Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 36. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 36  —  36. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991.

Flm.: Gísli S. Einarsson , Lúðvík Bergvinsson, Guðrún Ögmundsdóttir .1. gr.

    Við 130. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
    Látist maður sem dæmdur hefur verið til greiðslu málskostnaðar eða hafi hann verið úrskurðaður gjaldþrota eftir að dómur gengur í máli hans og eignir dánar- eða þrotabúsins duga ekki til greiðslu málskostnaðar skal málskostnaður eða það sem eftir stendur af honum greiðast úr ríkissjóði.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Eitt af grundvallaratriðum íslenskrar stjórnskipunar er að einstaklingar og lögaðilar geta leitað réttar síns með því að bera álitaefni undir dómstóla og fá niðurstöður. Eitt af því sem kemur í veg fyrir að einstaklingar leita réttar síns er sú staðreynd að jafnvel þótt dómur falli viðkomandi í hag getur hann þurft að greiða málskostnað vegna þess að sá sem er sóttur ýmist er eða lýsir sig gjaldþrota áður en til greiðslu málskostnaðar kemur og því fellur það á þann sem sækir rétt sinn að greiða kostnaðinn.
    Flutningsmenn telja nauðsynlegt að koma í veg fyrir að þessi staðreynd hindri fólk í að leita réttar síns og því er þetta frumvarp lagt fram. Samfélagið á að sjá til þess að óprúttnir aðilar geti ekki komist hjá því að standa skil á því sem þeim ber með því að lýsa sig gjaldþrota. Ríkissjóður verður að bera ábyrgð á slíkum mönnum. Því er lagt til að ríkissjóður ábyrgist greiðslur í tilvikum sem þessum og að sama regla eigi við þegar sá sem sóttur er fellur frá og eignir dánarbús hans duga ekki til greiðslu málskostnaðar.