Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 157. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 886  —  157. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um skráningu skipa, nr. 115/1985, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta samgöngunefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur og Unni Sverrisdóttur frá samgönguráðuneyti, Stefán Ásmundsson frá sjávarútvegsráðuneyti, Tómas H. Heiðar frá utanríkisráðuneyti, Hermann Guðjónsson og Helga Jóhannesson frá Siglingastofnun Íslands og Friðrik Arngrímsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna.
    Umsagnir um málið bárust frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Siglingastofnun Íslands, Hafrannsóknastofnuninni, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Hafnasambandi sveitarfélaga, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Vélskóla Íslands, Stýrimannaskólanum í Reykjavík, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Sjómannasambandi Íslands, Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða, Vélstjórafélagi Íslands og Alþýðusambandi Íslands.
    Frumvarpið er endurflutt frá síðasta þingi en þá var það afgreitt úr nefndinni með nokkrum breytingum meiri hlutans. Í frumvarpinu nú hefur að nokkru verið tekið tillit til breytingartillagna meiri hlutans.
    Með frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að þurrleiguskrá íslensk fiskiskip.
    Meiri hlutinn telur, eftir að hafa skoðað frumvarpið ítarlega, að helstu gagnrýnisatriðin sem fram hafa komið séu á misskilningi byggð. Því er t.d. haldið fram að með því að heimila þurrleiguskráningu sé útgerðarmönnum gert kleift að ráða til sín ódýrt erlent vinnuafl í samkeppni við íslenska sjómenn. Þessi gagnrýni stenst ekki. Þurrleiguskráð skip telst ekki íslenskt skip meðan á þurrleigu stendur, sbr. 2. gr. frumvarpsins, sem felur í sér að þurrleiguskráð skip hafa ekki heimild til að stunda veiðar innan íslenskrar lögsögu né heldur er þeim heimilt að veiða úr íslenskum kvótum á alþjóðlegum hafsvæðum. Um leið og þurrleigu lýkur fer skipið aftur undir íslenskan fána og gilda þá um það íslensk lög og reglur og jafnframt íslenskir kjarasamningar.
    Því hefur einnig verið haldið fram að þurrleiguskráning fiskiskipa sé í andstöðu við íslenska hagsmuni þar sem veiðar íslenskra skipa undir erlendum fána geta skapað veiðireynslu fyrir hina erlendu þjóð þegar veitt er á alþjóðlegum hafsvæðum. Við þessu er séð í frumvarpinu, sbr. a- og f-lið 2. efnismgr. 1. gr. Í f-lið, sem tekinn var upp í frumvarpið í samræmi við breytingartillögu meiri hluta nefndarinnar á síðasta þingi, segir að sjávarútvegsráðuneytið skuli staðfesta, áður en heimild til þurrleiguskráningar sé veitt, að þær veiðar sem skipið mun stunda meðan á þurrleiguskráningu stendur veiti ekki því ríki þar sem þurrleiguskráning fer fram veiðireynslu sem gæti nýst því síðar í samningum við íslenska ríkið um skiptingu aflaheimilda eða gangi að öðru leyti gegn hagsmunum Íslendinga. Fáist slík staðfesting ekki er Siglingastofnun ekki leyfilegt að veita heimild til þurrleiguskráningar. Skilyrði þetta ber að túlka rúmt í þeim skilningi að séu einhverjar líkur á því að veiðar skapi veiðireynslu sem gæti nýst hinu erlenda ríki beri að synja um heimild til þurrleiguskráningar. Framangreint skilyrði felur því í raun í sér að þurrleiguskráðu skipi er einungis heimilt að stunda veiðar innan fiskveiðilögsögu annarra ríkja og á alþjóðlegum hafsvæðum þar sem stöðugleiki er kominn á úthlutun aflaheimilda. Með stöðugleika í þessu sambandi er átt við að úthlutun aflaheimilda sé í tiltölulega föstum skorðum. Við mat á því hvort slíkur stöðugleiki sé sé fyrir hendi verður að hafa í huga að samningar um skiptingu aflaheimilda eru sjaldnast ótímabundnir heldur koma þeir til endurskoðunar með reglulegu millibili. Við endurskoðun slíkra samninga getur skipt máli hvort ríki hafi nýtt þær aflaheimildir sem því hefur verið úthlutað. Þannig getur veiðireynsla skapast þótt samið hafi verið um veiðar.
    A-liður 2. efnismgr. 1. gr. leiðir til svipaðar niðurstöðu og f-liður. Þar er kveðið á um staðfestingu sjávarútvegsráðuneytis á því að skip sem sigla undir þjóðfána Íslendinga geti ekki stundað þær veiðar sem þurrleiguskráða skipið mun stunda meðan á þurrleiguskráningu stendur. Einu veiðarnar sem íslensk skip geta ekki stundað án sérstakra heimilda eru veiðar innan lögsögu annarra ríkja og veiðar úr umsömdum kvótum annarra ríkja á alþjóðlegum hafsvæðum. Það skal tekið fram að í því felst ekki ómöguleiki, skv. a-lið 2. efnismgr. 1. gr. frumvarpsins, þótt veiðar skipa undir íslenskum fána séu óhagkvæmar eða óhagkvæmari en ef veitt væri undir erlendum fána. Óhagkvæmni veiða getur því ekki leitt til þess að skilyrði a-liðar sé uppfyllt.
    Samkvæmt framansögðu verður að ætla að þær veiðar sem þurrleiguskráðum skipum verður heimilt að stunda séu hrein viðbót við þær veiðar sem nú eru stundaðar undir íslenskum fána.
    Til að stunda veiðar innan lögsögu erlends ríkis hafa íslenskar útgerðir þurft að afskrá skip sín hér á landi og skrá þau í viðkomandi ríki. Því fylgir mikill kostnaður. Sé unnt að lækka kostnað og auðvelda íslenskum útgerðum að sækja á erlend mið án þess að raska hagsmunum Íslendinga mun meiri hlutinn ekki standa gegn því.
    Í b-, c- og d-lið 2. efnismgr. 1. gr. eru talin upp skilyrði sem lúta að alþjóðlegum stjórnunar- og verndunarsjónarmiðum. Mikilvægt er að þurrleiguskráð skip stundi ekki veiðar sem stangast á við alþjóðasamninga á þessu sviði og er það mat meiri hlutans að með framangreindum reglum sé girt fyrir það.
    Meiri hlutinn leggur til þrjár breytingar á frumvarpinu.
    Í fyrsta lagi er lagt til að tímamörk þurrleiguskráningar verði lengd úr einu ári í fimm og eftir þann tíma skuli heimilt að framlengja hana um eitt ár í senn. Í þessu sambandi er rétt að minna á að heimild til þurrleiguskráningar verður ekki veitt nema samþykki veðhafa liggi fyrir. Veðhafa er frjálst að skilyrða samþykki sitt við það að heimild verði veitt til skemmri tíma en þriggja ára telji hann það nauðsynlegt til að tryggja hagsmuni sína. Verður því ekki séð að þessi breyting raski hagsmunum þeirra, né annarra. Of þröng tímamörk þurrleiguskráningar geta hins vegar minnkað möguleika skipaeigenda til að þurrleigja skip sín. Með breytingunni munu sömu tímamörk gilda um þurrleiguskráningu fiskiskipa og gilda um þurrleiguskráningu kaupskipa.
    Þá er lagt til að með umsókn um heimild til þurrleiguskráningar skuli fylgja upplýsingar um hvar skipi sé ætlað að stunda veiðar og á hvaða tegundum. Eðlilegt er að þessar upplýsingar liggi fyrir svo að sjávarútvegsráðuneytið geti metið hvort skilyrði 2. efnismgr. 1. gr. séu uppfyllt.
    Í 5. efnismgr. 1. gr. segir að falli heimild til þurrleiguskráningar niður samkvæmt greininni skuli Siglingastofnun fara fram á það við erlendu skipaskrána að skipið verði tafarlaust afmáð af henni. Sé skip statt á hafi úti þegar það er afmáð af hinni erlendu skipaskrá telst það samstundist íslenskt skip. Svo kann að vera ástatt um skip að það uppfylli ekki skilyrði íslenskra laga, t.d. skilyrði 3. mgr. 1. gr. laga um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum, sem kveður á um að skipstjóri á íslensku skipi skuli vera íslenskur ríkisborgari. Í slíkum tilvikum verður að gera þá kröfu að úr lagalegum ágöllum sé bætt án ástæðulausra tafa. Rétt þykir að tiltaka hámarksfrest í þessu sambandi og þykir hæfilegt að miða við þrjá sólarhringa. Þegar skilyrði hafa verið uppfyllt ber að tilkynna Siglingastofnun um það. Brot á þessu ákvæði verður refsivert skv. 1. mgr. 23. gr. laganna.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldri

BREYTINGU:


    Eftirfarandi breytingar verði á 1. gr.:
     a.      4. málsl. 1. efnismgr. orðist svo: Heimilt er að skrá skip með þessum hætti til allt að fimm ára og framlengja þurrleiguskráningu í framhaldi af því um allt að eitt ár í senn.
     b.      Við 1. efnismgr. bætist nýr stafliður, c-liður, svohljóðandi: upplýsingar um hvar skipi er ætlað að stunda veiðar og á hvaða tegundum.
     c.      Við 5. efnismgr. bætist tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Uppfylli skipið ekki skilyrði íslenskra laga ber forráðamönnum þess að sjá til þess að úr því sé bætt innan þriggja sólarhringa frá því að tilkynning berst um að það hafi verið afmáð af hinni erlendu skipaskrá. Þegar skilyrði hafa verið uppfyllt skal tilkynna það til Siglingastofnunar.

    Kristján Möller og Lúðvík Bergvinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 28. jan. 2003.



Guðmundur Hallvarðsson,


form., frsm.


Hjálmar Árnason.


Þorgerður K. Gunnarsdóttir.



Arnbjörg Sveinsdóttir.


Magnús Stefánsson.


Sigríður Ingvarsdóttir.