Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 718, 128. löggjafarþing 158. mál: skipamælingar (heildarlög).
Lög nr. 146 19. desember 2002.

Lög um skipamælingar.


1. gr.

     Skip í lögum þessum tekur til hvers fljótandi fars sem skráð er á íslenska skipaskrá.

2. gr.

     Hvert skip með skráningarlengd 24 metra eða lengra skal mælt og tonnatala þess reiknuð samkvæmt alþjóðasamþykkt um mælingu skipa sem undirrituð var í London 23. júní 1969.
     Hvert skip með skráningarlengd allt að 24 metrum skal mælt og tonnatala þess reiknuð samkvæmt reglum sem ráðherra setur að tillögum Siglingastofnunar Íslands.
     Heimilt er að mæla hvert skip og reikna brúttórúmlestatölu þess samkvæmt alþjóðareglum um mælingu skipa, gefnum út af Þjóðabandalaginu 30. júní 1939, eins og mælt er fyrir í samningi, undirrituðum í Ósló 10. júní 1947, með síðari breytingum, eftir nánari reglum sem samgönguráðherra ákveður með reglugerð.

3. gr.

     Skip sem mælt hefur verið samkvæmt alþjóðasamþykkt um mælingu skipa, sbr. 1. mgr. 2. gr., skal fá alþjóðlegt mælibréf.
     Skip sem mælt er samkvæmt reglum sem ráðherra hefur sett skv. 2. mgr. 2. gr. skal fá íslenskt mælibréf.
     Form mælibréfa skal vera á þann veg sem framangreind alþjóðasamþykkt og reglur mæla fyrir um.

4. gr.

     Skipasmiður eða fyrirsvarsmaður hans skal senda Siglingastofnun Íslands skriflega tilkynningu um smíði skips, sem ætlað er til skráningar hér á landi, ásamt útreikningum á tonnatölum og teikningum og öðrum nauðsynlegum gögnum sem sýna form og fyrirkomulag skipsins. Enn fremur skal hann tilkynna Siglingastofnun Íslands hvenær tímabært er að skoða og mæla skipið.

5. gr.

     Ef skipi er breytt þannig að tonnatala þess breytist er eiganda þess skylt að tilkynna það til Siglingastofnunar Íslands og skal þá senda stofnuninni nýja útreikninga á tonnatölum og teikningar og önnur nauðsynleg gögn til að ákveða mælingu þess. Að því loknu skal gefa út nýtt mælibréf.

6. gr.

     Þegar skip er skráð á íslenska skipaskrá ber eiganda þess að senda Siglingastofnun Íslands útreikninga á tonnatölum þess og teikningar og önnur nauðsynleg gögn til þess að ákveða mælingu þess. Heimilt er að taka útreikninga og mælingar sem samþykktar hafa verið af erlendu ríki gildar ef það ríki er aðili að alþjóðasamþykkt um mælingar skipa frá 1969.

7. gr.

     Siglingastofnun Íslands getur hvenær sem ástæða þykir til endurskoðað mælingu skipa. Einnig geta eigendur skipa fengið skip sín mæld að nýju óski þeir þess.

8. gr.

     Heimilt er að mæla erlent skip við komu hingað til lands hafi það ekki gilt mælibréf samkvæmt alþjóðasamþykkt um mælingar skipa frá 1969.

9. gr.

     Greiða skal fyrir mælingar skipa, endurmælingu skipa, yfirferð á mælingum, útgáfu og endurútgáfu mælibréfa samkvæmt lögum þessum og skulu þau gjöld standa undir kostnaði Siglingastofnunar Íslands við afgreiðslu þeirra. Gjöld skulu ákveðin í gjaldskrá stofnunarinnar. Siglingastofnun er einnig heimilt að innheimta ferða- og dagpeningakostnað þeirra sem mælingar skipa annast svo sem hann er ákveðinn hverju sinni.
     Gjöldum skv. 1. mgr. fylgir lögveð í skipi.

10. gr.

     Brot gegn lögum þessum eða reglum sem settar eru samkvæmt þeim varða sektum.

11. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög um skipamælingar, nr. 50 frá 12. maí 1970, með síðari breytingum.

Samþykkt á Alþingi 12. desember 2002.