Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 213. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 372  —  213. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Ólafíu Ingólfsdóttur um uppbyggingu menningarstofnana á Suðurlandi.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvað hefur verið gert í uppbyggingu menningarstofnana á Suðurlandi og hvað er á döfinni í þeim málum á næstu árum af hálfu menntamálaráðuneytis?

    Frumkvæði að nýjum stofnunum er fyrst og fremst hjá sveitarfélögum eða samtökum og hefur menntamálaráðuneytið veitt styrki til ýmissa stofnana í eigu þessara aðila. Á Suðurlandi hafa verið veittir byggingarstyrkir til Byggðasafns Árnesinga á Eyrarbakka og samgönguminjahússins á Skógum. Styrkir voru veittir til endurbóta á Tryggvaskála á Selfossi og einnig til viðgerða á gömlu húsunum á Keldum og er því verki ekki lokið. Fyrir nokkrum árum var miklu fé varið til að koma á laggirnar listaskála í Hveragerði og nýtur Listasafn Árnesinga góðs af því núna. Þá hafa einnig verið veittir stofnstyrkir til Sögusetursins á Hvolsvelli. Auk þess má geta þess að um langt skeið hafa verið veittir styrkir til menningarstarfsemi í Skálholti, til Helgisiðastofnunar og Skálholtstónleika, á Kirkjubæjarklaustri og víðar á Suðurlandi.
    Vestmannaeyingar hafa kynnt hugmyndir um menningarhús með aðkomu ríkisins. Einnig hafa Selfyssingar leitað eftir samstarfi við menntamálaráðuneytið um stofnun og rekstur menningarsalar. Formlegar viðræður eru ekki hafnar um þessi mál. Þá hefur ráðuneytinu verið kynntar hugmyndir um stofnun Tónminjasafns á Stokkseyri en ekki hefur verið leitað eftir formlegri aðild þess að því.