Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 22. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 22  —  22. mál.
Tillaga til þingsályktunarum umbætur í velferðarmálum og þróun velferðarsamfélagsins.

Flm.: Ögmundur Jónasson, Árni Steinar Jóhannsson, Jón Bjarnason,
Kolbrún Halldórsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Þuríður Backman.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera rammaáætlun um markvissar umbætur í velferðarmálum og framtíðarþróun velferðarsamfélags á Íslandi. Áætlunin taki til helstu þátta velferðarþjónustunnar og meðal annars eftirfarandi atriða:

Almannatryggingar og félagsmál.
    Gerð verði heildarendurskoðun á almannatryggingalögum með það að meginmarkmiði að:
     a.      tryggja öllum sem þurfa að reiða sig á almannatryggingar laun, samfélagslaun, sem duga til framfærslu og binda í lög að slík laun fylgi fortakslaust almennri launaþróun,
     b.      tryggja öryrkjum sjálfstæðan, einstaklingsbundinn rétt til framfærslu án tillits til hjúskaparstöðu,
     c.      auka hlutdeild almannatrygginga í tannlæknaþjónustu og efla forvarnastarf,
     d.      hraða endurskoðun á samspili almannatrygginga, lífeyrisréttinda og skattkerfis, endurskoða alla viðmiðun tekjutenginga og sameina meðferð almannatrygginga, atvinnuleysisbóta og lífeyrismála í einu ráðuneyti í Stjórnarráði Íslands,
    Jafnframt verði unnið að:
     a.      hækkun atvinnuleysisbóta og auknum stuðningi til endurmenntunar og starfsendurhæfingar.
     b.      hækkun barnabóta og réttindi foreldra og aðstandenda langveikra barna tryggð,
     c.      verulegu átaki til að auka framboð félagslegs leiguhúsnæðis,
     d.      auknum stuðningi við tekjulága einstaklinga og fjölskyldur vegna húsnæðiskostnaðar og sá stuðningur samræmdur,
     e.      áætlun um að auðvelda sveigjanleg starfslok,
     f.      aðgerðum til að útrýma kynbundnum launamun sem verði sérstakt forgangsverkefni næstu árin,
     g.      styttingu vinnuvikunnar og hækkun dagvinnulauna, til að rjúfa vítahring lágs tímakaups og langrar vinnuviku, sem verði meginmarkmið í samskiptum stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins,
     h.      setningu laga sem varna því að fólki sé mismunað á vinnumarkaði vegna aldurs,
     i.      heildarlöggjöf um málefni innflytjenda.

Heilbrigðismál.
    Heilbrigðisþjónustan verði efld og aðgangur allra landsmanna að henni tryggður án tillits til tekna, búsetu, aldurs, kynferðis eða annarra þátta. Meðal brýnna verkefna eru:
     a.      afnám sjúklingaskatta og komugjalda á heilsugæslustöðvar,
     b.      endurskoðun lyfjakostnaðar,
     c.      réttarbætur fyrir langveik börn,
     d.      að auka rými á sjúkrastofnunum og afnema sumarlokanir þannig að fullnægjandi þjónusta sé í boði árið um kring,
     e.      að endurskoða reglur um þátttöku hins opinbera í greiðslu ferðakostnaðar sjúklinga sem lið í að tryggja jafnrétti í heilbrigðismálum,
     f.      umbætur í geðheilbrigðismálum, m.a. með stuðningi við fjölskyldur geðsjúkra,
     g.      aukið forvarnastarf á öllum sviðum heilbrigðisþjónustunnar.

Menningarmál, uppeldis- og menntamál.
    Opinber stuðningur við menningarmál, uppeldis- og menntamál verði endurskoðaður og tryggt að menntun og menningarstarfsemi verði aldrei séreign fáeinna einstaklinga eða hópa. Þannig er m.a. mikilvægt að:
     a.      fjárhagslegar aðstæður sveitarfélaga til rekstrar leikskóla og grunnskóla verði endurskoðaðar og bættar,
     b.      tryggt verði að opinbert fé til skólastarfs á öllum skólastigum skerðist ekki vegna stuðnings við einkaskóla og ákvæði sett í lög sem tryggja að einkaskólum verði ekki hyglað umfram opinbert skólastarf,
     c.      fjölgað verði tækifærum til framhaldsnáms og námsfólki á landsbyggðinni boðið samfellt nám í heimabyggð sinni til 18 ára aldurs,
     d.      fjölgað verði námsleiðum á framhaldsskólastigi og komið á fót stuttum starfsmenntabrautum,
     e.      átak verði gert til að jafna aðstöðu til náms og hagnýta möguleika fjarkennslu til að bæta aðstöðu landsbyggðarfólks,
     f.      tryggt verði að þeir sem eiga í félagslegum erfiðleikum eða námserfiðleikum njóti ráðgjafar og stuðnings til að geta nýtt sér þær námsleiðir sem í boði eru,
     g.      viðmiðunarmörk Lánasjóðs íslenskra námsmanna um framfærslu og frítekjumark hækki til samræmis við framfærsluþörf,
     h.      gert verði sérstakt átak í fræðslumálum fatlaðra á framhaldsskólastigi, jafnrétti þeirra til náms tryggt og fullorðinsfræðsla og starfsþjálfun fatlaðra efld,
     i.      sérstakt átak verði gert til að efla og styrkja mikilvægustu menningarstofnanir þjóðarinnar, svo sem Ríkisútvarpið, atvinnuleikhús, sinfóníuhljómsveitir o.fl.,
     j.      skipulagður stuðningur verði veittur til sjálfsprottinnar menningarstarfsemi víðs vegar um land og starf áhugahópa á sviði menningar og lista stutt þannig að slíkir hópar og einstaklingar eigi þess kost að starfa á sínum heimaslóðum á eigin forsendum.

Mannvænt samfélag umhyggju og samhjálpar.
    Markvisst verði brugðist við ýmsum knýjandi verkefnum sem við blasa í samfélaginu. Meðal forgangsverkefna á þessu sviði er að:
     a.      tryggja að móttaka innflytjenda til Íslands lúti samræmdum reglum og að nýir íbúar verði búnir undir fullgilda þátttöku í samfélaginu af kostgæfni og alúð,
     b.      gera stórátak í aðgengismálum hreyfihamlaðra sem og að tryggja mannréttindi fatlaðra á öllum sviðum samfélagsins með hliðsjón af viðmiðunarreglum Sameinuðu þjóðanna,
     c.      takast á við þau verkefni sem breyting á sjálfræðisaldri hafði í för með sér,
     d.      efla forvarnir gegn notkun fíkniefna,
     e.      veita fjármagn til að taka á vanda ungmenna sem af einhverjum ástæðum eiga þess ekki kost að stunda almennt skólanám, hvort sem er á grunnskóla- eða framhaldsskólastigi,
     f.      auka fjármagn og fjölga valkostum til meðferðar og stuðnings við ungmenni sem eiga við alvarlegan félagslegan og/eða tilfinningalegan vanda að stríða,
     g.      koma á fjölskylduvænu skattkerfi,
     h.      stuðla að sveigjanlegum vinnutíma.

Fjármögnun velferðarkerfisins.
    Skattkerfið verði tekið til heildstæðrar skoðunar með það að markmiði að tryggja réttláta skattbyrði, tekjujöfnun og fjölskylduvænt fyrirkomulag skattheimtu. Gerð verði langtímaáætlun um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og skattstofnar sveitarfélaga endurskoðaðir með það í huga að tekjur sveitarfélaga dugi til þeirra verkefna sem þeim er ætlað að sinna. Brýnustu verkefni á þessu sviði eru að:
     a.      tekjustofnar sveitarfélaga verði styrktir,
     b.      skattþrepum í tekjuskatti einstaklinga verði fjölgað,
     c.      skattleysismörk fylgi launaþróun,
     d.      skattur á fjármagnstekjur og arðgreiðslur verði endurskoðaður.

Greinargerð.


Inngangur og rökstuðningur.
    Hér er endurflutt þingsályktunartillaga sem þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa að stofni til flutt á þremur undangengnum þingum en hún hefur aldrei orðið útrædd. Í þessari nýju tillögu hafa ýmsir útreikningar sem fram koma í greinargerð verið reiknaðir aftur auk þess sem nokkrar breytingar koma fram í texta.
    Meðal helstu nýmæla sem stefnumótun Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs á sviði velferðarmála felur í sér má nefna:
     1.      Horfið verði frá „bóta- og ölmusuhugsunarhætti“ sem enn gætir allt of mikið í almannatryggingakerfinu og þess í stað tekið upp hugtakið „samfélagslaun“.
     2.      Sjálfstæður réttur hvers einstaklings til mannsæmandi afkomu verði styrktur og sérstaklega skilgreindur. Af þessu leiðir að horfið verði með öllu frá niðurlægjandi viðmiðun við tekjur maka hjá öryrkjum og aldrei gengið svo langt í slíkum tekjutengingum eða viðmiðunum að hver og einn njóti ekki fullrar sjálfsvirðingar sem einstaklingur og búi við fullnægjandi afkomuöryggi.
     3.      Endurskoðun og samræming lífeyrisréttinda, almannatrygginga og skattkerfis verði forgangsmál og málaflokkur lífeyrisréttinda, almannatrygginga og atvinnuleysisbóta verði sameinaður í einu ráðuneyti.
     4.      Sett verði lög sem banna mismunun fólks á vinnumarkaði á grundvelli aldurs.
     5.      Sett verði heildarlöggjöf um málefni innflytjenda.
     6.      Hafið verði á nýjan leik átak í byggingu félagslegra leiguíbúða og stuðningur við lágtekjufólk vegna húsnæðiskostnaðar samræmdur og aukinn.
     7.      Komugjöld og sjúklingaskattar verði afnumin.
     8.      Hugtakið „jafnrétti til þjónustu“ verði grundvallarregla heilbrigðiskerfisins.
     9.      Sett verði ákvæði í lög sem tryggja að einkaskólum verði ekki hyglað á kostnað opinbers skólastarfs.
     10.      Öllum verði tryggður réttur og möguleiki á samfelldu námi til 18 ára aldurs í heimabyggð.
     11.      Gert verði stórátak í aðgengismálum hreyfihamlaðra og réttindamálum fatlaðra með hliðsjón af viðmiðunarreglum Sameinuðu þjóðanna.
     12.      Hafin verði barátta fyrir styttingu vinnuvikunnar.
     13.      Sérstakt forgangsverkefni á næstu árum verði að útrýma kynbundnum launamun.
     14.      Skattþrepum í tekjuskatti verði fjölgað.
    Með þessari þingsályktunartillögu leggur þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs til aðgerðir í nokkrum þeirra mála sem hvað brýnast er að takast á við í íslensku samfélagi um þessar mundir. Það ber þó að ítreka að hér verður ekki látið staðar numið, þingflokkurinn mun halda áfram að vinna að tillögum um úrbætur og endurreisn velferðarkerfisins til hagsbóta fyrir alla Íslendinga og leggja línur fyrir framtíðarþróun velferðarsamfélags á Íslandi.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lagt áherslu á mikilvægi þess að líta heildstætt á velferðarþjónustuna og vill ráðast í lagabreytingar með skýra og markvissa framtíðarsýn. Sama gildir um atvinnu- og umhverfismál, en samhliða þessari tillögu flytur þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þingsályktunartillögu um sjálfbæra atvinnustefnu. Þessir málaflokkar voru umfjöllunarefni á stjórnmálafundum sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð efndi til um land allt undir yfirskriftinni: Græn framtíð – atvinna, velferð, umhverfi. Tillögurnar eru því sprottnar úr starfi á vegum flokksins og umræðum á almennum fundum í öllum kjördæmum landsins. Afrakstur starfsins sést í þessum tillögum, en því er ekki lokið þar með heldur verður unnið áfram að viðfangsefninu.

Uppbyggileg framtíðarstefna.
    Kannanir benda til þess að félagslegrar mismununar sé farið að gæta innan velferðarþjónustunnar hér á landi. Við þetta eiga Íslendingar ekki að sætta sig. Með þessari þingsályktunartillögu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er lagt til að hafin verði gagnsókn til að styrkja og bæta velferðarkerfið. Það mun gagnast öllu samfélaginu, gera það kröftugra og betur í stakk búið að takast á við verkefni í nútíð og framtíð. Mikilvægt er að horft sé til langs tíma og mörkuð uppbyggileg stefna til að skapa velferðarsamfélagi framtíðarinnar traustan grunn. Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á að í allri stefnumótun verði kvenfrelsissjónarmið lögð til grundvallar og allar ákvarðanir stjórnvalda metnar með tilliti til þess hvaða áhrif þær hafa á stöðu kvenna.

Aukin misskipting.
    Íslenska velferðarkerfið varð aldrei jafnþróað og velferðarkerfi annarra Norðurlandaþjóða. Þegar skoðað er umfang opinbera geirans í Danmörku, Finnlandi, á Íslandi, í Noregi og Svíþjóð árin 1980 og 1996 kemur í ljós að auk þess sem Íslendingar vörðu minni hluta vergrar landsframleiðslu til velferðarsamfélagsins en hinar þjóðirnar árið 1980, varð þróunin allt önnur á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndunum á næstu 16 árum. Þetta kemur greinilega fram í eftirfarandi töflu:

Heildarútgjöld til velferðarmála sem hlutfall af vergri landsframleiðslu.


1980 1996
Danmörk
56,2 61,5
Finnland
38,1 57,4
Ísland
32,5 38,4
Noregur
43,3 45,5
Svíþjóð
    
60,1 64,7
Heimild: Íslenska leiðin, Stefán Ólafsson, Tryggingastofnun ríkisins, Háskólaútgáfan 1999.

    Á þeim 16 árum sem tafla þessi tekur til varð afturför í velferðarmálum mest á undangengnum áratug en þá kom til sögunnar hærri gjaldtaka innan heilbrigðis- og skólakerfis. Á sama tíma var dregið úr stuðningi við barnafólk með stórfelldum niðurskurði á barnabótum. Barnabætur voru 1,21% af vergri landsframleiðslu (VLF) í byrjun tíunda áratugarins, en eru nú aðeins 0,60%. Auk þessa voru skattbyrðar auknar hjá láglauna- og millitekjuhópum. Frá 1988 til 1999 hefur staðgreiðsluhlutfall skatta hækkað um 9%. Hækkunin var mest fyrstu ár staðgreiðslunnar, en síðan hækkaði staðgreiðsluhlutfallið þrisvar sinnum: 1993 til að fjármagna lækkun aðstöðugjalds, 1994 til að fjármagna hluta af lækkun virðisaukaskatts á matvæli og í ársbyrjun 1997 vegna yfirtöku sveitarfélaga á rekstri grunnskólans. Árið 1997 var síðan ákveðið að lækka skatthlutfallið um 4% í áföngum. Í meðfylgjandi töflu, sem að stofni til er fengin úr skýrslu ASÍ og BSRB, Skattkerfið frá sjónarhóli launafólks, má sjá breytingu á tekjuskattshlutfalli, útsvari og persónuafslætti á árabilinu 1988–2001.

Ár Tekjuskatt s-hlutfall Útsvar Staðgreiðslu- hlutfall1 Hátekju- skattur2 Persónu- afsláttur Skattleysis- mörk, kr. Skattleysismörk launamanns, kr.
1988 28,5 6,7 35,2 15.552 44.182 44.182
1989 30,8 6,94 37,74 18.631 49.367 49.367
1990 32,8 6,99 39,79 21.482 53.988 53.988
1991 32,8 6,99 39,79 23.377 58.750 58.751
1992 32,8 7,05 39,85 23.968 60.144 60.144
1993 34,3 7,04 41,34 5 23.761 57.477 57.477
1994 33,15 8,69 41,84 5 23.930 57.193 57.193
1995 33,15 8,78 41,93 5 24.495 58.419 59.310
1996 33,15 8,79 41,94 5 24.544 58.522 60.332
1997 30,41 11,57 41,98 5 24.544 58.466 60.902
1997 29,31 11,57 40,88 7 23.901 58.466 60.902
1998 27,41 11,61 39,02 7 23.360 59.867 62.361
1999 26,41 11,93 38,34 7 23.329 60.848 63.383
2000 26,41 11,96 38,37 7 23.912 62.320 64.916
2000 26,41 11,96 38,37 7 24.510 63.878 66.540
2001 26,08 12,68 38,76 7 25.245 65.132 67.845
2002 25,75 12,79 38,54 7 26.002 67.468 70.279
1 Tekjuskattur og útsvar. 2 Sérstakur tekjuskattur.
Heimild: Skattkerfið frá sjónarhóli launafólks. Úttekt. Lífeyris-, velferðar- og skattanefnd ASÍ,
skattanefnd BSRB, september 1999.

    Skattleysismörk hafa ekki þróast í samræmi við launaþróun og veldur tvennt: tekjuskattshlutfall hefur verið hækkað án þess að persónuafsláttur hækki nægilega til að viðhalda óbreyttum skattleysismörkum og persónuafsláttur hefur að auki lækkað, eins og fram kemur í töflunni.
    Þegar líða tók á tíunda áratuginn varð ljóst að aukin misskipting var farin að valda alvarlegri félagslegri mismunun. Í skýrslu sem landlæknisembættið gaf út í apríl 1997 undir heitinu Heilbrigðisþjónustan, árangur og skipulag í nútíð og framtíð, segir m.a.: „Gjalda ber varhug við frekari hækkun gjalda eða verulegum þjónustugjöldum, því að í óbirtri rannsókn landlæknisembættisins kemur í ljós að meðal barnafólks, sem hefur lægstar ráðstöfunartekjur á mánuði, er allstór hópur sem hefur frestað eða hætt við að leita læknismeðferðar og taka út lyf vegna fjárskorts.“ Í skýrslunni kemur fram að það er einkum á sviði tannlækninga sem fólk veigrar sér við að leita lækninga. „ Hér hefur orðið grundvallarbreyting á, því að fyrri rannsóknir benda ekki til misræmis í aðgengi fólks eftir stéttum og efnum.

Könnun á álögum á sjúklinga.
    Í árslok 2001 birti BSRB könnun sem unnin var í samráði við lækna um kostnaðarhlutdeild sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Tekin voru dæmi af sjö sjúklingum sem áttu við mismunandi veikindi að stríða og lagðir fram útreikningar á þróun kostnaðar þeirra á tímabilinu 1990–2001. Öllum þessum sjúklingum var fylgt í gegnum ráðlagða læknismeðferð í eitt ár og haldið til haga kostnaði þeirra yfir árið. Sama eða sambærileg meðferð var skoðuð á fimm ára fresti; 1990, 1996 og 2001. Niðurstaðan var mjög afgerandi. Í öllum tilvikum hafði kostnaður sjúklingsins stóraukist, í sumum hafði hann margfaldast. Samanburður af þessu tagi er alltaf erfiður og í sumum tilvikum kynni að vera um einhverja kostnaðaraukningu að ræða vegna aukinnar meðferðar. Það á t.d. við varðandi lungnaþembu. Þá er á það að líta að í sumum tilfellum er kostnaðarhlutdeild sjúklinga meiri en í þeim dæmum sem notuð voru í könnuninni, í öðrum tilfellum minni.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.  Sjúkdómur 1990 1996 2001 1990–1996 1996–2001 1990–2001
#1 lungnaþemba 8.504 36.927 70.902 334,23% 92,01% 733,75%
#1b nikótínmeðferð sleppt 8.505 36.928 46.380 334,20% 25,60% 445,34%
#2 fjölbreytt vandamál 10.665 37.320 34.886 249,93% -6,52% 227,11%
#3 kransæðasjúkdómur 13.560 24.719 34.475 82,30% 39,47% 154,25%
#4 barn m/eyrnabólgu 17.524 22.556 24.342 28,71% 7,92% 38,91%
#5 þunglyndi 19.626 54.527 53.388 177,83% -2,09% 172,02%
#6 ofnæmi 19.481 42.840 57.067 119,91% 33,21% 192,94%
#7 gigt 29.905 43.241 48.563 44,59% 12,31% 62,39%
Heimild: BSRB.

Góð samfélagsþjónusta gagnast öllu samfélaginu.
    Í könnun sem danska atvinnumálaráðuneytið lét gera meðal atvinnurekenda árið 1996 á því hvaða þættir skiptu mestu máli þegar þeir ákváðu staðsetningu fyrirtækja sinna kom fram að góð almannaþjónusta skipti höfuðmáli við valið. Yfir 90% sögðu að skólamál, heilbrigðismál og löggæsla skiptu meginmáli. Fast á hæla þessara þriggja þátta með yfir 80% komu leikskólarnir og stoðkerfi samfélagsins, þ.e. samgöngur, veitur, sími og póstur. Tæplega 80% lögðu áherslu á öldrunarþjónustu. Þessi könnun ber þess glögglega vott að forsvarsmenn í atvinnurekstri gera sér í vaxandi mæli grein fyrir mikilvægi þess að treysta innviði samfélagsins. Þarna fara því saman efnahagslegar forsendur uppbyggingar í atvinnulífi og kröfur um félagslegt réttlæti og samábyrgð þegnanna.
    Þessi sjónarmið koma sérstaklega til álita þegar hugað er að byggðastefnu því að traust samfélagsþjónusta er lykilatriði til að tryggja atvinnulíf og þar með byggð. (Bætum samfélagsþjónustuna, BSRB, 1999.)

Einkavæðing veikir samfélagsþjónustuna.
    Á undanförnum árum hafa nokkrar stofnanir í eigu ríkisins verið gerðar að hlutafélögum með það að markmiði að selja þær í hendur einkaaðilum. Innan velferðarþjónustunar er þessarar stefnu einnig farið að gæta bæði í skólakerfinu og heilbrigðisþjónustunni. Þegar hafa elliheimili verið boðin út á grundvelli svokallaðra einkaframkvæmda. Athygli vekur að í kynningu á einkaframkvæmdum leggur ríkisstjórnin áherslu á að „sem stærstur hluti tekna rekstraraðila sé fenginn með notendagjöldum …“ (skýrsla frá árinu 1998, Einkaframkvæmd). Hér er beinlínis verið að boða skólagjöld og sjúklingaskatta sem koma til með að valda mismunun í þjóðfélaginu í framtíðinni, ef svo fer fram sem horfir.
    Sú einkavæðingarstefna sem fylgt hefur verið undangenginn áratug hefur orðið til að veikja samfélagsþjónustuna og draga úr almannaþjónustu, einkum á landsbyggðinni þar sem þjónustan er talin hafa hlutfallslega mestan kostnað í för með sér. Þannig er nú verið að fækka starfsmönnum innan póst- og símaþjónustu á landsbyggðinni og hætt er við því að með frekari einkavæðingu innan almannaþjónustunnar muni starfsfólki enn fækka á þeim stöðum sem síst mega við frekari röskun. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur beitt sér fyrir því á Alþingi að allri einkavæðingu verði slegið á frest og breiðri sátt náð um markalínur milli opinbers rekstrar og einkarekstrar. Þeim mun brýnna er að huga að samspili skipulagsbreytinga í samfélaginu og byggðaþróunar að á undanförnum árum hefur orðið meiri byggðaröskun í landinu en verið hefur áratugum saman.

Byggðaröskun.
    Stórfelld röskun byggðar í landinu er mikið áhyggjuefni. Allar götur síðan 1979 hefur straumurinn legið frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins og síðastliðin tíu ár hafa brottfluttir af landsbyggðinni umfram aðflutta verið um 12.500. Þessi þróun hefur á margan hátt haft neikvæð félagsleg og menningarleg áhrif á allt þjóðfélagið, en nú fer einnig vaxandi skilningur á þjóðhagslegum kostnaði sem er samfara þessari röskun. Talið er að það kosti sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu a.m.k. 3–5 millj. kr. á hvern íbúa sem þangað flyst að byggja upp nauðsynlega aðstöðu og þjónustu, og er þá rekstrarkostnaður ekki meðtalinn. Á móti verður fjárfesting og uppbygging á landsbyggðinni vannýtt. Skólar, heilbrigðisstofnanir og aðrar þjónustustofnanir standa hálftómar og tekjur sveitarfélaganna minnka, auk félagslegra erfiðleika sem skapast. Er þá ónefndur mikill kostnaður fjölskyldna og einstaklinga sem oftar en ekki yfirgefa eignir sínar verðlitlar eða verðlausar og þurfa að kosta miklu til að útvega sér húsnæði og koma sér fyrir á nýjum stað.

Fjölbreytni er forsenda góðrar byggðastefnu.
    Við svo mikla byggðaröskun verður atvinnuþróun óhagstæðari og atvinnulíf einhæfara, einkum í fámennari byggðarlögum. Hafa ber í huga að búseta ræðst ekki lengur aðeins af atvinnu heimilisföður heldur þarf að taka tillit til þess að konur eru einnig virkir þátttakendur í atvinnulífinu. Þær mennta sig ekki síður en karlar og eiga bæði þær sjálfar og þjóðfélagið rétt til þess að sú menntun og starfskraftar nýtist. Orsakir byggðaröskunar felast einnig í margháttuðum aðstöðumun byggðarlaga hvað varðar samgöngur, verslun og vöruverð, orkukostnað, aðstöðu til menntunar, heilsugæslu og margvíslegrar félagslegrar þjónustu. Þá er ekki hægt að líta fram hjá því að fjölbreytni á sviði menningar og afþreyingar vegur þungt og skiptir fólk æ meira máli. Fjölbreytni, jöfn lífsskilyrði og öryggi eru því lykilorðin við markmiðssetningu í byggðamálum. Síðast en ekki síst snýst málið um að efla tiltrú fólks á búsetu til framtíðar í byggðum utan höfuðborgarsvæðisins. Um vilja þess hefur verið spurt í skoðanakönnun sem staðfestir að fjölmargir kysu búsetu á landsbyggðinni ef öryggi og allar aðstæður væru þar í góðu lagi. Því liggur beint við að álykta að róttækar aðgerðir til úrbóta gætu snúið við þeirri þróun sem verið hefur í flutningum fólks af landsbyggð til höfuðborgarsvæðis.
    Skal nú vikið að einstökum áhersluatriðum, þáttum sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð telur að hafa skuli forgang við endurreisn velferðarkerfisins í samræmi við þingsályktunartillöguna sem hér er flutt.

Almannatrygginga- og félagsmál.
    Almannatryggingalöggjöfin er mjög yfirgripsmikil heildarlöggjöf með fjölda réttinda- og heimildarákvæða. Undanfarin ár hafa verið gerðar ýmsar breytingar á einstökum liðum laganna án tillits til þess hver áhrif þær breytingar hafa á aðra þætti. Þetta hefur valdið því að kerfið er hvorki gagnsætt né skilvirkt, í mörgum tilvikum getur eitt rekist á annars horn og þeir sem þurfa á þjónustu kerfisins að halda þekkja iðulega ekki rétt sinn og hafa litla möguleika á að kynna sér hann. Almannatryggingakerfið er öryggiskerfi sem allir landsmenn njóta góðs af, en ljóst er að þegar fram líða stundir mun lífeyrissjóðakerfið að verulegu leyti leysa það af hólmi. Sú breyting mun hins vegar taka langan tíma og mikilvægt er að menn rasi ekki um ráð fram við tekjutengingu lífeyris.

Breyttar áherslur.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill gerbreyttar áherslur í almannatryggingakerfinu. Í stað þess að nota hugtökin „bætur“ og „bótaþegi“ um þá sem fá greiðslur úr almannatryggingum og atvinnuleysistryggingum ber að tala um „laun“ til að leggja áherslu á þann rétt sem einstaklingnum ber til tekna hvort sem um er að ræða atvinnutekjur eða samfélagslaun.
    Þá vill Vinstri hreyfingin – grænt framboð afnema skerðingu tekjutryggingar öryrkja vegna tekna maka og draga úr öðrum tekjutengingum innan almannatryggingakerfisins. Koma þarf í veg fyrir að kerfið festi í sessi ríkjandi hugmyndir um karlinn sem aðalfyrirvinnu og konu hans sem efnalega háða honum.

Stuðningur við atvinnulausa.
    Enda þótt atvinnuleysi hafi minnkað mjög á síðustu árum er það engu að síður enn alvarlegt vandamál þúsunda einstaklinga og fjölskyldna og í ágústmánuði síðastliðnum voru um 3.400 manns á atvinnuleysisskrá. Brýnt er að tryggja réttindi þessa fólks til endurmenntunar og sjá til þess að það fái stuðning til að finna starf við hæfi. Þá má aldrei gleymast að tryggja þarf atvinnulausu fólki tekjur til að sjá sér farborða, stunda menningarlíf og veita sér og börnum sínum þá lífsfyllingu sem aðrir þegnar þjóðfélagsins telja sjálfsagða.

Sveigjanleg starfslok.
    Ryðja þarf úr vegi hindrunum sem koma í veg fyrir að fólk geti hætt starfi, breytt starfshlutfalli eða á annan hátt endurskipulagt vinnu sína þegar það kemst á efri ár.

Heilbrigðismál.
    Vel starfhæft heilbrigðiskerfi sem reist er á þeirri meginforsendu að allir hafi þar sama rétt til þjónustu er einn af hornsteinum sterks velferðarkerfis. Þar til fyrir fáum árum uppfyllti íslenska heilbrigðiskerfið allvel þessar kröfur. Á undanförnum árum hefur hins vegar verið vegið að þessari þjónustu með niðurskurði og kerfisbreytingum sem hafa bæði bitnað á þeim sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda og starfsfólki heilbrigðiskerfisins. Jafnframt hafa verið innleiddir sjúklingaskattar í ýmsum myndum. Það hefur haft þær afleiðingar að tekjulægsta fólkið, sem þó þarf oft mest á heilbrigðisþjónustu að halda, getur ekki notað hana vegna útgjaldanna sem það hefur í för með sér.

Langtímaáætlun.
    Skipulag heilbrigðisþjónustunnar þarf að hugsa til langs tíma. Á því leikur ekki vafi að þegar til lengri tíma er litið mundi það spara mikla fjármuni ef forvarnastarf yrði eflt innan heilbrigðisþjónustunnar og öflug, almenn heilsugæsla tæki tímanlega á málum áður en þau komast á alvarlegt stig. Auk þess mætti grípa til margvíslegra aðgerða til að gera þjónustuna markvissari og hagkvæmari. Í því sambandi má nefna svokölluð sjúkrahótel sem er millistig milli sjúkrahúss og heimilis. Þegar í stað þarf hins vegar að ráðast í lagabreytingar til að tryggja jöfnuð innan kerfisins. Afnema þarf sjúklingaskatta og komugjöld á heilsugæslustöðvar og brýnt er að taka lyfjakostnað til gagngerrar endurskoðunar með það fyrir augum að draga úr óhóflegum kostnaði sem veldur því að efnalítið fólk hefur ekki ráð á því að kaupa nauðsynleg lyf.
    Meðal brýnna verkefna á sviði heilbrigðismála eru réttarbætur fyrir langveik börn og fjölskyldur þeirra. Þá leggur Vinstri hreyfingin – grænt framboð ríka áherslu á nauðsyn umbóta í geðheilbrigðismálum.

Menntun og menning.
    Menning þjóðarinnar birtist í hvers konar athöfnum hennar þar sem saman fara verk hugar og handa. Góð grunnmenntun er undirstaða þess að menning, vísindi og listir blómstri og það er skylda samfélagsins að sjá til þess að allir þegnar þess eigi jafnan aðgang að bestu grunnmenntun á hverjum tíma.

Leikskóli, grunnskóli, framhaldsskóli.
    Kostnaður við rekstur leikskóla og grunnskóla eru stærstu útgjaldaliðir sveitarfélaganna og jafnframt einn mikilvægasti málaflokkurinn sem þau sinna. Í ljós hefur komið að eins og margir óttuðust hafa breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga vegna reksturs grunnskóla haft í för með sér grundvallarbreytingar á því skólastigi. Mörg sveitarfélög ráða illa við hinn mikla kostnað sem skólarekstrinum fylgir og það hefur m.a. orðið til þess að skólar hafa verið lagðir niður eða sameinaðir. Mjög áríðandi er að tekjustofnar sveitarfélaga til skólarekstrarins verði endurskoðaðir og tryggt að öll sveitarfélög geti staðið undir góðu og metnaðarfullu skólastarfi, bæði í leikskóla og grunnskóla.
    Áhugi stjórnvalda á því að styðja einkaframkvæmdir og draga úr opinberum rekstri hefur meðal annars orðið til þess að hluti þess opinbera fjármagns sem ætlað er til skólastarfs grunnskóla og framhaldsskóla fer til að styrkja einkaskóla sem síðan afla viðbótarfjár með skólagjöldum og/eða styrkjum frá fyrirtækjum og stofnunum. Í Reykjavík þar sem reknir eru nokkrir einkaskólar á grunnskólastigi er einkaskólunum ætluð sama fjárhæð fyrir hvern nemanda og grunnskólar sveitarfélagsins fá. Vinstri hreyfingin – grænt framboð telur þessa þróun ógna mjög þeirri jafnréttishugsun sem mikilvægt er að höfð sé að leiðarljósi þegar grunnmenntun þjóðarinnar er annars vegar og leggur áherslu á að tryggt verði að opinber fjárframlög ríkis og sveitarfélaga til skólastarfs skerðist ekki vegna stuðnings við einkaskóla, hvort sem er á grunnskólastigi eða framhaldsskólastigi.

Samfellt grunnnám allra ungmenna.
    Engin stéttaskipting er hættulegri en menningarleg stéttaskipting. Það er því grundvallaratriði að ungmenni, hvar sem þau búa á landinu og hver sem efnahagsleg staða þeirra eða fjölskyldna þeirra er, eigi greiðan aðgang að skólanámi a.m.k. til 18 ára aldurs. Benda má á þá mismunun sem felst í miklum námskostnaði þeirra sem þurfa að sækja framhaldsnám út fyrir heimabyggð sína, en ekki er fjarri lagi að kostnaður við það sé 300–500 þús. kr. á ári. Á vegum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er einnig lögð fram þingsályktunartillaga um tólf ára samfellt grunnnám alls staðar á landinu svo að unglingar innan sjálfræðisaldurs geti stundað nám daglega frá heimili sínu.

Verknám.
    Þróun menntamála undanfarin ár hefur orðið til þess að stefna æ fleiri nemendum til bóknáms þegar komið er á framhaldsskólastig og jafnvel svo að ástæða er til að óttast um framtíð verkmenntunar í landinu. Sem dæmi má nefna að í Iðnskólanum í Reykjavík, stærsta iðnmenntaskóla landsins, hefur fjölgun nemenda í skólanum í heild fyrst og fremst orðið á bóknámsbrautum, svo sem í almennu námi, fornámi og á tölvufræðibraut, en á þeirri braut eru nemendur þrisvar sinnum fleiri nú en þeir voru í upphafi tíunda áratugarins. Nemendum hefur hins vegar fækkað mjög á nær öllum iðnnámsbrautum. Þetta eru alvarleg tíðindi þegar hugsað er til iðn- og verkmenntunar í landinu og mikilvægt að grípa í taumana og styrkja sérstaklega verknáms- og iðnnámsbrautir og gera slíkar námsbrautir fýsilegar fyrir góða námsmenn.
    Allt skólastarf á að miða að því að samfara góðri fræðslu í mismunandi námsgreinum verði lögð áhersla á að efla samfélags- og siðferðisvitund nemenda, frumkvæði þeirra og hugmyndaflug. Mikilvægt er einnig að nám sé metið til jafns við aðra vinnu og áhersla lögð á að nám sérhvers námsmanns sé mikilvægt fyrir þjóðina alla. Því ber að gera öllum kleift að stunda háskólanám, starfstengt nám og endurmenntun með stuðningi hagstæðra námslána sem einnig taka til efnis- og bókakaupa.

Listir og menning.
    Listsköpun og hvers kyns menningarstarfsemi skilar þjóðinni bæði menningarlegum og fjárhagslegum verðmætum. Þess vegna er mikilvægt að efla skilning á hlut lista og menningar í þjóðlífinu, í hugsun og handverki, smekk, tísku og lífsmáta. Vinstri hreyfingin – grænt framboð telur grundvallaratriði að helstu menningarstofnanir þjóðarinnar, svo sem Ríkisútvarpið, Þjóðarbókhlaða, atvinnuleikhús, sinfóníuhljómsveitir og listasöfn, eflist sem máttarstólpar menningarinnar í landinu og verði áfram burðarásar hver á sínu sviði og í eigu þjóðarinnar allrar. Jafnframt er nauðsynlegt að veita sjálfsprottinni menningarstarfsemi víðs vegar um land skipulegan stuðning þannig að starf áhugahópa á sviði menningar og lista geti dafnað og blómstrað, en slíkt styður ekki síst við farsæla byggðaþróun.

Mannvænt samfélag umhyggju og samhjálpar.
    Hnignun velferðarkerfisins á Íslandi hefur m.a. haft í för með sér að samfélagið hefur þróast meira og meira í átt til sérhyggju og hagsmunagæslu fyrir þá sem best standa fjárhagslega og félagslega. Jafnframt hefur verið horfið frá ýmsum gildum sem fram á síðustu ár hafa verið undirstaða velferðarkerfisins. Þannig kemur víða fram að umhyggja fyrir öðrum, samhjálp og samábyrgð þykja gamaldags og afturhaldssöm viðhorf. Vinstri hreyfingin – grænt framboð er því ósammála og leggur þess í stað áherslu á að tekið verði markvisst og skipulega á málum margra samfélagshópa sem ekki eiga þess alltaf kost að gæta eigin hagsmuna. Hér er aðeins getið örfárra mikilvægra verkefna sem við blasa.

Móttaka útlendinga sem setjast að á Íslandi.
    Á undanförnum árum hefur fjölgað útlendingum sem setjast að á Íslandi eða óska eftir að gera Ísland að heimalandi sínu. Þetta er fjölbreyttur hópur og ástæður þess að Ísland hefur valist sem dvalarstaður eru mismunandi. Sem dæmi má nefna að síðustu ár hafa nokkrir hópar erlendra flóttamanna komið hingað og sest hér að, íslenskt atvinnulíf hefur tímabundið sóst eftir erlendu vinnuafli og Íslendingar hafa gengið í hjónaband með erlendu fólki. Þá getur verið um að ræða fólk sem á fjölskyldu hér fyrir, erlenda foreldra eða erlend börn Íslendinga.
    Sumum útlendinganna sem hér hafa sest að hefur tekist vel að samlagast íslensku samfélagi, þeir hafa sett svip sinn á það, styrkt og auðgað á margvíslegan hátt. Því miður eru þeir þó miklu fleiri sem þurfa sérstakan stuðning þegar þeir setjast að í nýju landi með framandi tungu og menningu. Ef ekki verður brugðist við og tryggt að innflytjendum sem setjast að á Íslandi verði sérstaklega sinnt og séð til þess að þeir og börn þeirra fái viðunandi kennslu á öllum skólastigum og innan fullorðinsfræðslunnar og tryggt að almennar upplýsingar um íslenskt samfélag, t.d. um heilbrigðis- og tryggingakerfi, séu tiltækar og búið svo um hnúta að íslenskur vinnumarkaður sé þeim aðgengilegur, er hætt við að áður en langt um líður verði ýmis vandamál sem tengjast þessum hópi þjóðfélagsþegna á Íslandi orðin svo yfirgripsmikil og fjölþætt að vart verði við ráðið. Síðast en ekki síst þarf að sjá til þess að innflytjendurnir missi ekki tengsl við eigin menningu og fyrra samfélag.

Hækkun sjálfræðisaldurs.
    Þegar sjálfræðisaldur var hækkaður úr 16 árum í 18 bentu margir á að sú ákvörðun hefði í för með sér að endurskoða þyrfti og hugsanlega breyta fjölda lagaákvæða sem varða ungmenni á þessum aldri. Í skýrslu umboðsmanns barna fyrir 1996 er að finna ítarlega greinargerð um þau atriði sem umboðsmaðurinn telur að taka þurfi til endurskoðunar. Þó að svo kunni að hafa verið gert að einhverju marki er ástæða til að skipulega verði farið yfir alla löggjöf þar sem fjallað er um ungmenni á aldrinum 16–18 ára og gengið úr skugga um að réttur þessa hóps sé að öllu leyti tryggður.

Forvarnir og fíkniefni.
    Notkun fíkniefna er sívaxandi vandamál hér á landi og því miður virðist neysla fíkniefna færast æ neðar í aldurshópa. Brýnt er að taka í taumana, bæði með því að stórefla forvarnastarf og fjölga meðferðarúrræðum.
    Í bæklingi sem Fræðslumiðstöð í fíknivörnum hefur sent frá sér er aðgerðum í fíkniefnamálum skipt í þrennt. Þar er forvarnastarf nefnt fyrsta aðgerðastig í fíkniefnamálum. Forvarnir beinast fyrst og fremst að þeim sem ekki hafa neytt fíkniefna. Annað aðgerðastig er íhlutun sem hefur það að markmiði að draga sem mest úr hugsanlegum eða yfirvofandi vanda sem hlýst af neyslu fíkniefna. Þriðja stig er svo meðferð þar sem brugðist er við neyslu sem farin er að hafa afgerandi áhrif á neytanda eða stjórna lífi hans.
    Ef takast á að ná árangri í þessum málaflokki er ljóst að verja verður umtalsverðu fjármagni, tíma og vinnu í að sameina krafta þeirra sem þegar starfa á þessu sviði, tengja starf stjórnvalda, stofnana og félagasamtaka og leita nýrra leiða til ná betri árangri.
    Einnig er nauðsynlegt að auka fjármagn og fjölga valkostum til meðferðar og stuðnings við ungmenni sem eiga við alvarlegan félagslegan og/eða tilfinningalegan vanda að stríða, en slíkur vandi er oft afleiðing vímuefnaneyslu, annaðhvort unglingsins sjálfs eða nákomins ættingja hans.

Skattar.
    Mikilvægt er að tryggja ríki og sveitarfélögum trausta tekjustofna svo að þau rísi undir þeim verkefnum sem þeim er ætlað að sinna. Það er staðreynd að á sama tíma og verkefni hafa verið færð frá ríki til sveitarfélaga skortir á að nægilegt fjármagn hafi fylgt með. Þetta segir til sín m.a. í versnandi skuldastöðu sveitarfélaganna.
    Versnandi hagur sveitarfélaganna að þessu leyti er gagnstæður því sem gerist hjá ríkinu sem á undanförnum árum hefur greitt niður skuldir sínar.

Tekjuþróun hjá hinu opinbera.
    Miklu máli skiptir að skattlagning sé réttlát og að þeir beri skatta sem eru aflögufærir. Í eftirfarandi töflu má sjá hvernig tekjur hins opinbera hafa þróast á undanförnum árum hér á landi sem hlutfall af VLF. Upplýsingarnar eru fengnar frá Þjóðhagsstofnun.

Tekjur hins opinbera 1990–1998 sem hlutfall af vergri landsframleiðslu.
  1990 1991 1992 1993 1994 1995 1996 1997 1998 1999 2000
1. Tekjuskattar 9,92 10,12 10,43 11,09 11,00 11,67 12,23 13,13 13,79 15,37 15,74
    1100 Tekjuskattar einstaklinga 9,17 9,35 9,53 10,28 10,15 10,54 11,32 11,64 12,10 13,02 13,59
    1200 Tekjuskattar fyrirtækja 0,76 0,77 0,90 0,82 0,85 1,13 0,91 1,08 1,20 1,48 1,40
    1300 Fjármagnstekjuskattur 0,00 0,00 0,00 0,00 0,00 0,00 0,00 0,41 0,48 0,88 0,75
2. Tryggingagjöld 0,96 2,33 2,52 2,48 2,47 2,58 2,82 2,89 2,92 3,01 3,05
3. Launaskattar 0,99 0,09 0,00 -0,01 -0,01 0,00 0,00 0,00 0,00 0,00 0,00
4. Eignarskattar 2,80 3,09 3,00 3,02 3,01 3,17 3,02 3,10 2,98 2,97 3,31
5. Vöru- og þjónustuskattar 16,94 17,25 17,27 16,30 15,79 15,86 16,16 16,21 16,76 17,69 16,73
6. Aðrir skattar 1,46 1,40 1,54 0,27 0,17 0,15 0,21 0,19 0,17 0,21 0,19
Skatttekjur hins opinbera, samtals 33,06 34,29 34,76 33,16 32,43 33,43 34,43 35,51 36,61 39,26 39,02

    Eins og getið er hér að framan hafa álögur á einstaklinga, einkum láglauna- og millitekjuhópa, farið vaxandi þar sem skattleysismörk hafa ekki fylgt launaþróun auk þess sem dregið hefur úr stuðningi við barnafólk. Á sama tíma hafa skattbyrðar á fyrirtæki verið minnkaðar, aðstöðugjaldi verið aflétt og tekjuskattshlutfall fyrirtækja hefur farið lækkandi. Jafnframt voru skattar á arðgreiðslur lækkaðir úr tekjuskattshlutfalli niður í 10%, sem er sama hlutfall og skattur af fjármagnstekjum.

Þróun tekjuskatts hjá fyrirtækjum.
    Á meðfylgjandi töflu má sjá hvernig tekjuskattur fyrirtækja hefur þróast á árunum 1990–1998 til samanburðar við þróun tekjuskatts einstaklinga og skattleysismörk.

Skattur lagður á Vegna tekna ársins Hf., % Sf., % Einstak- lingur, % Þar af ríki, % Þar af útsvar, % Persónuafsláttur, kr. Skattleysismörk ellilíf eyrisþega, kr. Skattleysis- mörk launamanns kr. Hátekjuskattur,
%
Hátekjumörk á mánuði, kr.
1990 1989 50 50 37,74 30,8 6,94 18.631 49.367 49.367
1991 1990 45 45 39,79 32,8 6,99 21.482 53.988 53.988
1992 1991 45 45 39,79 32,8 6,99 23.377 58.751 58.751
1993 1992 39 41 39,85 32,8 7,05 23.968 60.144 60.144
1994 1993 33 41 41,34 34,3 7,04 23.761 57.477 57.477 5 203.340
1995 1994 33 41 41,84 33,15 8,69 23.930 57.193 57.193 5 207.840
1996 1995 33 41 41,00 33,15 8,78 24.494 58.419 59.310 5 233.820
1997 1996 33 41 41,94 33,15 8,79 24.544 58.522 60.332 5 233.820
1998 1997 33 41 41,98 30,41 11,57 24.544 58.466 60.902 5 233.820
1998 1997 33 41 40,00 29,31 11,57 23.901 58.466 60.902 5 233.820
1999 1998 30 38 39,02 27,41 11,61 23.360 59.867 62.361 7 266.500
2000 1999 30 38 38,00 26,41 11,93 23.329 60.848 63.386 7 273.063
2000 2000 30 38 38,37 26,00 11,96 23.912 62.320 64.916 7 273.063
2001 2000 30 38 38,37 26,00 11,00 24.510 63.878 66.540 7 273.063
2002 2001 30 38 38,76 26,08 12,00 25.245 65.132 67.845 7 273.063
2003 2002 18 26 38,54 25,75 12,79 26.002 67.468 70.279 7 322.083
Heimild: Embætti ríkisskattstjóra, að undanskildum útreikningi á skattleysismörkum.

    Stundum er því haldið fram að íslenskt atvinnulíf búi við þyngri álögur en atvinnurekstur annars staðar á Norðurlöndum eða innan OECD. Þetta er hins vegar ekki rétt. Hlutföll og uppbygging skattkerfisins hér á landi eru talsvert frábrugðin því sem þekkist annars staðar. T.d. er hlutfall tekjuskatta, bæði einstaklinga og fyrirtækja, lægra hér á landi og sama gildir um launa- og tryggingagjöld. Skattar á vöru og þjónustu eru hins vegar hærri hér á landi en í Evrópuríkjum OECD og annars staðar á Norðurlöndum.

1998 Ísland Norðurlönd Evrópuríki
OECD

ESB
Tekjuskattur einstaklinga
11,9 17,5 10,2 10,8
Tekjuskattur fyrirtækja
1,2 3,5 3,2 3,5
Launa- og tryggingagjöld
2,9 10,3 11,5 11,9
Skattar á vöru og þjónustu
16,2 14,5 12,4 12,3
Skatttekjur sem hlutfall af VLF
35,9 47,9 39,8 41,3
Heildartekjur sem hlutfall af VLF
38,1 52,9 44,5
Heildartekjur sem hlutfall af VLF, 2000
40,9 51,8 44,8
Heimildir: Revenue Statistics, OECD, 2000, Economic Outlook, OECD, júní 2001 og Þjóðhagsstofnun.

    Þessu til viðbótar má svo nefna að hlutfall fjármagnstekjuskatts hér á landi er mjög lágt miðað við ríki OECD.