Stofnun hlutafélags um Norðurorku

Föstudaginn 13. desember 2002, kl. 13:21:18 (2770)

2002-12-13 13:21:18# 128. lþ. 59.2 fundur 457. mál: #A stofnun hlutafélags um Norðurorku# frv. 159/2002, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 128. lþ.

[13:21]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að raforkumál séu ekki hluti af velferðarþjónustunni. Ég get ómögulega fallist á það. Það sjáum við þegar við horfum í kringum okkur að ekki er litið þannig á málið í öðrum löndum, enda er verið að taka upp frelsi í sambandi við raforkumálin og það eru ekki mörg ár þar til fólk getur ákveðið sjálft hvaðan það kaupir raforkuna þannig að Akureyringar geta þess vegna farið að kaupa raforku hjá Orkuveitu Reykjavíkur eða guð má vita hvaðan eftir nokkur ár. Þetta er það fyrirkomulag sem við erum að taka upp og tengist reyndar ekki beint þessu frv.

Hv. þm. talaði áðan um að málið væri seint fram komið og ég get alveg tekið undir það, málið er mjög seint fram komið. En það fór hins vegar með eins miklum hraða og mögulegt var eftir að bæjarstjórn Akureyrar hafði samþykkt að breyta Norðurorku í hlutafélag og komið þeim boðum áleiðis til okkar. Málið þurfti síðan að fara í þetta ferli sem er ríkisstjórn og þingflokkar stjórnarflokkanna og undirritun forseta Íslands. Þetta er því heilmikill prósess sem fer í gang áður en málum er dreift á hv. Alþingi. Það er ástæðan fyrir því að tíminn er ekki meiri. En ég minni á að sambærileg mál hafa farið í gegnum þingið á mjög stuttum tíma frá öðrum sveitarfélögum sem varða orkufyrirtækin þannig að þetta er ekkert einsdæmi og mér hefði þótt það leiðinlegt ef við hefðum þurft að bregðast Akureyringum í þessu miðað við það að við höfum tekið mjög jákvætt á málum varðandi bæði Suðurnes og Reykjavík.