Breyting á XX. viðauka við EES-samninginn

Föstudaginn 13. desember 2002, kl. 11:53:30 (2760)

2002-12-13 11:53:30# 128. lþ. 57.21 fundur 445. mál: #A breyting á XX. viðauka við EES-samninginn# (mat á umhverfisáhrifum) þál., Frsm. SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 128. lþ.

[11:53]

Frsm. utanrmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá utanrmn um till. til þál. um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 90/2002, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn.

Í nefndaráliti kemur fram um hvaða breytingar er að ræða. Meginmarkmið tilskipunar 2001/42/EB er að tryggja að umhverfisáhrif skipulags- og framkvæmdaáætlana séu metin áður en áætlanirnar hljóta endanlega afgreiðslu en samkvæmt efni sínu tekur tilskipunin til skipulagsáætlana og framkvæmdaáætlana sem fjalla um landbúnað, skógrækt, fiskeldi, orku, iðnað, samgöngur, förgun úrgangs, vatnsnýtingu, fjarskipti, ferðaþjónustu og landnotkunarskipulag. Samkvæmt tilskipuninni skal umhverfismat fela í sér gerð umhverfisskýrslu sem síðan er kynnt fyrir stofnunum og almenningi. Síðan er kostur gefinn á athugasemdum en ekki er um eiginlegt úrskurðarferli að ræða líkt og gildir um framkvæmdir sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum.

Talið er að áætlanir sem falli undir tilskipunina hér á landi, aðrar en skipulagsáætlanir, séu fyrst og fremst samgönguáætlanir, áætlanir um orkuöflun og skógræktar- og landgræðsluáætlanir.

Innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi en efni hennar hefur þegar verið innleitt að hluta til með skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, og skipulagsreglugerð nr. 400/1998. Frestur til að gera nauðsynlegar lagabreytingar er til 21. júlí 2004.

Nefndin leggur einróma til að tillagan verði samþykkt.