Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 59. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 59  —  59. mál.
Tillaga til þingsályktunarum skipulagða áfallahjálp í sveitarfélögum.

Flm.: Hjálmar Árnason, Magnús Stefánsson, Árni Steinar Jóhannsson,


Guðrún Ögmundsdóttir, Katrín Fjeldsted.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni í samstarfi við sveitarfélög að koma á skipulagðri áfallahjálp innan sveitarfélaga til að bregðast við þegar alvarleg og mannskæð slys ber að höndum.

Greinargerð.


    Þingsályktunartillaga þessi var lögð fram á 127. löggjafarþingi en varð ekki útrædd og er nú lögð fram nær óbreytt.
    Með tillögunni er mælst til þess að ríkisstjórnin beiti sér fyrir því í samstarfi við sveitarfélögin að koma á skipulagðri áfallahjálp innan sveitarfélaga og/eða í samstarfi við þau.
    Við alvarleg og mannskæð slys er höfuðáhersla lögð á fyrstu aðstoð, þ.e. björgunaraðgerðir og líkamlega aðhlynningu fórnarlamba. Björgunarsveitir, lögregla, sjúkraflutningamenn og fjöldi sjálfboðaliða hafa staðið sig með eindæmum vel við slíkar aðgerðir. Hins vegar virðist sem markviss áfallahjálp í kjölfarið sé yfirleitt ekki til staðar. Fórnarlömb slysa og náttúruhamfara eru skilin eftir óstudd og í óvissu eftir að fyrstu aðgerðum lýkur og fagleg aðstoð virðist af skornum skammti. Gildir það um andlega líðan og tilfinningar fórnarlamba, fjármál þeirra og aðstæður til að fóta sig í tilverunni að nýju. Þá virðist sem áfallahjálp til björgunarfólks, fjölskyldna fórnarlamba og vinnufélaga sé lítil sem engin. Mannskæð slys hafa djúp og varanleg áhrif á alla aðstandendur og jafnt innan fjölskyldna sem meðal vinnufélaga. Oft hafa válegir atburðir áhrif á heilt samfélag. Mikilvægt er að bregðast rétt við slíkri sorg, kerfisbundið og af fagmennsku.
    Í tillögunni er gert ráð fyrir því að í hverju sveitarfélagi eða í samstarfi nærliggjandi sveitarfélaga sé komið á markvissri stjórn áfallahjálpar. Slíkri stjórn væri ætlað að bregðast við þegar ósköp dynja yfir. Stjórnunarnefndin hefði frumkvæði að því að veita þeim sem hinir válegu atburðir snerta mest faglega hjálp, m.a. þeim sem lifa atburðina af og fjölskyldum þeirra, ættingjum þeirra sem kunna að hafa farist, vinnufélögum fórnarlamba og björgunarfólki.
    Mikilvægt er að slík stjórnunarnefnd sé skipuð formlega með aðal- og varamönnum þannig að þegar hörmungar dynja yfir komi nefndin strax saman, skilgreini aðstæður, bregðist markvisst við og af fagmennsku.
    Ekki er óeðlilegt að í hverri stjórnunarnefnd áfallahjálpar sveitarfélaga sitji fulltrúar heilsugæslu, prestar, lögreglumenn, björgunarsveitarfólk og fulltrúar peningastofnunar, tryggingafélags, skóla og atvinnulífs.
    Þá er eðlilegt að skipuð verði yfirstjórn áfallahjálpar fyrir landið allt til þess að veita staðbundnum stjórnum áfallahjálpar faglega ráðgjöf sem og til að fylgjast með skipan og fyrirkomulagi áfallahjálpar á hverjum stað. Gildi fræðslu fyrir einstaklinga í slíkum stjórnum, á vinnustöðum og heimilum er ómetanlegt.
    Áhrif mannskæðra slysa geta verið langvarandi og alvarleg fyrir einstaklinga jafnt sem samfélagið í heild. Segja má að aðstoð við að takast á við sorgina sé jafnmikilvæg og fyrstu björgunaraðgerðir. Því telja flutningsmenn það hafa mikið forvarnagildi fyrir samfélagið í heild að markvissum aðgerðum við sorgarviðbrögðum verði komið á þannig að unnið verði kunnáttusamlega að því að einstaklingar og hópar nái sem fyrst fyrri styrk sínum eftir að alvarleg og mannskæð slys ber að höndum.