Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 187. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 374  —  187. mál.




Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Bryndísar Hlöðversdóttur og Guðrúnar Ögmundsdóttur um faglega ráðgjöf um tæknifrjóvgun.

     1.      Hvenær er áformað að farið verði eftir því ákvæði laga um tæknifrjóvgun að veita skuli þeim sem sækja um tæknifrjóvgun faglega ráðgjöf sérfræðinga, svo sem félagsráðgjafa eða sálfræðinga?
    Hér er væntanlega verið að vísa til 2. mgr. 2. gr. laga um tæknifrjóvgun, nr. 55/1996, en þar segir orðrétt: „Heilbrigðisstofnun sem fær leyfi skv. 1. mgr. er skylt að bjóða [leturbreyting ráðuneytis] pörum sem sækja um tæknifrjóvgunarmeðferð og væntanlegum gjöfum faglega ráðgjöf sérfræðinga, svo sem félagsráðgjafa eða sálfræðinga.“ Hér gætir því nokkurrar ónákvæmni í tilvísun til ákvæða laga um tæknifrjóvgun, en nokkur merkingarmunur er á því hvort skylt er að veita ráðgjöf eða bjóða hana.
    Óskað var eftir upplýsingum frá Landspítala – háskólasjúkrahúsi um framkvæmd þess ákvæðis laga um tæknifrjóvgun sem vísað er til í fyrirspurninni. Í svari Landspítalans dags. 30. október sl. kemur fram að á kvennasviði starfa tveir félagsráðgjafar sem tæknifrjóvgunardeild getur leitað til. Með bréfi sjúkrahússins fylgir eftirfarandi svar yfirlæknis tæknifrjóvgunardeildar Landspítala – háskólasjúkrahúss:
    „Allt frá upphafi starfseminnar 1991 hefur verið „leitast við að bjóða upp á ráðgjöf fyrir pör þar sem sérstök félagsleg vandamál koma upp í tengslum við ófrjósemi og meðferð við henni.“ Þetta kemur skýrt fram á forsíðu upplýsingaheftis sem öll pör fá afhent við undirbúning meðferðar (sjá fylgiskjal). Þannig hefur frumkvæðið að slíkri ráðgjöf verið lagt í hendurnar á parinu sjálfu. Einnig hafa einstaklingar og pör fengið ráðgjafaviðtöl eftir tilmæli beint frá ljósmæðrum og læknum deildarinnar. Þessu starfi hefur verið sinnt af félagsráðgjöfum Kvennadeildar Landspítalans. Ekki hefur hins vegar verið sérstakur ráðgjafi ráðinn að deildinni þótt brýn þörf væri á. (Sjá meðfylgjandi bréf til sviðsstjórnar Kvennasviðs). –Með tilkomu tæknifrjóvgana með gjafaeggjum var ákveðið að öll pör sem þiggja egg (þegar) og allar konur sem gefa egg (gjafar) skuli fara til ráðgjafa áður en meðferð er ákveðin. Þetta hefur verið gert frá upphafi og verið sinnt af félagsráðgjafa við Kvennadeildina. –Æskilegt væri að sérstök stöðuheimild fengist til að sinna þessum hluta þjónustunnar enn betur. Þess ber að geta að vitað er um félagsráðgjafa sem er í sérnámi í fjölskyldu- og ófrjósemisráðgjöf í Svíþjóð og höfum við fullan hug á að fá hana til starfa með okkur þegar námi lýkur.“

     2.      Hvers vegna hefur slík þjónusta ekki verið veitt fram að þessu?
    Eins og fram kemur í svari við fyrri lið fyrirspurnarinnar hefur skyldu til að bjóða faglega ráðgjöf verið sinnt. Á þessu sviði, sem öðrum sviðum heilbrigðisþjónustunnar, er alltaf hægt að gera betur á sviði fræðslu og ráðgjafar. Eins og fram kemur í svari yfirlæknis tæknifrjóvgunardeildar Landspítala – háskólasjúkrahúss hafa stjórnendur deildarinnar metnað til að styrkja þann þátt starfseminnar sem spurt er um.