Breyting á XVIII. viðauka við EES-samninginn

Föstudaginn 13. desember 2002, kl. 11:24:19 (2751)

2002-12-13 11:24:19# 128. lþ. 57.17 fundur 426. mál: #A breyting á XVIII. viðauka við EES-samninginn# (vinnutími) þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 128. lþ.

[11:24]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Eins og kom fram í máli framsögumanns, formanns utanrmn., er hér um að ræða ákvörðun í sameiginlegu EES-nefndinni sem varðar að innleiða breytingar á vinnutímatilskipun Evrópusambandsins, ef við leyfum okkur að kalla tilskipun ráðsins nr. 93/104 því nafni. Þetta felur í sér, eins og fram kom, að helstu hópar sem hafa verið undanskildir þessum vinnutímaákvæðum eða vinnuverndarákvæðum, ef við köllum þau svo, falla framvegis undir ákvæði tilskipunarinnar. Læknakandídatar eða læknar í starfsnámi, sjómenn og nokkrir fleiri hópar sem starfa á sviði flutninga koma þá til með að falla undir þessi ákvæði. Að vísu er gefinn þarna ákaflega rúmur aðlögunartími, allt upp í átta ár ef löndin nýta sér til fulls aðlögunartíma og mögulegan viðbótaraðlögunartíma þannig að segja má að það sé nokkur tími til stefnu til að undirbúa þessar breytingar. Það er þó enginn vafi á því að þetta mun hafa þó nokkur áhrif, t.d. á skipulag vinnumála á sjúkrahúsum og á starfsumhverfi íslenskra sjómanna. Þessi vinnutímaákvæði eða vinnuverndarákvæði koma þá til með að leysa af hólmi að hluta til eða jafnvel að öllu leyti einhverja frægustu vinnuverndarlöggjöf sögunnar á íslenskum vinnumarkaði, vökulögin sem hingað til hafa ein gilt og tryggt sjómönnum lágmarkshvíld. Væri nú gaman, herra forseti, að rifja pínulítið upp sögu þeirrar merku löggjafar.

Það hefði að sjálfsögðu verið æskilegt að fá aðeins betri tíma til að skoða þetta mál og ræða t.d. við aðila vinnumarkaðarins en hér gafst mjög skammur tími frá því að tillögurnar komu fram, væntanlega sökum þess að það hefur verið handleggur að þýða þessa pappíra alla frá því að þetta var ákveðið á miðju sumri, en þannig stendur á að frestur til að falla frá stjórnskipulegum fyrirvara rennur út núna í desembermánuði, sex mánaða frestur sem menn hafa frá því að ákvörðun í sameiginlegu EES-nefndinni er tekin.

Það er líka rétt að minna á, herra forseti, hver staða sjálfrar tilskipunarinnar er að íslenskum lögum og á íslenskum vinnumarkaði. Þar er satt best að segja nokkuð sérkennileg staða uppi. Þegar Íslendingar gerðust aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu var að sjálfsögðu í gildi vinnutímatilskipun ráðsins nr. 93 og okkur bar að innleiða hana eins og aðra hluta Rómarréttarins sem við gerðumst aðilar að. Það var ákveðið hér á landi að fara þá leið að innleiða þetta í samningum, aðila vinnumarkaðarins, eins og heimilt er. Það var boðið upp á þann valkost í ferlinu að gera þetta með lagasetningu og/eða með því að fullgilda ákvæðin í formi kjarasamninga á vinnumarkaði. Það var ákveðið að fara þá leið í aðalatriðum hér en aðilar vinnumarkaðarins óskuðu engu að síður eftir því að staðfestur yrði ákveðinn lagarammi með afgreiðslu Alþingis á málinu. Sú afgreiðsla hefur hins vegar ekki náð fram að ganga sökum ágreinings um tiltekna þætti málsins og er það mál enn í skoðun. Hér er í raun verið að falla frá stjórnskipulegum fyrirvörum vegna breytinga á þessari vinnutímatilskipun sem Alþingi á hinn bóginn hefur ekki enn lögfest að því leyti sem ætlunin var að gera. Væntanlega, herra forseti, renna þessi tvö mál þá saman og vonandi lítur dagsins ljós að lokum heildstæður lagarammi sem innleiðir þessi vinnutímaákvæði og vonandi verða þau þá orðin heildstæðari fyrir vinnumarkaðinn en þau áður voru vegna þess að þær undanþágur sem til staðar voru varðandi læknakandídata, sjómenn og fleiri aðila verða þá fallnar niður.

Málið í heild, herra forseti, er að mínu mati í öllum aðalatriðum til bóta og er hluti af eðlilegri vernd launamanna á vinnumarkaði hvað varðar hollustu, heilnæmi, aðbúnað og síðast en ekki síst vinnutímaákvæði þar sem mönnum eru tryggð ákveðin lágmarksákvæði um hvíld, vinnuhlé og annað í þeim dúr. Það er að sjálfsögðu augljóst mál að ákvæði af þessu tagi munu aldrei ná fram að ganga með neinum skikkanlegum hætti nema um þau sé mjög gott samkomulag aðila vinnumarkaðarins. Þetta eru ekki hlutir sem skynsamlegt er að hugsa sér að þvinga fram í einstökum atriðum með löggjöf. Ég held að það mundi seint ganga að hið háa Alþingi skipaði fyrir um það í einstökum smáatriðum hvernig kaffitímum eða hvíldartímum, vinnuhléum og öðru slíku sé háttað á vinnumarkaði. Þess vegna er það, herra forseti, mjög mikilvægt mál, og er ástæða til að undirstrika það hér, að í þessum samskiptum reynir á þríhliða samskipti ríkisvaldsins eða löggjafans og aðila vinnumarkaðarins til þess að farsæl niðurstaða fáist. Það hefur kannski ekki tekist alveg sem skyldi enn sem komið er hér á landi að ná þessu saman, samanber það sem ég áður sagði að lagarammann hefur dagað uppi á Alþingi í tvígang og reyndar ekki litið dagsins ljós enn á þessu þingi. Vonandi stendur það til bóta. Ég held að það væri æskilegt markmið að menn settu sér að ganga frá því að komin væri farsæl niðurstaða í þessi mál áður en Alþingi lýkur störfum í vor.