Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 294. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 459  —  294. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur um bann við notkun á nónýlfenól-etoxýlötum (NFE) í hreinsiefnum.

     1.      Hvernig hyggst ráðherra fylgja eftir tilmælum OSPAR-samningsins um að stöðva notkun á nónýlfenól-etoxýlötum (NFE) í hreinsiefnum?
    Málefnið hefur verið til athugunar í ráðuneytinu en það tengist m.a. samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Hollustuvernd ríkisins hefur kynnt helstu notendum NFE hér á landi tilmæli OSPAR-samningsins. Evrópusambandið lagði 16. ágúst sl. fram drög að 26. breytingu á tilskipun nr. 76/769/EBE, um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi takmörkun á sölu og notkun tiltekinna hættulegra efna og efnablandna, þar sem lagt er til að markaðssetning og notkun nónýlfenóls og nónýlfenól- etoxýlata verði bönnuð í hreinsiefnum og á fleiri notkunarsviðum. Þessi tillaga (skjal COM (2002) 459 Final), sem verið hefur í undirbúningi frá 2000, er gerð í kjölfar áhættumats þar sem metin voru óæskileg áhrif þessara efna á umhverfi og heilsu. Ekki er líklegt að ákvæði væntanlegrar tilskipunar taki gildi í Evrópusambandinu fyrr en í fyrsta lagi eftir tvö ár. Því er til skoðunar hvort sett skuli reglugerð fyrr hér á landi áður en gengið verður frá málinu hjá ESB. Ef svo fer verður bannið einhliða og verður þá að tilkynna það samkvæmt ákvæðum EES-samningsins. Þá getur reglugerðin í fyrsta lagi tekið gildi þremur mánuðum eftir tilkynninguna, þ.e. hreyfi aðildarríkin ekki andmælum en annars lengist tíminn. Byggist þessi málsmeðferð á því að um er að ræða reglugerð sem felur í sér tæknilega viðskiptahindrun.

     2.      Mun ráðherra beita sér fyrir því að notkun NFE verði bönnuð með reglugerð líkt og sumar nágrannaþjóðir okkar hafa gert?
    Misjafnt er til hvaða ráða nágrannaþjóðirnar hafa gripið til að takmarka notkun nónýlfenól-etoxýlata. Í löndum þar sem hefð er fyrir frjálsu samkomulagi við iðnaðinn, svo sem í Danmörku og Svíþjóð, hefur náðst góður árangur í því að takmarka notkun þessara efna með samningum án frekari afskipta hins opinbera. Önnur lönd, svo sem Noregur, hafa gripið til þess ráðs að banna nónýlfenól-etoxýlöt og fleiri svipuð efni í hreinsiefnum. Setning reglugerðar með hliðstæðum hætti og í Noregi er til athugunar í ráðuneytinu í samráði við Hollustuvernd ríkisins.

     3.      Hefur umfang innflutnings á NFE og vörum sem innihalda NFE verið kannað?

    Heildarumfang notkunar nónýlfenól-etoxýlata hefur ekki verðið kannað. Þekkt er þó að efnin eru til staðar í einhverjum mæli í vörum á markaði. Erfitt er að kanna heildarumfang innflutnings á vörum sem innihalda nónýlfenól-etoxýlat, enda er mikið af hreinsiefnum á markaðinum og breytilegt hvaða vara er á boðstólum hverju sinni. Nónýlfenól-etoxýlat, sem er ójónuð sápa, fellur í sama tollflokk og fjöldi af öðrum ójónuðum sápum. Hollustuvernd ríkisins hefur gert tilraun til að meta magn nónýlfenól-etoxýlats í tilbúnum sápuvörum. Efnin finnast tæpast lengur í vörum frá helstu viðskiptalöndum okkar innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) vegna sameiginlegs átaks stjórnvalda og iðnaðar og/eða banns stjórnvalda. Í sápuvörum frá Bandaríkjunum er meira um nónýlfenól-etoxýlöt, en innflutningur þaðan er mjög lítill í magni talið. Í innlendum sápuiðnaði er notkun nónýlfenól-etoxýlata á undanhaldi og eru efnin nú nær eingöngu notuð í tjöruleysa fyrir bíla, þ.e. þá gerð tjöruleysa sem í er terpentína. Dregið hefur úr þessari notkun og er Hollustuvernd ríkisins aðeins kunnugt um einn framleiðanda sem enn notar nónýlfenól-etoxýlöt í framleiðslu sinni. Snyrtivörur bæði frá löndum innan EES og Bandaríkjunum eru lausar við nónýlfenól-etoxýlöt. Nónýlfenól- etoxýlöt voru einnig notuð sem hráefni í málningarframleiðslu í litlu magni en eru horfin þaðan að mestu leyti.

     4.      Hafa umhverfisyfirvöld á Íslandi efnt til samstarfs við fulltrúa atvinnulífsins til þess að stöðva notkun á NFE?

    Umhverfisstjórnvöld hafa ekki gert formlegt samkomulag við fulltrúa atvinnulífsins um að hætta notkun nónýlfenól-etoxýlata. Hollustuvernd ríkisins hefur þó eins og áður hefur komið fram verið í beinu sambandi við sápuframleiðendur sem eru stærstu notendurnir og upplýst þá um tilmæli OSPAR-samningsins (PARCOM recommendation 92/8 on Nonylphenol-Ethoxylates) og hefur það m.a. skilað umræddum árangri. Einnig hefur stofnunin upplýst innflytjendur um tilmælin og lagt að þeim að stöðva innflutning vöru sem í eru nónýlfenól-etoxýlöt. Unnið er að því nú að reyna að ná til allra innflytjenda og framleiðenda og kanna hversu mikið af hreinlætisvörum á markaði inniheldur nónýlfenól-etoxýlöt. Aðgerðir í framhaldi af því taka mið af niðurstöðu þessarar könnunar.