Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 37. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 37  —  37. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, nr. 69/1995, með síðari breytingum.

Flm.: Gísli S. Einarsson, Guðrún Ögmundsdóttir, Jóhann Ársælsson.



1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Heimilt er að víkja frá skilyrði 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I ef gildar ástæður eru fyrir hendi að mati bótanefndar. Í þeim tilvikum þar sem bótanefnd hefur hafnað umsókn um greiðslu bóta á grundvelli 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I er henni heimilt að endurskoða ákvörðun sína berist um það ósk frá umsækjanda. Umsókn um bætur eða beiðni um endurskoðun ákvörðunar skal hafa borist bótanefnd innan árs frá gildistöku þessa ákvæðis.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með þeirri breytingu sem hér er lögð til er gert ráð fyrir að bótanefndin geti, ef gildar ástæður eru fyrir hendi, tekið til afgreiðslu umsóknir vegna tjóns sem átti sér stað fyrir gildistöku laganna, þrátt fyrir að frestur skv. 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða sé útrunninn.
    Við setningu laganna um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota var miðað við að umsóknir um bætur vegna tjóns sem leiddi af brotum sem framin voru fyrir 1. júlí 1996 þyrftu að berast bótanefnd innan árs frá gildistöku laganna.
    Þessi frestur var í stysta lagi og má til samanburðar nefna að almennur frestur laganna, sbr. 2. mgr. 6. gr., til að leggja fram umsókn er tvö ár frá því að brot var framið. Auk þess var með lögum nr. 118/1999 veitt heimild til að víkja frá skilyrðum 2. mgr. 6. gr. laganna ef veigamikil rök mæltu með því. Engin heimild er til að víkja frá settum fresti varðandi brot sem framin voru fyrir 1. júlí 1996.
    Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpinu sem varð að lögum nr. 118/1999 kemur fram að lögunum sé fyrst og fremst ætlað að styrkja réttarstöðu barna sem þolenda afbrota, og þá alveg sérstaklega þeirra barna sem þolað hafa kynferðislegt ofbeldi, en jafnframt sé gert ráð fyrir að önnur tilvik geti réttlætt frávik. Gert er ráð fyrir að sú undantekningarheimild sem hér er lögð til nái til sömu tilvika og 3. mgr. 6. gr. en jafnframt að heimild þessi verði rýmri í þeim skilningi að fleiri tilvik gætu fallið undir ákvæðið en unnt er að heimfæra undir 3. mgr. 6. gr.
    Gert er ráð fyrir að auk þeirra tilvika sem nefnd eru í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 118/1999 geti gildar ástæður í þessu samhengi t.d. verið að tjón hafi ekki verið komið í ljós að einhverju eða öllu leyti áður en frestur samkvæmt lögunum rann út og framlagning umsóknar af þeim sökum erfiðleikum bundin. Að öðru leyti er gert ráð fyrir að bótanefndin meti það út frá almennum sanngirnissjónarmiðum hvað teljist gildar ástæður í þessu sambandi.
    Til að taka af allan vafa er tekið fram að bótanefnd sé heimilt að endurskoða ákvarðanir sínar í þeim málum þar sem greiðslu bóta hefur verið hafnað á grundvelli 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða.
    Það heimildarákvæði sem hér er lagt til tekur aðeins til tjóns vegna brota sem framin voru fyrir gildistöku laganna þann 1. júlí 1996. Af þeim sökum og eins vegna þess að hér er um rýmra ákvæði að ræða en hið almenna ákvæði í 3. mgr. 6. gr. laganna er lagt til að umsókn um bætur eða beiðni um endurskoðun ákvörðunar samkvæmt ákvæðinu verði að hafa borist innan árs frá gildistöku ákvæðisins.