Stofnun hlutafélags um Norðurorku

Föstudaginn 13. desember 2002, kl. 14:16:13 (2775)

2002-12-13 14:16:13# 128. lþ. 59.2 fundur 457. mál: #A stofnun hlutafélags um Norðurorku# frv. 159/2002, SJS
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 128. lþ.

[14:16]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þarf ekki miklu að bæta við það sem félagar mínir hafa þegar sagt í þessari umræðu. Ég held að við höfum komið afstöðu okkar í þessu máli skilmerkilega á framfæri. Nú er athyglisvert að heyra hv. þm. Kjartan Ólafsson, sem að vísu hefur sér það til afsökunar að vera lítt þingreyndur maður, koma upp og tala um málþóf eftir að umræða um mál af þessu tagi hefur staðið í kannski eins og eina klukkustund. Ég hygg að hv. þingmaður eigi eftir að læra á þennan heim og átta sig á því að það er tæpast hægt að tala um málþóf og hafa miklar innstæður fyrir því þegar umræða hefur ekki staðið lengur en þetta og þegar þar á ofan er verið að ræða um grundvallarmál. Menn eru að reifa hér, þeir sem á annað borð hafa fyrir því og nenna að gera grein fyrir sjónarmiðum sínum, viðhorf sín til grundvallarspurninga í pólitík samtímans. Til þess hélt ég að við værum á Alþingi, og til þess hélt ég að við stjórnmálamenn værum í stjórnmálum að gera grein fyrir áherslum okkar og tala fyrir þeim og leggja okkar sjónarmið fyrir. Svo er það kjósendanna að ákveða hverjum þeir fylgja að málum. Ég er hræddur um að hv. þingmaður neyðist til að horfast í augu við það að ekki einasta eigum við rétt á okkar skoðunum í lýðfrjálsu landi heldur á almenningur rétt á því að fylgja okkur og það mun hann gera og hefur þegar gert í þó nokkrum mæli. Ég held því að hv. þm. ætti aðeins að gá að sér áður en hann ætlar sér að afgreiða umræður af þessu tagi út af borðinu með þetta ómálefnalegum hætti og klisjutali af þessu tagi um framfarafælni eða að menn séu ekki nógu nútímalegir og annað í þeim dúr.

Stundum er það þannig, herra forseti, og það er kannski ákveðið innbyggt réttlæti í stjórnmálaumræðunni, stjórnmálarökræðunni, stundum er það svo handhægt að það þarf ekki að svara andstæðingunum af því að þeir afgreiða sig sjálfir. Ég hygg að það eigi við um þetta tilvik. Það þarf stundum ekkert að vera að svara mönnum, þeir dæma sig sjálfir með innihaldslausum og innantómum málflutningi, órökstuddum af því tagi sem hv. þm. prjónaði hér upp í með og ég vona að hafi verið fljótfærni og yfirsjón af honum, hann temji sér vandaðri framgöngu í þinginu og í rökræðunum og komi þá í ræðustólinn og geri grein fyrir sjónarmiðum sínum og rökstyðji þau viðhorf sín að einhver önnur sjónarmið eigi ekki rétt á sér.

Herra forseti. Það sem ég held að blasi hvað skýrast við í sambandi við þetta mál, stofnun hlutafélags um Norðurorku, er að hlutirnir gerast ekki í réttri röð. Það eru veruleg vonbrigði að meiri hluti bæjarstjórnar Akureyrar skuli ekki treysta sér til, eða ekki vilja, að bíða með þessar formbreytingar eða þessa endurskipulagningu á orkufyrirtækjum og -veitum bæjarins þangað til hið nýja lagaumhverfi orkufyrirtækjanna og vatnsveitnanna liggur fyrir eftir setningu nýrra raforkulaga eftir mögulega breytingu á lögum um vatnsveitur og annað sem þar heyrir undir. Þá held ég að séu tilefni til þess að þau sveitarfélög sem svo kjósa skoði hvernig þau haga skipulagningu sinna mála í hinu nýja laga- og starfsumhverfi. Ég tel t.d., herra forseti, að þá ættu menn alveg hiklaust að velja þá leið að ef menn vilja stofna fyrirtæki sem fer inn á væntanlegan samkeppnismarkað í raforkumálum undanskilji þeir einkaleyfis- og einokunarstarfsemi eins og vatnsveitur og rekstur dreifiveitna í sveitarfélögunum fyrir raforku, heitt vatn og rekstur kaldavatnsveitna og hafi frekar í sjálfstæðum fyrirtækjum þá starfsemi sem þeir ætla að setja inn í samkeppnisumhverfi, hvort sem heldur er að framleiða eða flytja raforku. Það er líka það sem það lagaumhverfi mun væntanlega bjóða upp á þannig að ég sé ekki betur en að hér sé verið að stofna til fyrirtækis sem, ef af verður og stofnað verður nú um hátíðirnar og tekur til starfa 1. janúar, muni hvort eð er þurfa að ganga í gegnum veigamiklar breytingar á uppbyggingu sinni innan fárra mánaða, eða missira í öllu falli, ef hin nýju raforkulög verða að veruleika. Og þá er spurningin hvort það sé ekki í raun og veru of snemmt að ráðast út í þessar breytingar hér.

Auðvitað er það þannig, herra forseti, að það er afar mikilvægt að menn fjalli um þessi málefni út frá því hvers eðlis sú starfsemi er sem í hlut á. Margir reyna að láta líta svo út sem hér sé um hvern annan venjulegan atvinnurekstur að ræða í samkeppni á markaði. Svo er ekki. Hér er um þjónustu við almenning að ræða. Það er verið að þjónusta fólk, íbúa sveitarfélaganna, þannig að það fái kalt og heitt vatn inn í hús sín og rafmagn til nota. Þetta er með öðrum orðum, herra forseti, almannaþjónusta og hún byggir á einkaleyfum. Sveitarfélögin hafa einkrétt til þess að stunda þessa starfsemi gagnvart íbúum sínum og það sem meira er, starfsemin er þess eðlis að hún hlýtur að lúta því sem kallað er efnisleg eða fýsísk einokun, náttúrleg einokun. Það er einfaldlega vegna þess að það er ekki nema ein vatnslögn inn í húsið o.s.frv. Þetta verða menn að hafa í huga þegar þeir ræða þessi mál og reyna að láta líta svo út að það sé eins og eðlilegasti og hversdagslegasti hlutur í heimi að breyta starfsemi af þessu tagi yfir í hlutafélög og þess vegna í framhaldinu jafnvel einkavæða hana. Það er ekki svo.

Um nákvæmlega þetta grundvallarspursmál standa mjög harðar deilur víða í stjórnmálum landa, m.a. í Hollandi eins og hv. síðasti ræðumaður var að minna á. Af hverju skyldi það vera? Það er af því að menn átta sig auðvitað á því hversu innarlega víglínan er komin í sambandi við einkavæðingu og markaðsvæðingu svona starfsemi, þ.e. ef veitustofnanir sem eiga að þjónusta almenning um grunnþarfir dagslegs lífs, eins og heitt og kalt vatn eða rafmagn inn í húsin, eru settar á þetta markaðstorg. Þetta hefur gerst sums staðar í þróunarríkjunum þar sem alþjóðlegt fjármagn, alþjóðleg stórfyrirtæki hafa í raun og veru knúið ríkisstjórnir, fjárvana ríkisstjórnir, til þess að opna allar gáttir. Stórfyrirtæki eins og hið franska Vivendi hafa sums staðar lagt þessa starfsemi undir sig í heilum og hálfum þjóðlöndum og jafnvel heilum og hálfum heimsálfum. Og hver er útkoman á því? Hún er skelfileg. Hún er jafnhörmuleg og t.d. útkoman varð á því hjá þeim Argentínumönnum þegar þeir einkavæddu símann sinn um miðja síðustu öld og seldu hann af því að það vantaði peninga í kassann. Seldu hann hverjum? Svíum. Síðan áttu Svíar mestallan símann í Argentínu og blóðmjólkuðu þjóðina um áratuga skeið og menn gátu engum vörnum við komið. Af hverju? Af því að fyrirtækið átti símalínurnar úti um allt land. Sagan bæði frá fyrri og síðari tímum, herra forseti, geymir mörg spor sem hræða í þessum efnum. Það er í grundvallaratriðum ólíkt að standa svona að málum þegar í hlut á almannaþjónusta af þessu tagi sem þar á ofan lýtur lögmálum náttúrlegrar eða efnislegrar einokunar. Það eru þessi grundvallaratriði, herra forseti, sem við erum draga hérna fram. Þetta er prinsippmál og við tökum afstöðu til þess í samræmi við grundvallarviðhorf okkar til þessara hluta. Og við förum þar ekki í manngreinarálit hver í hlut á hverju sinni eða hvernig aðstæður eru.

Þetta er líka spurning um að vera sjálfum sér samkvæmur á grundvelli langsærra sjónarmiða í stjórnmálum en sveiflast ekki til eins og laufblað í vindi eftir því úr hvaða átt golan kemur hverju sinni. Það er kannski pólitík sem einhverjum hér inni hentar en við afþökkum hana og látum hana öðrum eftir. Menn eiga auðvitað að nálgast hlutina þannig að þeir hafi einhverja kjölfestu í stefnu sinni og nálgist hlutina út frá einhverjum samræmdum og sjálfum sér samkvæmum grundvallarviðhorfum.

Herra forseti. Það hefði auðvitað verið fróðlegt og freistandi að fara nokkrum orðum um hina almennu stöðu í orku- og stóriðjumálum, og eru full tilefni til auðvitað, eins ótrúlegar og aðstæður eru þar á þessum tímum þegar hæstv. ríkisstjórn neytir allra bragða til að reyna að þjóna sinni blindu stóriðjustefnu. Það væri líka freistandi, herra forseti, að fara yfir það sem allt of sjaldan er gert, hvernig útkoman er á þessum málum hjá okkur Íslendingum almennt talað. Hvaða raforkuverð er almenningur á Íslandi að borga? Allt upp undir 10 kr. á kílóvattstund að meðtöldum virðisaukaskatti, eitthvert hæsta orkuverð til almennings í Evrópu. Það er staðreynd. (Iðnrh.: Það má breyta því.) Það á að breyta því, segir hæstv. ráðherra, með því að halda enn þá lengra áfram á sömu braut. Á sama tíma liggur það fyrir að það á að semja við stóriðju um u.þ.b. helming af því verði sem hún greiðir á meginlandi Evrópu og 1/3 af því sem hún greiðir á meginlandi Norður-Ameríku. Sem sagt, útkoman úr þessu fyrirkomulagi er svona: Almenningur, almennir notendur, þar með talinn almennur iðnaður á Íslandi, borgar eitthvert hæsta raforkuverð á Vesturlöndum en stóriðjan frá helmingi og niður í 1/3 af því sem hún gerir í sömu samanburðarlöndum. Menn voru minntir á þetta hérna á dögunum þegar garðyrkjan var í vandræðum og hæstv. landbrh. Guðni Ágústsson skipaði nefnd til þess að athuga hvað væri hægt að gera til að bæta starfskjör garðyrkjunnar og mæta því að tollar voru felldir niður á tilteknum flokkum grænmetis. Muna menn hver var ein tillaga nefndarinnar til úrbóta? Man hæstv. orkumálaráðherra hver var ein tillagan í nefnd starfsbróður hennar? Það var að reyna að fara í aðgerðir til þess að ná raforkuverðinu til íslensku garðyrkjunnar niður í það sem er í samkeppnislöndunum. Með öðrum orðum, á mannamáli sagt, átti að reyna að fara í sérstakar aðgerðir til þess að garðyrkjan íslenska þyrfti ekki að borga hærra rafmagnsverð en samkeppnisgreinarnar í nálægum löndum. Þannig er útkoman úr þessu kerfi okkar. Það er bláköld staðreynd. Og finnst mönnum það svo vera eitthvað sem ástæðulaust sé að ræða? Er þá ekki pottur brotinn? Er ekki eitthvað að í Danaveldi og er það goðgá að Alþingi taki sér eins og eina stund til að spjalla svolítið um þessa hluti? Ég held ekki, herra forseti.