Skipulag ferðamála

Föstudaginn 13. desember 2002, kl. 15:31:01 (2799)

2002-12-13 15:31:01# 128. lþ. 59.1 fundur 447. mál: #A skipulag ferðamála# (afnám Ferðamálasjóðs) frv. 156/2002, Frsm. GHall
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 128. lþ.

[15:31]

Frsm. samgn. (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. samgn. um frv. til laga um breytingu á lögum um skipulag ferðamála, nr. 117/1994, með síðari breytingum.

Með frumvarpinu er lagt til að ferðamálasjóður verði lagður niður. Frumvarpið er í samræmi við niðurstöðu vinnuhóps sem samgönguráðherra skipaði til að fara yfir stöðu sjóðsins þar sem eiginfjárhlutfall hans uppfyllti ekki skilyrði laga.

Samkomulag hefur náðst í ríkisstjórn um að stuðningur við verkefni á sviði ferðaþjónustu verði áfram veittur í formi samstarfs Ferðamálaráðs og Byggðastofnunar.

Nefndin telur ekki liggja alveg ljóst fyrir í frumvarpinu hvernig háttað verði frágangi eigna og skulda Ferðamálasjóðs eftir að hann hefur verið lagður niður og leggur áherslu á að unnið verði að því máli í góðu samstarfi milli viðkomandi ráðuneyta.

Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að heimild til að innheimta gjald fyrir þjónustu á ferðamannastöðum sem eru í umsjá ríkisins verði felld niður. Þessi breyting snertir ekki megintilgang frumvarpsins sem felst í að leggja niður ferðamálasjóð. Það er álit nefndarinnar að ekki saki að hafa slíka heimild í lögum enda kunna aðstæður og viðhorf manna að breytast gagnvart slíkri gjaldtöku. Með þessu tekur nefndin þó enga afstöðu til þess hvort rétt sé leggja slík gjöld á eða ekki.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldri breytingu:

3. gr. falli brott.

Lúðvík Bergvinsson, Kristján L. Möller, Jón Bjarnason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en auk þess er hér stendur skrifa undir nál. Arnbjörg Sveinsdóttir, Jónas Hallgrímsson, Sigríður Ingvarsdóttir og Magnús Stefánsson.