Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 190. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 373  —  190. mál.




Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Bryndísar Hlöðversdóttur og Guðrúnar Ögmundsdóttur um húsnæðismál glasafrjóvgunardeildar Landspítala – háskólasjúkrahúss.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Eru einhver áform uppi um að bæta úr húsnæðismálum glasafrjóvgunardeildar Landspítala – háskólasjúkrahúss? Ef svo er, hver eru þau?

    Glasafrjóvgunardeildin var flutt í nýtt húsnæði á kvennadeild Landspítala fyrir fjórum árum, en fram að þeim tíma var deildin til húsa í eldra húsnæði sem hafði verið innréttað sérstaklega fyrir hana á árinu 1990. Við flutninginn 1998 tvöfaldaðist húsnæði deildarinnar og er nú um 380 fermetrar. Fyrir flutninginn var húsnæðið allt lagfært og innréttað til að uppfylla þarfir þessarar starfsemi sem best.
    Mat stjórnenda Landspítala – háskólasjúkrahúss er að deildin sé nú í húsnæði sem henti starfseminni allvel, þótt margt mætti væntanlega færa til betri vegar. Eru því ekki uppi nein sérstök áform um nýtt húsnæði fyrir deildina eða veigamiklar breytingar á núverandi húsnæði.
    Eins og kunnugt er hefur nokkuð verið rætt um hugsanlegar breytingar á rekstrarformi deildarinnar, en engar ákvarðanir verið teknar í því efni og því of snemmt að ræða um húsnæðismál því tengd.
    Ýmis brýn verkefni eru framundan varðandi lagfæringar og breytingar í húsnæðismálum Landspítala – háskólasjúkrahúss. Brýnasta viðfangsefnið er endurinnrétting slysa- og bráðadeildar, en margt fleira liggur fyrir að þurfi að gera á næstunni.
    Ekki er því unnt að gera ráð fyrir miklum framkvæmdum við glasafrjóvgunardeildina á næstunni, en að sjálfsögðu verður sinnt öllu venjubundnu viðhaldi og gerðar þær nauðsynlegu breytingar sem þarf að gera svo að starfseminni séu ætíð búnar góðar aðstæður.