Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 73. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 272  —  73. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Rannveigar Guðmundsdóttur um nauðasamninga samkvæmt lögum um tekjuskatt og eignarskatt.

     1.      Hve margir einstaklingar hafa leitað heimildar til samninga um greiðslu eignarskatts eða tekjuskatts skv. 3. mgr. 111. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, og hversu margir hafa leitað nauðasamninga við skuldheimtumenn skv. 4. mgr. sömu greinar frá 1. janúar 1998 til 1. október 2002, sundurliðað eftir árum?
    Á árinu 1998 leituðu fimm einstaklingar heimildar til samninga/skuldbreytinga á grundvelli 3. mgr. 111. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, á árinu 1999 voru það átta einstaklingar, á árinu 2000 þrír aðilar, á árinu 2001 sótti enginn um heimild til samninga/skuldbreytinga og á þessu ári hefur einn aðili sótt um.
    Á árinu 1998 leituðu þrír aðilar nauðasamninga á grundvelli 4. mgr. 111. gr. laganna, á árinu 1999 voru það sex aðilar, á árinu 2000 sex aðilar, á árinu 2001 einn aðili og á þessu ári hafa sjö aðilar leitað nauðasamninga á sama grundvelli.

     2.      Hversu margir slíkir samningar hafa verið gerðir frá 1. janúar 1998 til 1. október 2002, sundurliðað skv. 3. og 4. mgr. 111. gr. laganna?
    Á árinu 1998 var enginn samningur gerður á grundvelli 3. mgr. 111. gr. laganna, 1999 og 2000 samþykkti fjármálaráðherra tíu samninga/skuldbreytingar en alls voru gefin út níu skuldabréf vegna átta einstaklinga, á árinu 2001 var enginn samningur gerður og á þessu ári hefur einn samningur verið gerður á þessum grundvelli.
    Á árinu 1998 voru tveir nauðasamningar samþykktir á grundvelli 4. mgr. 111. gr. laganna, 1999 voru samþykktir þrír nauðasamningar, á árinu 2000 voru fimm nauðasamningar samþykktir af fjármálaráðherra en eingöngu tveir aðilar gengu frá nauðasamningum, 2001 var samþykktur einn nauðasamningur og á þessu ári hafa fjórir nauðasamningar verið samþykktir á þessum grundvelli.

     3.      Hve háar fjárhæðir hefur verið samið um á framangreindu tímabili? Svar óskast sundurliðað eftir umsóknum.
    Ekki liggja fyrir upplýsingar um hve háar fjárhæðir samið hefur verið um á framangreindum tímabilum sundurliðað eftir umsóknum. En upplýsingar um fjárhæðirnar sundurliðaðar eftir árum liggja fyrir, sbr. eftirfarandi.
    Á árinu 1998 var enginn samningur gerður á grundvelli 3. mgr. 111. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt. Á árunum 1999 og 2000 var heildarfjárhæð opinberra gjalda sem skuldbreytt var 20.639.665 kr. Bréfin voru öll verðtryggð og báru meðaltalsvexti eins og þeir voru ákvarðaðir af Seðlabanka Íslands. Á árinu 2001 var enginn samningur gerður og á árinu 2002 er fjárhæð opinberra gjalda sem skuldbreytt hefur verið 1.024.815 kr.
    Á árinu 1998 nam fjárhæð opinberra gjalda sem féllu undir nauðasamninga 2.069.553 kr. en alls voru greiddar 283.049 kr. upp í þessar skattkröfur, eða 13,7%. Á árinu 1999 nam fjárhæð opinberra gjalda 5.057.067 kr. en alls voru greiddar 1.414.486 kr. upp í þessar kröfur, eða 28,0%. Á árinu 2000 nam fjárhæð opinberra gjalda 7.217.742 kr. en alls voru greiddar 1.340.465 kr. upp í kröfurnar, eða 18,6%. Á árinu 2001 nam fjárhæð opinberra gjalda sem fellu undir nauðasamning 5.012.407 kr., boðin var 15% greiðsla. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvað var greitt upp í framangreinda skattkröfu. Á þessu ári hefur fjárhæð opinberra gjalda numið 33.900.347 kr. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvað hefur verið greitt upp í það.

     4.      Mun ráðherra beita sér fyrir breytingu á lögunum sem miðar að því að gera úrræðið skilvirkara fyrir fólk í fjárhagsörðugleikum?
    Ákvæði 3. og 4. mgr. 111. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt eru mjög skýr og eru mikilvæg úrræði fyrir gjaldendur í fjárhagserfiðleikum. Á grundvelli þeirra geta gjaldendur annars vegar fengið skuldbreytingu á opinberum gjöldum og hins vegar nauðasamning. Í ákvæðinu eru talin upp skilyrði sem gjaldandi þarf að uppfylla. Hann þarf að vera skuldlaus í virðisaukaskatti, staðgreiðslu opinberra gjalda, tryggingagjaldi og vörugjaldi. Jafnframt þarf hagsmunum ríkissjóðs að vera betur borgið með skuldbreytingu eða nauðasamningi. Tollstjóri gaf út leiðbeiningarrit fyrir innheimtumenn ríkissjóðs varðandi skuldbreytingar og nauðasamninga. Telur ráðuneytið að innheimtumönnum ætti því að vera ljós úrræði skv. 111. gr. laganna. Þá hefur ráðuneytið á fundum sínum með innheimtumönnum ríkissjóðs vakið sérstaka athygli á úrræðinu. Í ljósi þessa telur ráðherra enga þörf á lagabreytingu. Þá telur ráðherra ekki grundvöll til þess að víkja frá skilyrðum sem tiltekin eru í greininni.