Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 595. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1057  —  595. mál.




Svar



félagsmálaráðherra við fyrirspurn Ástu R. Jóhannesdóttur um aðgerðir til að bæta þjónustu við sjúk börn og unglinga.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvaða stefnumið ríkisstjórnarinnar í málefnum langveikra barna, sbr. stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá í maí 1999, hafa komið til framkvæmda og hver á eftir að uppfylla á sviði félagsmála,
     a.      innan félagsþjónustu sveitarfélaga;
     b.      hjá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, þ.e.
    –    að greiða sérstök framlög vegna sérþarfa langveikra barna í grunnskólum;
     c.      á sviði vinnuréttar, þ.e.
    –    að leggja bann við uppsögnum starfsmanns vegna fjölskylduábyrgðar, og
    –    að kveða á um rétt foreldra til foreldraorlofs;
     d.      í málefnum barna, þ.e.
    –    að efla bráðamóttöku á vegum Barnaverndarstofu, og
    –    að stofna samstarfsráð félagsmálaráðuneytis og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis um meðferð vegna vímuefnavanda og hegðunar- og geðraskana barna og unglinga?


a.    Félagsþjónusta sveitarfélaga.
    Vorið 2001 var fallið frá því að flytja frumvarp til nýrra laga um félagsþjónustu sveitarfélaga sem samið var vegna væntanlegrar yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaga. Hafði undirbúningur að því frumvarpi staðið yfir í nokkur ár. Í frumvarpinu var félagsþjónustu við langveik börn sérstakur gaumur gefinn, sbr. ákvæði frumvarpsins um rétt langveikra barna til skammtímavistunar og stuðningsfjölskyldu. Ástæða þess að fallið var frá því frumvarpi voru fjármálaleg samskipti ríkis og sveitarfélaga og að sveitarfélögin töldu að þau fengju ekki nægilega fjármuni með verkefnaflutningnum. (Sjá frumvarp til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, þskj. 267, 242. mál 126. löggjafarþings 2000–2001.)
    Haustið 2001 var í félagsmálaráðuneyti unnið að frumvarpsdrögum til breytinga á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, eingöngu með hagsmuni langveikra barna í huga. Þar var lagt til að fjölskyldur langveikra barna skyldu eiga kost á þjónustu stuðningsfjölskyldu, að börnin ættu rétt á sumardvöl, aðgangi að ráðgjöf, þjálfun og leikmeðferð og að börnunum yrði gefinn kostur á liðveislu. Frumvarpsdrögin voru send Sambandi íslenskra sveitarfélaga til umsagnar í byrjun nóvember 2001. Í umsögn sambandsins, dags. 7. desember 2001, var eindregið lagst gegn því að verkefni þetta yrði á vegum sveitarfélaga með þeim hætti sem gert var ráð fyrir í frumvarpsdrögunum. Málið var því lagt til hliðar.
    Enda þótt ekki hafi orðið af því, að sinni a.m.k., að framangreind þjónusta við langveik börn yrði felld inn í lög um félagsþjónustu sveitarfélaga skal tekið fram að fjölskyldur langveikra barna eiga, eins og aðrar fjölskyldur, rétt á margvíslegri aðstoð samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Má þar einkum nefna félagslega ráðgjöf, heimaþjónustu og fjárhagsaðstoð. Um mat á þörf á fjárhagsaðstoð til heimila langveikra barna skal sérstaklega tekið fram að umönnunarbætur teljast ekki til tekna. Um þetta mun hafa ríkt misskilningur hjá sumum sveitarfélögum og þau talið umönnunarbætur til tekna við mat á fjárhagsaðstoð. Félagsmálaráðuneytið sendi því, í október 1999, öllum sveitarfélögum umburðarbréf til að leiðrétta þann misskilning.

b.     Jöfnunarsjóður sveitarfélaga.
    Í 11. gr. reglugerðar um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, nr. 113/2003, er kveðið á um heimild Jöfnunarsjóðs til að greiða framlög úr sjóðnum til sérstakra verkefna. Í b-lið 1. mgr. sömu greinar segir að aðstoðin eigi við um sveitarfélög sem orðið hafa fyrir verulega íþyngjandi og ófyrirséðum útgjöldum vegna lögákveðinna verkefna eða af öðrum ástæðum sem ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs metur gildar.
    Í 8. gr. reglugerðar nr. 351/2002, um jöfnunarframlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til reksturs grunnskóla, segir að greidd skuli framlög til sveitarfélaga á grundvelli umsóknar þeirra vegna ófyrirséðra tilvika í rekstri grunnskóla sem leiða til mikilla útgjalda umfram tekjur og kostnaðurinn sé verulega íþyngjandi.
    Með hliðsjón af framansögðu getur sveitarfélag, sem verður fyrir verulegum útgjöldum vegna langveiks barns í grunnskóla, sótt um framlag úr Jöfnunarsjóði samkvæmt báðum framangreindum reglugerðarheimildum, og útilokar ein þar ekki aðra. Sækja þarf um sérstaklega vegna hvers einstaks máls. Tekið skal fram að þessi framlög eru fyrst og fremst ætluð fámennum sveitarfélögum, því að kostnaður, t.d. vegna eins máls, þar sem þjónustuþörf er mikil, getur verið verulega íþyngjandi fyrir sveitarfélagið.
    Í nóvember 1999 var gerður samningur milli Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar um að Reykjavíkurborg tæki að sér að sjá um kennslu langveikra barna á grunnskólaaldri sem eiga lögheimili utan Reykjavíkur, en dvelja á sjúkrahúsum í Reykjavík. Í samningnum felst að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga greiðir Reykjavíkurborg ákveðna fjárhæð árlega fyrir að annast kennslu barnanna meðan þau dveljast á sjúkrahúsum borgarinnar. Markmiðið með samningnum er að tryggja að langveik börn, sem búa utan Reykjavíkur, fái notið eðlilegrar kennslu á meðan þau dveljast á sjúkrahúsi í Reykjavík, eftir því sem aðstæður þeirra leyfa hverju sinni.

c.     Vinnuréttur.
    Lög um bann við uppsögnum vegna fjölskylduábyrgðar starfsmanna, nr. 27/2000, voru samþykkt á Alþingi í maí 2000. Samkvæmt lögunum er óheimilt að segja manni upp störfum eingöngu vegna fjölskylduábyrgðar sem hann ber.
    Til að um fjölskylduábyrgð starfsmanns geti verið að ræða verða þrjú meginskilyrði að vera fyrir hendi. Í fyrsta lagi verður að vera um að ræða skyldur gagnvart börnum, maka eða nánum skyldmennum starfsmannsins sjálfs. Í öðru lagi þarf viðkomandi að búa á heimili starfsmannsins og loks er þriðja skilyrðið að viðkomandi þarfnist umönnunar starfsmannsins sjálfs eða forsjár, svo sem vegna veikinda, fötlunar eða sambærilegra aðstæðna. Allir þessir þrír þættir þurfa að vera fyrir hendi til að starfsmaður teljist bera fjölskylduábyrgð gagnvart viðkomandi einstaklingi í skilningi laganna.
    Lög um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, voru einnig samþykkt í maí 2000. Hvort foreldri um sig á rétt til 13 vikna foreldraorlofs til að annast barn sitt eftir að hafa starfað samfellt í sex mánuði hjá sama vinnuveitanda. Réttur þessi er óframseljanlegur milli foreldra og er foreldrum heimilt að taka foreldraorlofið í einu lagi eða með öðrum hætti, t.d. í nokkrum skemmri tímabilum eða með lækkuðu starfshlutfalli. Réttur til foreldraorlofs fellur niður þegar barn verður 8 ára. Foreldraorlof er ólaunað.
    Ráðningarsamband milli starfsmanns og vinnuveitanda helst óbreytt í foreldraorlofi og skal starfsmaður eiga rétt á að hverfa aftur að starfi sínu að loknu orlofinu. Sé þess ekki kostur skal hann eiga rétt á sambærilegu starfi hjá vinnuveitanda í samræmi við ráðningarsamning. Þau réttindi sem starfsmaður hefur þegar áunnið sér eða er að ávinna sér á upphafsdegi foreldraorlofs skulu haldast óbreytt til loka orlofsins. Starfsmaður nýtur einnig verndar gegn uppsögnum vegna foreldraorlofs samkvæmt lögunum. Brjóti vinnuveitandi gegn ákvæðum laga þessara varðar það skaðabótaskyldu samkvæmt almennum reglum.

d.     Málefni barna.
    Fram undan er að byggja við Stuðla og stækka neyðarmóttökuna með þeim hætti og efla þar með starfsemi hennar. Teikningar hafa legið fyrir síðan sumarið 2000. Það skilyrði er sett af hálfu félagsmálaráðuneytis að Barnaverndarstofa leggi fram fé fyrir stofnkostnaði sem er áætlaður 65 millj. kr. Þá fjármuni mun Barnaverndarstofa leggja fram af þeim 70 millj. kr. sem Barnaverndarstofa fær árlega samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá 24. júní 1999. Rúmlega 40 millj. kr. af þeirri fjárhæð hefur farið til Landspítala – háskólasjúkrahúss, samkvæmt samningi milli Landspítala og Barnaverndarstofu frá 26. apríl 2000. Reynt hefur verið að halda til haga þeim u.þ.b. 28 millj. kr. árlega sem eftir standa, en þar sem álag á neyðarmóttökuna hefur verið mikið hefur reynst nauðsynlegt að verja hluta af þeirri fjárhæð til að mæta þeirri eftirspurn. Barnaverndarstofa á nú tæplega 40 m.kr. upp í verkefnið, en þarf að bæta við 25 millj. kr. til að ná því markmiði að fjármagna stofnkostnað bráðamóttökunnar.
    Með bréfi, dags. 4. janúar 2000, skipaði félagsmálaráðherra samstarfsráð um meðferð barna og unglinga í vímuefnavanda og með hegðunar- og geðraskanir. Í ráðinu eiga sæti fulltrúar frá félagsmálaráðuneyti, barna- og unglingageðdeild Landspítala, SÁÁ, heilbrigðisráðuneyti, Stuðlum og Barnaverndarstofu.
    Samstarfsráðið var skipað með vísan til samkomulags félagsmálaráðherra og heilbrigðisráðherra, dags. 26. nóvember 1999, vegna ákvörðunar ríkisstjórnar frá 24. júní 1999 um meðferð barna og unglinga með hegðunar- og geðraskanir, svo sem vegna vímuefnaneyslu og afbrotahneigðar.
    Í samstarfsráðinu er skipst á upplýsingum og unnið að því að samhæfa sjónarmið. Framkvæmd áðurnefnds samnings frá 26. apríl 2000 er kynnt reglulega. Neyðarmóttakan á Stuðlum hefur oft verið þar til umræðu, svo og sérstaða barnaverndaryfirvalda sem felst í skyldu þeirra til að útvega börnum þvingaða innlögn.
    Samstarfsráðið er enn að störfum.