Stofnun hlutafélags um Norðurorku

Föstudaginn 13. desember 2002, kl. 15:14:36 (2790)

2002-12-13 15:14:36# 128. lþ. 59.2 fundur 457. mál: #A stofnun hlutafélags um Norðurorku# frv. 159/2002, HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 128. lþ.

[15:14]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég hef tekið eftir því að hv. þm. Samfylkingarinnar, Kristján L. Möller, 3. þm. Norðurl. v., er af og til að rifja upp fund sem hann sótti eða bauð sjálfum sér til, getum við sagt, þar sem við mættum þingmenn Norðurl. e. að ósk hreppsnefndar Hríseyjar. Við svöruðum þar þeim spurningum sem fram komu og reyndum að gera grein fyrir máli okkar og það var ákveðið áður en sá fundur hæfist hvenær við færum aftur í land og var það allt samkvæmt uppástungu og tillögum hreppsnefndar Hríseyjar.

Hins vegar vakti athygli á fundinum að nýr maður hafði hugsað sér að vinna land í Hrísey. Hann á þar margar ættir og það kom í ljós í prófkjöri um daginn (Gripið fram í: Tókst vel.) að það tókst mjög vel. Ég held að það séu orðnir 50 flokksbundnir samfylkingarmenn í Hrísey svo að hann getur sannarlega fagnað því að hann hefur sáð og fengið góðan ávöxt. En við skulum vona að það komi ekki eitthvert hret og drepi allt saman.

Á hinn bóginn kom þessi þingmaður upp og var mjög ósmekklegur. Hann var m.a. að væna okkur hina um að við vildum ekki sitja fundinn lengur (Gripið fram í.) en ákveðið hafði verið með hreppsnefndinni. Hann sagðist geta setið þar alla nóttina með eyjarskeggjum og þar fram eftir götum. Ég sagði þá við þennan hv. þm. að við þingmenn Norðurl. e. beittum ekki þvílíkum málflutningi og reyndum að haga okkur í samræmi við það sem fundarboðendur bæðu okkur að gera hverju sinni. Ef þeir hefðu beðið okkur að vera lengur á fundinum hefðum við að sjálfsögðu gert það.

Ég tel nauðsynlegt að leiðrétta þetta og ég ætla að biðja hv. þm. að vera ekki oftar að rifja upp þennan fund því að hann var honum ekki til sóma.