Stofnun hlutafélags um Norðurorku

Föstudaginn 13. desember 2002, kl. 13:17:09 (2768)

2002-12-13 13:17:09# 128. lþ. 59.2 fundur 457. mál: #A stofnun hlutafélags um Norðurorku# frv. 159/2002, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 128. lþ.

[13:17]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson og hv. þingmenn Vinstri grænna eru á móti hlutafélagaforminu eins og ég skil ræðu hv. þm. og reyndar hefur það komið fram áður í þinginu. Ég velti því mjög fyrir mér, er ástæða til að hafa þessar áhyggjur sem hv. þm. hefur af því að íbúar Akureyrar fái nánast ekki raforku? Mér finnst hann hafa óþarflega miklar áhyggjur af því að með því að breyta þessu fyrirtæki í hlutafélag sé verið á einhvern hátt að ganga á rétt bæjarbúa eða koma málum svo fyrir að þeir geti ekki verið öruggir um að fá afhenta raforku í framtíðinni. Þessar áhyggjur eru algerlega óþarfar því að að sjálfsögðu munu lög í landinu kveða á um það hér eftir sem hingað til að það eru ákveðnar skyldur sem fylgja því eða sem verða lögfestar í nýjum raforkulögum hvað það varðar að afhenda raforku. Ef áhyggjurnar sem hv. þm. hefur eru í tengslum við hlutafélagaformið sem slíkt, að fyrirtækið fari að okra á bæjarbúum, þá finnst mér hann ganga nokkuð langt.

Þetta snýst líka að verulegu leyti um sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga. Þarna er sveitarfélag sem biður um þetta, vill reka þetta fyrirtæki í hlutafélagaforminu. Er þá ástæða til þess að Alþingi taki fram fyrir hendurnar á viðkomandi bæjarfélagi? Þar að auki höfum við verið að samþykkja sambærileg lög fyrir önnur sveitarfélög.