónustu, þ.e. að greiða sinn 15% hlut til stóru heilbrigðisstofnananna í borginni og meira en það, borgin fékk endurgreidd framlög áranna 1995--1998 vegna Landakots. Þetta liggur fyrir, herra forseti.

Fljótlega upp úr þessu gerði Akureyrarbær þá kröfu að fá sambærilegan samning við ríkið. Nú geta menn deilt um hvort Akureyrarbær var í sambærilegum aðstæðum gagnvart því að krefjast uppgjörs á því sem liðið var en það er ákaflega erfitt að sjá hvernig það getur verið sanngjarnt að eitt sveitarfélag í landinu sæti eftir með kostnaðarþátttöku á 15% í stóru sérgreinaskiptu sjúkrahúsi á sama tíma og sjálf höfuðborgin var með öllu leyst undan slíkri greiðsluskyldu. Í öllu falli finnst mér mikil ósvinna að ríkisvaldið hafi ekki boðið Akureyrarbæ upp á einhverjar samningaviðræður eða samninga, a.m.k. um þann þátt málsins sem lýtur að tímabilinu frá 1998--1999 til og með þá dags dato. Það er algjörlega augljóst mál að þessum sveitarfélögum er þannig mismunað.

Að sjálfsögðu má segja að þetta hefði átt að gilda fyrir öll sveitarfélög, a.m.k. öll sjúkrahús. Því verður þó ekki á móti mælt að í þessum tilvikum tveimur, hvað varðar Reykjavíkurborg annars vegar og stóru sjúkrahúsin hér og svo Akureyrarkaupstað og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, er um mjög sérstakar aðstæður að ræða. Hér eru stórar stofnanir þar sem er um mikinn stofnkostnað að ræða á ferðinni og þetta eru upptökustofnanir fyrir stór landsvæði. Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri er upptökusvæði fyrir 40.000--60.000 manna byggð en Akureyrarkaupstaður einn situr uppi með greiðsluskylduna á 15% kostnaðarins.

Ég held ég muni það rétt að það sé eingöngu Akureyrarkaupstaður, ekki einu sinni Eyjafjarðarsvæðið eða öll sýslan.

Því er ekki að furða, herra forseti, að Akureyringar minni á sig nú af þessu tilefni. Ég hef í höndunum glænýtt bréf frá bæjarstjóranum á Akureyri sem hann ritar félmn. Alþingis og barst okkur því miður ekki í hendur fyrr en rétt í þessu. Mér barst það a.m.k. rétt í þessu. Þar er því mjög harðlega mótmælt að þetta svokallaða samkomulag, a.m.k. svokallað hvað varðar Akureyrarkaupstað, sé gert með þessum hætti, og ríkið sé aðili að því. Ríkið er sagt hafa algerlega daufheyrst við því að leysa þessi mál með einhverju sanngjörnu samkomulagi við bæjarsjóð Akureyrar.

Menn telja sig hafa orðið fyrir mismunun varðandi framlög að þessu leyti frá og með árinu 1999. Af þeim sökum er mótmælt, af hálfu forsvarsmanna Akureyrarbæjar, ákvæðum í 3. tölul. samkomulagsins frá 4. des. sem í reynd varðar meðferð á þessum eignarhlut Akureyrar. Það er nokkuð, herra forseti, sem ég held að menn verði að horfast í augu við, að þetta samkomulag hefur áhrif á ráðstöfun lögmætrar eignar sveitarfélaganna í þessum stofnunum. Er hægt að gera þetta með þessum hætti? Þarf ekki að leysa þessi mál með samkomulagi, samningum við sveitarfélögin hvert fyrir sig? Þetta er auðvitað lögvarin eign þessara aðila. Það er ekkert hægt að horfa fram hjá því. Enda segir bæjarstjórinn á Akureyri í sínu bréfi að þessi málsmeðferð þverbrjóti stjórnarskrárbundinn eignar- og sjálfsstjórnarrétt sveitarfélagsins, sbr. 72. og 78. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 1. gr. og 2. mgr. 2. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998.

Akureyrarbær lýsir því yfir að hann telji sig ekki bundinn af þessari gerræðislegu ákvörðun um meðferð á eignarhlut bæjarins í Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, svo sem 3. tölul. samkomulagsins kveður á um, enda geti 101. gr. laga nr. 45/1998, um verklag við breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, ekki gengið framar 2. mgr. 2. gr. sveitarstjórnarlaga þar sem kveðið er á um að engu málefni sem varðar sérstaklega hagsmuni sveitarfélags skuli ráðið til lykta án umsagnar sveitarstjórnarinnar.

Í raun, herra forseti, er sá hængur á afgreiðslu þessa máls að að þessu leyti hefur meðferð þess alls ekki lotið hinum lögformlega farvegi. Umsagnarréttur sveitarfélaganna, andmælaréttur eða hvað við eigum að kalla það, hefur ekki verið virtur. Má ég minna á að sveitarstjórnarstigið er sjálfstætt stjórnsýslustig og hefur fullgildan og lögvarinn rétt gagnvart hagsmunum sínum og sínum málum. Við erum, bæði að lögum og alþjóðlegum samningum, bundin af því að virða þessa stöðu stjórnskipunar landsins. Við erum aðilar að evrópskum sáttmála um sjálfstæði sveitarfélaga og öðru í þeim dúr.

Mér virðist, herra forseti, að hér séu menn á dálítið tæpu vaði hvað þessa samskiptahætti varðar.

Herra forseti. Ég vil síðan segja að það er auðvitað ekki hægt að sleppa því að nefna, þó að áliðið sé kvelds og mönnum þyki nóg að gert í umræðum í dag --- ég tel að það megi nú ekki draga svo af mönnum þrekið að þeir sleppi því að nefna það sem óhjákvæmilega þarf að nefna við þessa umræðu --- að þetta mál er að sjálfsögðu óhjákvæmilegt að hafa í ákveðnu samhengi við afkomu sveitarfélaganna í landinu almennt. Það vill einmitt svo til að akkúrat þessa dagana eru blaðaskrif og fréttaflutningur af þeim stöðum. Menn greinir þar stórlega á. Annars vegar telur hæstv. félmrh. allt í fína lagi varðandi afkomu sveitarfélaganna, a.m.k. vel viðunandi. Hann hvetur þau til að fara hófsamlega fram í sambandi við gjaldskrárákvarðanir og annað í þeim dúr þegar þau afgreiða fjárhagsáætlanir sínar og stilla af fjárhag sinn fyrir næsta ár. Hins vegar kvarta og kveina sveitarfélögin undan miklum erfiðleikum við að ná endum saman. Þau hafa jú glímt við krónískan hallarekstur undanfarin ár. Þau hafa safnað skuldum, það er óumdeilanlegt.

Það er að vísu rétt sem félmrh. hæstv. flaggar, að heldur hafi dregið úr þessari skuldasöfnun sem betur fer núna síðustu árin. Skárra væri það annars. Það vita allir hvernig sá rekstur endar sem rekur sig endalaust með halla. Af hverju skyldi vera að draga úr honum? Jú, gæti ekki m.a. verið að draga úr hallarekstri sveitarfélaganna vegna þess að mörg þeirra eru orðin svo skuldsett að það gengur ekki lengur upp að taka meiri lán og halda áfram hallarekstri? Hvað gera sveitarfélögin þá? Þau skera niður allar framkvæmdir.

Ég fullyrði það, herra forseti --- það vel þekki ég til í fjölmörgum sveitarfélögum vítt og breitt um land --- að ein stór ástæða fyrir því að á pappírunum dregur úr hallarekstri sveitarfélaganna er ósköp einfaldlega sú að forsvarsmenn þeirra treysta sér ekki í frekari lántökur til að fjármagna framkvæmdir. Það er ekki vegna þess að reksturinn sem slíkur sé að batna, t.d. að rekstur málaflokka sé að lækka umtalsvert sem hlutfall af skatttekjum. Það er rangt. Á síðustu fjármálaráðstefnu sveitarfélaga var sýnt fram á þetta með algerlega skýrum hætti. Það þyrfti að eiga sér stað einhver stórkostleg breyting til að rekstur þeirra batni. Það er ekkert sem bendir til þess að afkoma sveitarfélaganna sé að batna að þessu leyti.

[24:00]

Hér eru fréttir í fjölmiðlum beint út úr vinnu sveitarfélaga á nokkrum stöðum á landinu við fjárhagsáætlanir sínar þar sem ekki verður séð að þetta hlutfall sé að lagast. Í stórum kaupstöðum á landsbyggðinni er rekstur málaflokka um og yfir 90% af skatttekjum. Þetta hlutfall hefur jafnt og þétt farið hækkandi, þ.e. meðaltalið, sem auðvitað ber að hafa í huga að er meðaltal. En við höfum kannski ekki marga aðra skárri mælikvarða til að skoða en hvernig þessi þróun hefur orðið þessi árin að meðaltali og þar siglir þetta hlutfall upp á við um 1--2 prósentustig á ári núna ár eftir ár, úr því sem var algengt fyrir um tíu árum, þ.e. að þetta væri svona 75--78%, í gegnum 80-85% og mjög algengt er nú að heyra tölur á bilinu 85, 87 og upp í og um og yfir 90%. Einstaka dæmi er auðvitað þekkt þar sem rekstur málaflokka tekur 100%, allar skatttekjurnar og jafnvel meira.

Svona er ástandið, herra forseti. Hvað sem hæstv. félmrh. segir eða kann að segja hér á eftir þá er það staðreynd að sveitarfélögin hafa verið rekin með halla og þau hafa safnað skuldum undanfarin ár í hinu svonefnda margfræga góðæri. Það góðæri hefur a.m.k. ekki verið hjá þorra sveitarfélaganna í landinu. Þau fá ekki í þessum tillögum hér úrlausn þeirra mála sem hæst hefur þó borið í umræðu milli ríkis og sveitarfélaga undanfarin ár, þ.e. uppgjör á breyttri verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Þar standa fullyrðingar á móti fullyrðingum um útkomu sveitarfélaganna. Annars vegar heldur ráðuneytið því fram, eða ríkisvaldið og sumpart forustumenn samtaka sveitarfélaga í landinu, af því að þeim er málið skylt, þ.e. þeirra sem stóðu að samningum um þessa hluti á umliðnum árum, að þetta komi þokkalega út fyrir sveitarfélögin. En aðrir halda því blákalt fram og færa fyrir því rök að þarna sé umtalsverður halli á að teknu tilliti til þess auðvitað hvernig raunkostnaður við t.d. grunnskólahaldið hefur þróast undanfarin ár. Hann hefur stóraukist. Af hverju? Hann hefur aukist vegna þess að laun kennara hafa hækkað. Hann hefur aukist vegna þess að menn hafa verið að einsetja grunnskólann. Hann hefur aukist vegna þess að menn eru að reyna að innleiða framfarir í skólahaldinu og væntingarnar um það voru gríðarlegar þegar málaflokkurinn var fluttur yfir. Eiga menn þá að segja: ,,Já, en það eru sveitarfélögin sem verða að ráða fram úr þessu``? Er það sanngjarnt þegar staðan er sú að ríkisvaldið og löggjafinn skammtar þeim tekjurnar? Það er ekki þannig að sveitarfélögin hafi skattlagningarvald. Það er algerlega innan þess ramma sem löggjafinn setur hverju sinni.

Ef í ljós kemur --- hvað sem öllum samningum á sínum tíma leið --- að þessi málaflokkur er orðinn miklu dýrari í rekstri hjá sveitarfélögunum --- verkaskiptingin hefur haft það í för með sér eins og hlutirnir hafa þróast --- þá verður að horfast í augu við það á Alþingi af löggjafanum og fjárveitingavaldinu.

Þá verður að gera annað tveggja --- það er bara ósköp einfalt mál --- létta að einhverju leyti hinum lögbundnu skyldum af sveitarfélögunum og segja: ,,Ja, þið þurfið ekki að gera nema svo og svo``, eða færa þeim meiri tekjur. Það er ekki hægt að láta kröfurnar um reksturinn standa, að hann uppfylli þessi og þessi skilyrði, að skólinn sé einsetinn, að þetta og þetta gildi sem kostar peninga og láta síðan sveitarfélögin ekki hafa möguleika til að ráða við þann rekstur. Það gengur ekki upp.

Herra forseti. Þetta er í hnotskurn vandinn í samskiptum ríkisvaldsins, löggjafans og fjárveitingavaldsins annars vegar og sveitarstjórnarstigsins hins vegar, að sjálfstæði sveitarfélaganna takmarkast af þeim lagaramma sem hér er settur, bæði hvað varðar útgjöld, skyldur og tekjuöflunarmöguleika. Við getum ekkert ýtt vandanum frá okkur hér á Alþingi með einhverjum patentrökum, einföldum lausnum af því tagi að segja að þetta sé hausverkur sveitarfélaganna. Menn verða að horfast í augu við hlutina eins og þeir eru. En mér finnst á köflum, herra forseti, skort hafa á að menn hafi gert það.

Ég tel í raun að á margan hátt sé skaðlegt að halda í umræðunni jafnskörpum skilum á milli afkomu ríkisins og sveitarfélaganna, að monta sig á Alþingi ár eftir ár af því að ríkissjóður sé rekinn með svo ágætum árangri --- sem að vísu hefur verið rangt því það hefur fyrst og fremst verið eignasala sem hefur myndað afgang á ríkissjóði að undanförnu --- og hælast um af því sem miklum árangri í hinum opinbera rekstri á sama tíma og sveitarfélögin safna skuldum. Ég held að það eigi að líta í miklu ríkari mæli á hinn opinbera rekstur sem eitt því auðvitað eru þetta bara tvær hliðar á sama peningnum, rekstur sveitarfélaganna annars vegar og hins opinbera hins vegar, þegar kemur að því sem máli skiptir, þjónustu við almenning og rekstri velferðarkerfisins og samneyslunnar.

Það er óskaplega lítið til að gleðjast yfir, því miður, að afkoman sé jákvæð öðrum megin ef hún er að sama skapi neikvæð hinum megin og það hallar þar á klyfjunum. Þann vanda munu menn þó fyrr eða síðar þurfa að takast á við og leiðrétta. Auðvitað mun það aldrei ganga til lengdar og um ókomin ár að keyra sveitarfélögin áfram með hallarekstri. Fyrr eða síðar rekur að því að menn verða að horfast í augu við þann vanda og taka á honum. Ef það er ekki gert með beinum hætti og almennum aðgerðum sem bæta stöðu sveitarfélaganna þá fá menn þetta að lokum í hausinn einfaldlega í gegnum greiðsluþrot þeirra og vandamál sem lenda þá inni á borði félmrn. þannig. Það hefur svo sem reyndar gerst, samanber allmörg sveitarfélög sem hafa þurft á sérstökum stuðningi og aðgerðum að halda til þess að halda sér á floti.

Út í hvað hafa sveitarfélögin hrakist á undanförnum árum vegna þessa ástands? Jú, þau hafa hrakist út í að selja eignir sínar. Þau hafa hrakist út í það, jafnvel mikilvægar almannaþjónustustofnanir og veitur. Er það æskilegt? Nei, það er ekki æskileg þróun. Þetta eru fyrirtæki og þjónustustarfsemi sem í raun er á allan hátt betur komin og best komin í höndum sveitarfélaganna fyrir hönd íbúanna á viðkomandi svæði. Þetta hefur hæstv. félmrh. Páll Pétursson horft upp á í sinni tíð og lítið maldað í móinn, meira að segja staðið beinlínis fyrir sumum hlutum í þeim efnum.

Að hæla því svo að vegna þess að Orkubú Vestfjarða var selt og keypt á háu verði af sveitarfélögum á Vestfjörðum og því séu þau á grænni grein, er alveg furðulegur málflutningur ef rekstur þeirra og afkoma og aðstaða hefur ekkert batnað í grunninn. Hversu lengi lifa þau þá á Orkubúi Vestfjarða? Það verða ekki mörg ár ef rekstur þeirra verður áfram jafnerfiður og hann hefur verið að undanförnu. Það eru svo sem ýmsar ástæður fyrir því sérstakar á því svæði eða byggðarlögum af því tagi sem þar eru sem hafa af ýmsum ástæðum átt á brattann að sækja.

Herra forseti. Ég læt þetta nægja um efni þessa frv. sérstaklega og svona hið almenna samhengi sem það er afgreitt í og lýk þá máli mínu á því að mæla fyrir brtt. sem ég hef leyft mér að flytja. Í sjálfu sér er þetta frv. ekki tilefni til mikillar andstöðu af minni hálfu nema síður sé. Ég sé í sjálfu sér enga ástæðu til að styðja ekki framgang þessa mjög svo afmarkaða samkomulags milli ríkis og sveitarfélaga. En ég tel rétt að menn tali ekki um það eða geri úr því meira en efni standa til, nema síður sé. Þetta er í raun í sjálfu sér minni háttar lagfæring í þessum samskiptum.

Það er þó tvennt, herra forseti, sem ég er ósáttur við í þessu máli og hef verið ósáttur við síðan niður féllu svonefnd sérstök tekjujöfnunar- og fólksfækkunarframlög sem greidd voru um þriggja ára skeið og komu verulega til móts við erfiðleika þeirra sveitarfélaga sem lenda í hremmingum vegna skyndilegrar fólksfækkunar og tekjufalls af þeim sökum. Það eru jú auðvitað afbrigðilegar aðstæður í sveitarfélagi ef íbúunum fækkar allt í einu um kannski 10--15% á einu ári, ég tala nú ekki um ef eitthvað af þeirri stærðargráðu gerist tvö, þrjú ár í röð. Tekjurnar snarfalla en tilkostnaðurinn lækkar ekki skyndilega að sama skapi því að sveitarfélagið situr meira og minna uppi með sinn fasta rekstur og sína starfsmenn og hefur takmarkaða möguleika til að draga þar snöggt úr útgjöldum. Þetta gefur augaleið og á þessu hafa menn sýnt skilning gegnum tíðina.

Ég þykist muna að fólksfækkunarframlög hafi komið til um 1990 og verið greidd gegnum jöfnunarsjóð eða með einhverjum hætti á alllöngu árabili og síðan kom þetta sérstaka samkomulag um greiðslu allverulegra framlaga sem gengu til sveitarfélaga sem urðu fyrir skyndilegri fólksfækkun.

En þessu samkomulagi lauk og engin slík framlög voru greidd á yfirstandandi ári né stendur til að gera á hinu næsta ef ég veit rétt. Samt eru auðvitað einhver sveitarfélög að lenda í nákvæmlega þessum hremmingum, miklum áföllum. Það er nærtækt að taka dæmi af Raufarhöfn sem hefur orðið fyrir þungum búsifjum, nánast lent í byggðahruni síðustu tvö, þrjú árin og hefði samkvæmt eldri reglum fengið umtalsverðan stuðning einnig á þessu ári ef ekki hefði staðið svona snilldarlega á, eða hitt þó heldur, að akkúrat á árinu 2002 hættu menn að greiða þessi sérstöku tekjujöfnunar- og fólksfækkunarframlög.

Ég leyfi mér því að leggja til, herra forseti, að opnað verði fyrir a.m.k. vissa möguleika, vissar heimildir, til að grípa til greiðslu slíkra framlaga. Það verði þá gert undir þeim lið laganna um jöfnunarsjóð sem fjallar um sérstök framlög og við f-liðinn þar sem fjallar um greiðslu framlaga til sérstakra verkefna sem geta haft mikla þýðingu fyrir sveitarfélög og/eða leiða til hagræðingar í rekstri og þjónustu þeirra. Gott og vel. Um þetta flyt ég brtt. á þskj. 691. Þar við bætist setning við f-lið d-liðar 1. gr. frv.: ,,einnig til greiðslu framlaga til að aðstoða sveitarfélög vegna breyttra aðstæðna og/eða óvæntra breytinga á afkomu þeirra, svo sem vegna fólksfækkunar.``

Herra forseti. Þetta mundi taka af allan vafa um að undir þessum f-lið væri jafnframt heimilt að --- ef sérstakar aðstæður mæltu með --- grípa til greiðslu fólksfækkunarframlaga úr því að hæstv. ráðherra hefur nú einu sinni þetta víðtæka reglugerðarvald og úr því að jöfnunarsjóður hefur ýmsar heimildir og ýmsa möguleika samkvæmt þessum lögum til að bregðast við breyttum aðstæðum. Þó er það þannig orðað, óttast ég, að risið gætu deilur um það og jafnvel að menn mundu hneigjast til að túlka það þannig að hann hefði ekki heimildir til að greiða t.d. sérstök framlög til sveitarfélaga sem hefðu orðið fyrir fólksfækkun því það gæti orkað tvímælis að þetta orðalag rúmaði það:

,,Til greiðslu framlaga til sérstakra verkefna ...``

Það er spurning hvort hægt er að kalla það sérstakt verkefni. Ég efast um það.

Þá leyfi ég mér að spyrja í allri vinsemd: Er ekki hæstv. félmrh. tilbúinn til að hugleiða að a.m.k. heimildin standi þarna? Í eðli sínu er þetta í raun heimildarákvæði í þeim skilningi að það þarf síðan að setja reglur um greiðslurnar og þá get ég ekki séð að það skaði að hafa þessa heimild þarna.

Það eru ekki miklir fjármunir sem betur fer í flestum tilvikum sem þarna þyrftu til að koma en gætu skipt miklu því gjarnan er um frekar lítil sveitarfélög að ræða og við skulum vona að þau verði ekki mörg á komandi árum þar sem þessar dapurlegu aðstæður eru uppi að það er að verða skyndileg eða umtalsverð fækkun á fólki.

Ég held að menn hljóti að geta sýnt því skilning að við slíkar aðstæður er rétt og sanngjarnt að bregðast við og létta mönnum þær sársaukafullu breytingar sem þetta hefur í för með sér og er nú víst nóg samt að vera í forsvari fyrir sveitarfélög eða íbúi í sveitarfélagi þar sem menn horfa á eftir fólki í burtu þótt það bætist ekki við að það bitni beint á þeim íbúum sem eftir verða í gegnum sannarlega versnandi afkomu sveitarfélagsins til að sinna þó þeirri þjónustu við þá íbúa sem eftir eru. En það er auðvitað það sem gerist. Það er auðvitað það sem gerist að þeir íbúar sem eftir verða eru þolendur ástandsins vegna þess að þetta leiðir óhjákvæmilega, a.m.k. tímabundið, til versnandi afkomu sveitarfélagsins.

[24:15]

Einnig, herra forseti, leyfi ég mér að leggja til að ákv. til brb. verði breytt þannig að heimild til að greiða svonefnd stofnframlög til sveitarfélaga með tvö þúsund íbúa eða færri deyi ekki jafnsnöggt út og frv. gerir ráð fyrir. Mér finnst ósanngjarnt að gefa mönnum ekki meira en tveggja ára og í raun og veru minni aðlögunartíma að slíkum breytingum. Þó að á það sé bent og það komi fram í skýrslu endurskoðunarnefndarinnar að verulega hafi dregið úr sókn í þessi framlög, þá er það ekki eitt og sér í sjálfu sér rök fyrir því að slá þau skyndilega af.

Nú er það auðvitað þannig að framkvæmdir hjá sveitarfélögum eru ekki eitthvað sem ákveðið er og ráðist í í skyndingu. Mér finnst ekki ósanngjarnt að menn hafi þá a.m.k. u.þ.b. eitt kjörtímabil til að aðlaga sig að þeim breytingum. Nýteknar eru við völdum sveitarstjórnir í landinu sem voru kjörnar í maímánuði sl. Þar eru menn að ganga núna frá sínum fyrstu fjárhagsáætlunum. Menn eru að byrja að leggja línur í sambandi við framkvæmdir og skipulagningu fjármála á þessu nýhafna kjörtímabili og ég held að það sé ekki alveg sanngjarnt að skella þessari breytingu svona á og að menn hafi ekki nema bara fyrsta árið eða eitt og hálfa eða tvö árin á þessu kjörtímabili til þess að taka ákvarðanir og ráðast í framkvæmdir ef þeir eigi að eiga kost á þessum breytingum.

Mér fyndist því sanngjarnt að þetta yrði í aðalatriðum stillt af við kjörtímabil núverandi sveitarstjórna og það mundi gerast með því að hafa þetta fjögurra ára tímabil og að heimilt væri að greiða út á framkvæmdir sem hæfust fyrir lok ársins 2006, enda öllum skilyrðum fullnægt samanber hlutverk ráðgjafarnefndar jöfnunarsjóðs og allt það, og þá yrði þetta þannig að framlögin féllu niður frá og með 1. janúar 2007 en það væri þó heimilt að greiða eftir þann tíma framlög vegna framkvæmda sem hæfust fyrir lok árs 2006.

Þessar tvær breytingar, herra forseti, fyndust mér vera til bóta í málinu að sjálfsögðu, enda flytti ég þær ekki ella, og ég tel þær sanngjarnar, ég tel þær ekki raska þessu máli á einn eða neinn hátt. Þetta eru minni háttar lagfæringar í sanngirnisátt og mér þætti ákaflega vænt um ef hægt væri að koma til móts við þær.