Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 77. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 371  —  77. mál.




Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um kvartanir vegna verðbréfaviðskipta.

     1.      Hverjar eru helstu ástæður kvartana vegna verðbréfaviðskipta sem úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki hafa borist annars vegar og Fjármálaeftirlitinu hins vegar, og hver hefur fjöldi kvartana verið árlega síðustu þrjú ár?
    Viðskiptaráðherra óskaði eftir upplýsingum frá úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki og Fjármálaeftirlitinu vegna fyrirspurnar þessarar.
    Í svari Fjármálaeftirlitsins kom eftirfarandi fram:
    „Hér á eftir kemur yfirlit yfir helstu ástæður kvartana vegna verðbréfaviðskipta sem Fjármálaeftirlitinu hafa borist með formlegum hætti síðastliðin þrjú ár og það sem liðið er af árinu 2002.

Helstu ástæður kvartana 1999 2000 2001 2002
Fjárvarsla

3 3 2
Fjárfestingarráðgjöf

1 4 1
Auglýsingar og kynning

1
Uppgjör og frágangur viðskipta

4 1
Starfshættir í tengslum við útboð verðbréfa

1 1 1
Óheilbrigðir og óeðlilegir viðskiptahættir

1

1 1
Samtals

1

6 13 6

    Í allnokkrum fleiri málum hefur verið kvartað til Fjármálaeftirlitsins með óformlegum hætti vegna verðbréfaviðskipta við fjármálafyrirtæki. Einnig hefur Fjármálaeftirlitið í tengslum við fjölda formlegra og óformlegra erinda vegna kvartana á hendur fjármálafyrirtækjum er varða fjárhagslegt uppgjör vegna verðbréfaviðskipta, bent viðkomandi aðilum á úrskurðarnefnd viðskiptavina fjármálafyrirtækja vegna vanheimildar Fjármálaeftirlitsins til þess að kveða á um réttindi og skyldur aðila er varða fjárhagslegt uppgjör fjármálafyrirtækja og viðskiptavina þeirra. Í framhaldi þess hefur Fjármálaeftirlitið fylgst með framgangi og niðurstöðu mála þar og gripið til aðgerða ef almennir eftirlitshagsmunir hafa krafist þess.“
    Í svari úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki kom eftirfarandi fram:
„Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki hafa á síðustu árum borist kvartanir sem hér segir:
    Árið 1999     2 mál.
    Árið 2000     5 mál.
    Árið 2001     17 mál.
    Árið 2002     16 mál.
    Það sem af er árinu 2002 hafa 16 mál borist nefndinni. Af þeim eru fjögur enn til meðferðar hjá nefndinni. Rétt er að geta þess að árið 2000 tóku gildi nýjar samþykktir fyrir úrskurðarnefndina þar sem m.a. er að finna nýmæli þess efnis að einstaklingar í atvinnurekstri og lögaðilar geta nú leitað með mál sín til nefndarinnar. Athygli er vakin á því að nokkur málanna höfðu áður borist Fjármálaeftirlitinu.
    Í ofangreindum 36 málum, sem nefndin hefur úrskurðað í á árunum 1999–2002, kvörtuðu samtals 37 einstaklingar og þrír lögaðilar yfir viðskiptum sínum við alls 16 fjármálafyrirtæki. Í tveimur tilvikum beindist kvörtun að tveimur fyrirtækjum. Kvartað var sjö sinnum yfir viðskiptum við eitt fyrirtækjanna, fimm sinnum vegna viðskipta við annað og fjórum sinnum yfir viðskiptum við önnur tvö. Í eitt skipti voru kvartendur þrír og tvisvar sinnum tveir en í öðrum tilvikum einn. Af fyrrgreindum 37 einstaklingum voru 12 konur (32,4%) en 25 karlar (67,6%). Sá yngsti sem kvartaði var 16 ára en sá elsti 79 ára. Meðalaldur þeirra sem kvörtuðu var 44,6 ár.
    Efni kvartana til nefndarinnar má gróflega flokka með eftirfarandi hætti:
    
1. Verðbréfaviðskipti 12
2. Fjárvarsla 7
3. Innlánsreikningar 3
4. Ábyrgðarskuldbinding 2
5. Innheimta 2
6. Kreditkort 2
7. Uppgjör skulda 2
8. Vaxtauppgjör 2
9. Greiðsluþjónusta 1
10. Lausafé 1
11. Ráðstöfun gjafafjár 1
12. Annað 1
Alls 36 mál

    Vakin er athygli á að kvörtun lýtur í sumum tilvikum að fleiru en einu atriði. Undir verðbréfaviðskipti falla m.a. kvartanir vegna kaupa á innlendum og erlendum hlutabréfum, og kvartanir vegna svokallaðra framvirkra skiptasamninga. Þá er þess að geta að þau tilvik sem hér eru flokkuð með fjárvörslu varða oft viðskipti með verðbréf sem fjármálafyrirtæki hefur á grundvelli fjárvörslusamnings gert fyrir hönd viðskiptamanns síns. Hefur þá stundum reynt á hvort ráðstafanir fjármálafyrirtækis hafi verið innan marka fjárvörslusamnings þess og kvartanda eða hvort fyrirtækið hafi farið út fyrir umboð sitt samkvæmt samningi aðila.
    Afdrif málanna 36 hjá nefndinni urðu með eftirfarandi hætti:
    Fallist á kröfur kvartenda að nokkru leyti eða öllu     9     (25,0%)
    Tilmælum beint til fjármálafyrirtækis að koma til móts við
         kröfur kvartenda     2     (5,6%)
    Kröfum kvartenda hafnað     16     (44,4%)
    Máli vísað frá úrskurðarnefndinni      9     (25,0%)
    Samtals             36     (100,0%)
    Í einu tilviki var fallist á kröfur kvartanda að nokkru leyti og að auki mælst til þess að fjármálafyrirtæki kæmi frekar til móts við kröfur hans.“

     2.      Hversu oft á þessum árum hafa komið fram kvartanir um rangar upplýsingar frá verðbréfafyrirtækjum vegna sölu hlutabréfa og hversu oft hefur það verið vegna sama fyrirtækis?
    Samkvæmt upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu hafa því borist með formlegum hætti sex erindi er varða kvörtun um ranga upplýsingagjöf fjármálafyrirtækja á umræddu tímabili og það sem liðið er af árinu 2002. Þessi erindi varða fjögur fjármálafyrirtæki, af þeim eru þrjú á hendur sama fjármálafyrirtækinu. Í allnokkrum fleiri málum hefur einnig verið kvartað til Fjármálaeftirlitsins með óformlegum hætti vegna rangrar upplýsingagjafar fjármálafyrirtækja vegna viðskipta með verðbréf.
    Fram kemur í svari úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki að í einu máli sem farið hefur fyrir nefndina hefur því verið haldið fram af hálfu kvartenda að fjármálafyrirtæki hefði gefið þeim rangar upplýsingar og beitt blekkingum og svikum í tengslum við kaup á erlendum hlutabréfum. Málinu var vísað frá úrskurðarnefndinni.

     3.      Hafa verðbréfasalar orðið bótaskyldir vegna rangra upplýsinga um kaup og sölu í verðbréfaviðskiptum? Ef svo er, hversu oft hefur það gerst og um hve háar fjárhæðir hefur verið að ræða?
    Samkvæmt upplýsingum frá úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki hafa verðbréfasalar ekki orðið bótaskyldir vegna rangra upplýsinga um kaup eða sölu í verðbréfaviðskiptum í þeim málum sem farið hafa fyrir úrskurðarnefndina.
    Í svari Fjármálaeftirlitsins kemur fram að því sé ekki kunnugt um dóm eða úrskurð þar sem fjármálafyrirtæki er dæmt skaðabótaskylt á grundvelli þess að veittar hafi verið rangar upplýsingar um kaup og sölu í verðbréfaviðskiptum. Athugun ráðuneytisins hefur leitt hið sama í ljós. Hins vegar er Fjármálaeftirlitinu kunnugt um ýmis tilvik þar sem fjármálafyrirtæki og viðskiptavinir hafa leyst ágreining af þessu tagi með samkomulagi án þess að hægt sé að tala um skaðabætur í því samhengi.

     4.      Eru dæmi þess að bankar hafi fallið frá kröfu um greiðslu á hlutabréfum vegna gylliboða verðbréfasala bankanna og óraunhæfra væntinga um hagnað? Ef svo er, hvaða tilvik voru þetta, um hvaða fjárhæðir var að ræða og hvaða fordæmisgildi hefur það að mati ráðherra?

    Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki hefur ekki haft mál til meðferðar þar sem fallið hefur verið frá kröfu um greiðslu á hlutabréfum af þeim ástæðum sem tilgreindar eru í þessum lið fyrirspurnarinnar, samkvæmt upplýsingum frá nefndinni. Mál af þessu tagi hafa ekki borist ráðuneytinu, enda ekki á verksviði þess að úrskurða í einstökum ágreiningsefnum.