Breyting á XVIII. viðauka við EES-samninginn

Föstudaginn 13. desember 2002, kl. 11:31:59 (2753)

2002-12-13 11:31:59# 128. lþ. 57.17 fundur 426. mál: #A breyting á XVIII. viðauka við EES-samninginn# (vinnutími) þál., EKG
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 128. lþ.

[11:31]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég ætla í sjálfu sér ekki að fara út í neina efnislega umræðu um þetta mál sem hér liggur fyrir. Hv. framsögumaður hefur gert ágætlega grein fyrir málinu og aðrir sem hér hafa talað. Hins vegar langar mig til þess að vekja athygli á alveg ótrúlega afkáralegu orðalagi sem er í þessari tilskipun í þýðingunni. Ég held að þetta sé eitt af því sem er nauðsynlegt að menn hugleiði af því að yfir okkur eru að dengjast í miklum mæli þýðingar á tilskipunum og gerðum Evrópusambandsins.

Hér er fjallað um starfskjör sjómanna og þá er skyndilega farið að uppnefna þessa stétt. Hér segir ,,farstarfsmenn og vinna á hafi úti`` og ,,starfsmenn á sjófiskiskipum``. Nú sé ég hérna fyrir framan mig fyrrv. forseta Farmanna- og fiskimannasambands Íslands. Ef þetta verður lagt inn í lögin, þessi orðanotkun, sýnist mér að þessi samtök hljóti að heita hér eftir ,,Farstarfsmanna- og sjófiskimannasamband Íslands``.

Virðulegi forseti. Þetta er náttúrlega ekki hægt. Ég veit að menn geta stundum þurft að hafa hraðar hendur þegar verið er að þýða þessar gerðir og tilskipanir en fyrr má nú vera. Ég held að hver einasti Íslendingur hljóti að þekkja hugtökin ,,farmaður`` og ,,fiskimaður`` og þekki síðan heitið sjómaður og það þurfi ekki að vera að búa til orðskrípin sjófiskimaður og farstarfsmaður sem ekki nokkur maður skilur.

Ég heyrði einhverja umræðu um að ekki væri hægt að færa til störf við þýðingar á vegum utanrrn. því hér væru svo óskaplega færir menn í að þýða yfir á íslensku. En mér sýnist, virðulegi forseti, að menn þurfi að fara að skoða mál sitt í þeim efnum, bókstaflega talað.