Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 402. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 510  —  402. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum.

Frá 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.    Frumvarp fjármálaráðherra um hækkun á áfengisgjaldi er einfalt skattahækkunarfrumvarp ríkisstjórnar sem hefur misst tök á útgjöldum ríkissjóðs í aðdraganda alþingiskosninga. Í frumvarpinu felst að álögur á þá sem neyta áfengis og tóbaks eru auknar í því skyni að auka tekjur ríkissjóðs vegna mikilla útgjalda. Þá verður að vekja sérstaka athygli á afar ósmekklegri tilvitnun í greinargerð með frumvarpinu þar sem reynt er að tengja saman þessa skattahækkun við smávægilega hækkun sem Landssamband aldraðra knúði í gegn í þágu lífeyrisþega og tekur gildi um næstu áramót. Eðlilegra hefði verið að vísa til mikilla skattaívilnana ríkisstjórnarinnar til handa stórfyrirtækjum og auðmönnum en að gera lífeyrisþega ábyrga fyrir þessum skattahækkunum.
    Á fundi í efnahags- og viðskiptanefnd gagnrýndi fulltrúi ASÍ þessa skattahækkun ríkisstjórnarinnar harðlega. Ekkert samráð var haft við ASÍ um þessa hækkun þrátt fyrir sameiginlega yfirlýsingu ríkisstjórnarinar og ASÍ fyrr á árinu um aukið samstarf við að ná verðbólgunni niður og halda henni innan tilskilinna marka. Þetta taldi ASÍ alvarlegt í ljósi þess að fallið var frá þessari sömu hækkun fyrr á árinu vegna óæskilegra áhrif hennar á verðbólgumarkmið í tengslum við kjarasamninga. Jafnframt taldi ASÍ að þessi skattahækkun gæti verið fordæmi, sem t.d. sveitarfélög og tryggingafélög gætu notað til að rökstyðja hækkun á sínum tekjum.
    Áhrif frumvarpsins eru m.a. þau að skuldir heimilanna hækka um 2 milljarða kr. Sem dæmi má nefna að 10 millj. kr. verðtryggt lán hækkar samstundis um 30 þús. kr. Greiðslur af láni sem er til sjö ára hækkar um 4 þús. kr. á ári. Greiðslur af 25 ára húsbréfum hækka um 1–2 þús. kr á ári.
    Það kom fram á fundi efnahags- og viðskiptanefndar að þrátt fyrir að áfengisgjald hafi ekki hækkað mikið undanfarið hefur þessi breyting á áfengisgjaldinu það í för með sér að verð á áfengi mun hækka langt umfram hækkun neysluvísitölunnar á þessu ári. Hækkun á áfengi á árinu vekur sérstaka eftirtekt í ljósi þess að krónan hefur styrkst um hátt í 20% á árinu, sem við eðlilegar aðstæður hefði átt að hafa verðlækkun á áfengi í för með sér.
    Skattahækkuninni er ætlað að skila ríkissjóði 1.100 millj. kr., 800 millj. kr. vegna hækkunar á tóbaki og 300 millj. kr. vegna hækkunar á áfengi. Miðað er við óbreytta sölu á áfengi hjá ÁTVR á árinu 2003.
    Vinnubrögðin við þetta mál er mjög ámælisverð. Minni hlutinn reyndi að ná samstöðu við meiri hlutann um að verja auknum hluta af skattahækkuninni í forvarnarsjóð. Um það var fjármálaráðherra ekki til viðræðu. Minni hlutinn leggur því til að gjald í forvarnarsjóð verði hækkað úr 1% í 1,5%.     Með vísan til framangreinds er allri ábyrgð af þessari skattahækkun vísað á ríkisstjórnina.

Alþingi, 28. nóv. 2002.Jóhanna Sigurðardóttir,


frsm.


Lúðvík Bergvinsson.