Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 3. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 597  —  3. mál.
Nefndarálitum till. til þál. um athugun á orsökum fyrir háu matvælaverði á Íslandi samanborið við önnur Norðurlönd og ríki Evrópusambandins.

Frá allsherjarnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðrúnu Ástu Sigurðardóttur og Andrés Magnússon frá Samtökum verslunarinnar, Ingimar Jónsson frá Kaupási, Guðjón Stefánsson frá Samkaupum, Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins, Árna Pétur Jónsson og Finn Árnason frá Baugi, Sigurð Jónsson frá Samtökum verslunar og þjónustu, Ólaf Darra Andrason og Sigurð Víðisson frá Alþýðusambandi Íslands, Jóhannes Gunnarsson frá Neytendasamtökunum, Elínu Þórunni Eiríksdóttur frá Eimskipi, Kristján M. Atlason og Knút G. Hauksson frá Samskipum og Pétur J. Eiríksson frá Flugleiðum. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, Baugi Group hf., Sambandi garðyrkjubænda, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum iðnaðarins, Samtökum verslunarinnar, Sjálfsbjörg, Samtökum verslunar og þjónustu og Verslunarráði Íslands.
    Með tillögunni er lagt til að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að leita orsaka fyrir mismunandi matvælaverði á Norðurlöndum og í ríkjum Evrópusambandsins. Í þessu skyni fari fram nákvæmur samanburður á matvöruframleiðslu og verslunarháttum á framangreindum stöðum og könnuð þau skilyrði sem matvælaframleiðslu og matvöruverslun eru búin í hverju landi fyrir sig. Jafnframt verði sérstaklega leitt í ljós hvort ólík tenging Norðurlanda við Evrópusambandið hafi áhrif á mismunandi þróun matvælaverðs í löndunum. Að lokum er lagt til að niðurstöðum þessarar athugunar skuli skilað til Alþingis innan sex mánaða frá samþykkt tillögunnar.
    Nefndin telur að markmið tillögunnar um að fram fari nákvæmur samanburður á matvöruframleiðslu og verslunarháttum á tilgreindum stöðum sé of umfangsmikið og kostnaðarsamt og jafnframt óraunhæft miðað við þann skamma frest sem gefinn sé til skýrslugjafar í málinu. Nefndin telur eðlilegra að í stað þess að leita orsaka fyrir mismunandi matvælaverði á tilgreindum stöðum með nánar tilgreindum hætti sé í upphafi kannað matvælaverð á þessum stöðum. Jafnframt verði reynt að gera grein fyrir hugsanlegum ástæðum mismunandi matvælaverðs, svo sem ólíkum verslunar- og framleiðsluháttum og mismunandi tengingu Norðurlandanna við Evrópusambandið. Þá leggur nefndin áherslu á að hagsmunaaðilar geti hér komið sjónarmiðum sínum á framfæri.
    Fram kom í máli gesta og umsagnaraðila að þeir styðja velflestir tillöguna og benda jafnframt á nauðsyn þess að heildstæð umræða fari fram á þessum vettvangi þar sem allir fletir málsins verði skoðaðir með það að markmiði að ná fram lækkun matvælaverðs hér á landi.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

    Tillögugreinin hljóði svo:
    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna matvælaverð á Íslandi í samanburði við helstu nágrannalönd. Jafnframt verði reynt að gera grein fyrir hugsanlegum ástæðum mismunandi matvælaverðs, svo sem ólíkum verslunar- og framleiðsluháttum.
    Niðurstöðum þessarar athugunar skal skila til Alþingis innan sex mánaða frá samþykkt tillögunnar.

    Jónína Bjartmarz var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 5. des. 2002.Þorgerður K. Gunnarsdóttir,


form., frsm.


Guðrún Ögmundsdóttir.


Lúðvík Bergvinsson.Ásta Möller.


Guðjón A. Kristjánsson.


Ólafur Örn Haraldsson.Pétur H. Blöndal.


Drífa Hjartardóttir.