Spóla 0303041345: 128. þing, 87. fundur, gert 4 14:25
[prenta uppsett í dálka]

Bráðabirgðaútgáfa. Bein tilvitnun óheimil.

[13:45] (framhald af ræðu í vinnslu)

Steingrímur J. Sigfússon:

Þegar það svo bætist við, herra forseti, að það hellast yfir okkur þessa dagana upplýsingar um það að þetta verkefni verði ekki bara mesta umhverfisslys Íslandssögunnar heldur mjög sennilega einnig eitt mesta efnahagsslys Íslandssögunnar fara sennilega að renna tvær grímur á mann og mann, eða hvað? Er mönnum alveg nákvæmlega sama um hin efnislegu rök málsins? Er það bara hið pólitíska valdboð sem skal ráða niðurstöðunni sama hvaða upplýsingar og rök koma á borðin? Er þá ekki eitthvað að, herra forseti, ef á þessa menn bítur hvorki járn né rök? Það er vaðið áfram í málinu að þessum hætti og það er ekki eins og það þurfi að fara langt til að sækja rökin fyrir því sem ég er að fullyrða um hið efnahagslega stórslys sem er í uppsiglingu. Margir af þekktustu hagfræðingum þjóðarinnar segja það. Helsta málgagn viðskiptalífsins, Viðskiptablaðið, er undirlagt af umfjöllun um hin neikvæðu efnahagslegu áhrif í okkar litla hagkerfi sem verða af þessu risaverkefni ef því verður troðið inn í hagkerfið á fáeinum árum til viðbótar við allt sem þar er fyrir, til viðbótar við stækkun álvers á Grundartanga og virkjana sem því tengjast, til viðbótar við ýmsar aðrar stórar framkvæmdir í landinu. Þá er ósköp einfaldlega mat manna það að fórnarkostnaðurinn, ruðningsáhrifin, sem annað atvinnulíf, efnahagslegur stöðugleiki, skuldsett heimili í landinu verði að bera verði gríðarlegur, og fyrir hvað? Fyrir framkvæmd sem mjög sennilega verður verulega þjóðhagslega óarðbær. Það er a.m.k. sá hlutinn sem að Íslendingum sjálfum snýr, það er bygging virkjunarinnar og sala á raforku á útsöluverði til erlends félags sem á álverið á 1/6 til 1/10 af því sem landsmenn sjálfir þurfa að borga fyrir orkuna úr sínum eigin virkjunum. Er það ekki eitthvað öfugsnúið, herra forseti, að við sem eigum þetta land og getum beislað orkuna okkur til hagsbóta ef við viljum svo og höfum vit til þess erum að ráðstafa stærstu virkjanakostunum á útsöluverði til útlendinga en þrælum upp verðinu á okkur sjálf þannig að það er hærra en í nágrannalöndunum? Það er allt og sumt sem við berum úr býtum, almennir raforkukaupendur í landinu í þessu orkuríka landi, að það er ódýrara að kynda hús með innfluttum orkugjöfum, olíu, kolum eða hvað það væri heldur en að nota til þess íslenska rafmagnið og á það þó að geta verið einhver ódýrasta orka í heimi ef allt er með felldu. Það er fátt betra en snyrtileg afskrifuð rennslisvirkjun, t.d. í bergvatnsá, sem hægt er að reisa ef skynsamlega er að málum staðið með sáralitlum umhverfisáhrifum og er auk þess afturkræf, eða að virkja gufuafl eftir því sem á þarf að halda til viðbótar handa okkur til almennra nota í landinu. Það er ekkert mál, herra forseti. Það eru ótal möguleikar úti um allt. Það þarf ekki annað en bæta bara í rólegheitum við einni og einni túrbínu á Nesjavöllum eða við Kröflu. Þá höfum við landsmenn nóg fyrir okkar vaxandi þarfir upp á nokkur megavött á ári eða svo.

En það er ekki það sem er að setja orkureikning landsmanna á hvolf. Það er alveg hið gagnstæða. Það er þessi undarlega árátta að vilja ráðstafa bestu virkjanakostum í landinu, stærstu og aflmestu virkjanakostunum, og gleyma þá umhverfisáhrifunum í bili, ráðstafa þeim til útlendinga á útsöluverði. Hvernig sem á þetta er litið, herra forseti, hvort sem við lítum til hinnar umhverfislegu hliðar --- ég held að þar hafi meira en nægjanlegur málflutningur farið fram til þess að þjóðin sé nokkuð með það á hreinu að þarna á að fara að færa skelfilegar fórnir. Það getur enginn maður borið á móti því og ég held að það reyni enginn hér, ekki einu sinni hv. þm. Einar Már Sigurðarson og kann þó að vera að hann telji þetta lítils virði sem þarna á að fara undir vatn. Þá er best að hann svari fyrir það. Mér dettur hann fyrstur manna í hug, næstur á eftir hæstv. umhvrh. sem eins og kunnugt er er djörf á það að láta í ljósi álit sitt á náttúrunni og ýmsum fyrirbærum þar og þykir ekki alltaf mikið til koma, samanber Eyjabakka forðum, eða mynd Ómars Ragnarssonar sem snart ekki mikið hjörtu þeirrar manneskju, eða hjarta er það víst í eintölu, og alveg nóg, sennilega meira en nóg að hafa það í eintölu.

Nei, herra forseti, umhverfisáhrifin eru til staðar og þeim getur enginn maður mótmælt. Það sem menn geta haldið fram og fært fyrir rök er að hinn efnahagslegi ávinningur sé svo gríðarlegur að það réttlæti þessi umhverfisspjöll. Það er væntanlega það sem menn byggja þá afstöðu sína á ef þeir eru stuðningsmenn þessara mála. Þá fallast þeir á það að það megi leggja þennan hagræna mælikvarða á náttúruverðmætin. Ég er ósammála því. Mér væri alveg nákvæmlega sama hvað erlendir auðkýfingar byðu í Flateyjarbók, ég mundi aldrei fallast á að hún yrði seld, aldrei, ekki af því að ég gæti ekki skilið að þjóðin gæti blómstrað á öllum þeim auðæfum sem hugsanlega kæmu þannig inn í landið, eða að það gæti komið sér vel. Það er ekki vandinn. Vandinn er sá að við höfum ekki siðferðilegan rétt til að taka slíka ákvörðun. Við getum það ekki. Það er ekki í okkar valdi. Það er utan marka þess sem við höfum siðferðilega leyfi til að gera sem ein einasta kynslóð í landinu, og ég vona að það séu margir sammála mér. Það væri alveg sama hvaða verð útlendingar kæmu og byðu í Flateyjarbók. Hún yrði ekki látin úr landinu. Hún má reyndar ekki fara úr landinu. Það eru lög um það.

Er það ekki alveg eins með náttúruna sjálfa? Eru ekki gersemar í náttúrunni sem eru alveg sambærilegar í raun við Flateyjarbók? Er sammannlegur arfur, ekki bara þessarar þjóðar í raun og veru heldur mannkynsins --- þó að við séum ekki mjög stórir, Íslendingar, förum við í vissum tilvikum með hlutverk sem hefur alheimsgildi. Það snýr að hlutum sem engir aðrir geta passað upp á, íslenskri tungu og menningu, Flateyjarbók, konungsbók Eddukvæða og landinu. Við erum gæslumenn þessa lands, ekki bara fyrir hönd okkar sjálfra, heldur einnig komandi kynslóða í landinu og fyrir allt mannkynið. Þess vegna er það, herra forseti, algerlega fráleitt, það er lagalega afbökun og það er siðferðilega út úr kortinu að einfaldur meiri hluti á Alþingi knýi svona ákvörðun í gegn, mögulega í trássi við vilja meiri hluta þjóðarinnar þegar í hlut á ákvörðun af þessari stærðargráðu sem er óafturkræf. Þjóðin vill sjálf axla þessa ábyrgð. Það vill svo til, herra forseti, að í höndum okkar er glæný, tiltölulega vönduð skoðanakönnun þar sem þetta var nákvæmlega borið undir þjóðina. Hver á að taka ákvörðunina í þessu stóra og afdrifaríka máli ef í yrði ráðist? Jú, það er spurt um það í vandaðri könnun sem fyrirtækið Gallup lagði fyrir 1.250 manns dagana 22. janúar til 4. febrúar. Fjöldi svarenda var um 800 þannig að svarhlutfallið var 67% sem er ágætt. Niðurstaðan var algerlega afdráttarlaus. Bornar voru upp tvær spurningar, annars vegar hver væru viðhorf fólks til þjóðaratkvæðagreiðslna almennt um mikilvægustu mál þjóðarinnar, og rétt tæp 80% eru þeirrar skoðunar að þau eigi að ráðast í þjóðaratkvæðagreiðslum. Þetta skiptir máli vegna þess að stundum er sagt við okkur að þjóðaratkvæðagreiðslur séu í rauninni bara einhver afbökun á því fyrirkomulagi sem við höfum valið okkur, notuð sú röksemdafærsla að af því að við kjósum okkur þingmenn á fjögurra ára fresti sé verið að taka eitthvert hlutverk af þeim ef þjóðin fær að segja sína skoðun. Þetta er auðvitað fráleitur málflutningur. Það er aldrei hægt að nota slík rök gegn beinu lýðræði. Það er ævinlega rétthærra heldur en eitthvert fulltrúalýðræði af þessu tagi, að sjálfsögðu með fullri virðingu fyrir því. Þjóðin er þeirrar skoðunar að mikilvægustu mál eigi að leggja í hennar dóm, eðlilega, og þegar spurt er um Kárahnjúkavirkjun kemur þessi afstaða sömuleiðis fram. Tæp 65% þjóðarinnar eru þeirrar skoðunar að þjóðin sjálf ætti að taka ákvörðunina. Það ætti að bera þetta undir þjóðaratkvæði.

Nú eru hér í salnum, voru a.m.k. áðan, ýmsir menn sem taka mikið mark á skoðanakönnunum. Það er jafnvel sagt að sumir láti það meira og minna ráða lífi sínu, a.m.k. hinu pólitíska lífi. Hvar eru þeir menn nú? Hvar er Samfylkingin nú sem hefur heilmikið álit á skoðanakönnunum, a.m.k. þessa dagana? Tekur hún ekkert mark á því að afgerandi meiri hluti þjóðarinnar vill fá að segja álit sitt í þessu máli? Það er eins og mig minni, herra forseti, að Samfylkingin, sem er einn af Kárahnjúkaflokkunum, hafi talað mikið um beint lýðræði og jafnvel þjóðaratkvæðagreiðslu. Nú gefst Samfylkingunni kjörið tækifæri til að sýna viljann í verki. Ég vænti auðvitað ótvíræðs stuðnings við þessa tillögu sem er einföld og skýr og getur ekki skýrari verið, að samhliða þingkosningunum laugardaginn 10. maí nk. fái menn í hendur annan atkvæðaseðil þar sem þeir einfaldlega merkja já eða nei við spurningunni um það hvort eigi að byggja Kárahnjúkavirkjun og tilheyrandi álver í Reyðarfirði.

Eins og ég fór yfir hér áðan, herra forseti, eru aðstæðurnar þannig að það er óvenjulega handhægt að koma þessari kosningu við. Hún hefur engin teljandi áhrif á það framkvæmdaferli sem fyrirhugað er, mundi tefja upphaf einhverra framkvæmda e.t.v. um fáeinar vikur en vonandi auðvitað koma í veg fyrir þær um aldur og ævi. Ég er þeirrar trúar að þjóðin mundi hafna þessu verkefni. Ég held að andstaðan við það vaxi dag frá degi núna. Eftir því sem upplýsingarnar hellast yfir þjóðina og síast út á meðal manna hryllir fleiri og fleiri við þessu fyrirbæri.

Ég held að atburðir eins og sýning myndar Ómars Ragnarssonar --- eigi hann heiður skilið fyrir sitt framtak --- og viðtalsþáttur við Guðmund Pál Ólafsson náttúrufræðing og eins og þær miklu upplýsingar sem núna hellast inn á borð okkar um hin geysilega neikvæðu þjóðhagslegu áhrif af þessum framkvæmdum, ef farið verður í þær, séu á góðri leið með að sveifla almenningsálitinu þannig gegn þessari framkvæmd að það yrði miklu meira en nóg. Og er þá allur málflutningurinn eftir, herra forseti, sem fram mundi fara í tengslum við eða í aðdraganda kosningarinnar. Þá gæfist auðvitað tækifæri til að rökræða þetta mál, upplýsa um það og hafa það til umfjöllunar á tugum og hundruðum framboðsfunda um allt land. Fólk gæti þar af leiðandi aflað sér frekari upplýsinga, spurt menn út úr, rökrætt málið og myndað sér heilsteypta skoðun á því. Treystum við ekki þjóðinni? Ekki getur það verið vandinn að nokkrum manni í þessum sál, þingræðissinna, detti í hug að þjóðin sé ekki fullfær um að meta þetta mál sjálf og kjósa um það samhliða því að hún kýs sér þingmenn. Stundum heyrist að vísu einstaka hjáróma rödd um að sum mál séu svo flókin að þau henti ekki í þjóðaratkvæði. Það er einhver allra ömurlegasti málflutningur sem ég heyri. Menn geta alveg eins haft ónefnd orð um gáfnafar þjóðarinnar, og það ætla ég a.m.k. ekki að gera. Það er ekkert í þessu máli sem er þannig vaxið að það sé ekki auðvelt að upplýsa um það og kynna það. Við höfum mikil gögn. Við höfum matsskýrsluna. Við höfðum úrskurð Skipulagsstofnunar. Þjóðin mun hafa það á hreinu að Skipulagsstofnun felldi málið, gaf því falleinkunn, taldi það ótækt vegna hinna miklu óafturkræfu, neikvæðu umhverfisáhrifa. Það mun þá líka rifjast upp fyrir þjóðinni hafi einhverjir gleymt því að ástæðan fyrir því að haldið var áfram var pólitískt handafl umhvrh. Og ef við gefum okkur það andartaksstund, herra forseti, að umhvrh. hafi verið alveg ein í ráðum, að ein einasta manneskja, hæstv. umhvrh. Siv Friðleifsdóttir, eigi að bera þá ofurbyrði á sínum herðum inn á spjöld stjórnmálasögunnar að hafa tekið þessa ákvörðun, líður einhverjum vel með það? Ekki mundi mér gera það ef ég væri í hennar sporum, þessa hæstv. ráðherra. Það á ekki að standa svona að málum þegar jafnafdrifaríkir hlutir eru á ferðinni. Það er algert lágmark að þetta mál fái að fara til þjóðarinnar.

Það er ein mjög góð röksemd eftir, herra forseti, og hún er sú að við þurfum að lifa með niðurstöðunni. Þetta mál er búið að rífa þjóðina í sundur. Það hefur haft djúp tilfinningaleg áhrif á mikinn földa fólks. Það get ég borið um, sennilega einna best allra núlifandi Íslendinga því að margir hafa haft samband við mig, átt við mig símtöl og sent mér bréf á undanförnum mánuðum út af þessu máli. Ég ætla ekki fara að gerast væminn og rekja það í einstökum atriðum, enda reyni ég að halda aftur af mér með að vitna í tveggja manna samskipti, en það get ég sagt ykkur að marga rólegheitamenn hef ég átt samtöl við á undanförnum vikum sem hefur verið mikið niðri fyrir í þessum málum, hafa sýnt af sér meiri tilfinningar en ég hef nokkurn tíma áður upplifað í samskiptum við kannski sömu menn. Það að fá upphringingar frá fólki með grátstafinn í kverkunum kvöld eftir kvöld eða þegar einhverjir atburðir hafa orðið eins og myndasýningar eða stórir fundir, fá löng persónuleg bréf frá lífsreyndu, þroskuðu fólki sem lýsir fyrir manni andvökunóttum sínum, það kemur við mann, herra forseti. Það kemur við mann.

[14:00](framhald á ræðu í vinnslu)