Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 242. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 867  —  242. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 100 23. desember 1952, (tvöfaldur ríkisborgararéttur).

Frá allsherjarnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Rögnu Árnadóttur frá dómsmálaráðuneyti.
    Með frumvarpinu er lagt til að íslenskum ríkisborgurum verði heimilað að halda íslensku ríkisfangi þótt þeir öðlist ríkisborgararétt í öðru ríki. Hér er því lagt til að tvöfaldur ríkisborgararéttur verði heimilaður. Samkvæmt núgildandi lögum missir sá íslenskt ríkisfang sitt sem hlýtur erlent ríkisfang samkvæmt eigin umsókn eða skýlausu samþykki, eða með því að ganga í opinbera þjónustu í öðru ríki.
    Ákvæði laganna um missi ríkisborgararéttar eru í samræmi við þau ríkisborgararéttarlög sem í gildi hafa verið á Norðurlöndunum frá því á fyrri hluta síðustu aldar. Ekki hefur farið fram sameiginleg norræn endurskoðun á lögunum, en ný ríkisborgararéttarlög tóku gildi í Svíþjóð 1. júní 2001. Helsta breyting þeirra er sú að Svíar heimila nú tvöfaldan ríkisborgararétt. Endurskoðun á lögunum er hafin í Noregi og Finnlandi en ekki í Danmörku.
    Ástæður framangreindra breytinga eru þær helstar að íslensk stjórnvöld hafa orðið vör við óánægju íslenskra borgara með að missa íslenska borgararéttinn þegar þeir hafa fengið erlendan borgararétt. Þá ber að geta þess að eitt meginsjónarmiðið við að heimila ekki tvöfaldan ríkisborgararétt er að koma í veg fyrir að maður geti haft herskyldu í tveim ríkjum. Slíkt á hins vegar ekki við hér á landi.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Kjartan Ólafsson, Ólafur Örn Haraldsson og Guðrún Ögmundsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Ögmundur Jónasson áheyrnarfulltrúi er samþykkur afgreiðslu þess.

Alþingi, 27. jan. 2003.Þorgerður K. Gunnarsdóttir,


form., frsm.


Katrín Fjeldsted.


Jónína Bjartmarz.Lúðvík Bergvinsson.


Ásta Möller.


Guðjón A. Kristjánsson.