Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 688. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1120  —  688. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um fjármögnun sjóðs til að auka verðmæti íslenskra sjávarafurða.

(Lögð fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



    Alþingi ályktar að lýsa stuðningi við stofnun sjóðs sem sjávarútvegsráðherra hefur komið á fót og hefur það hlutverk að styrkja verkefni sem stuðla að auknu verðmæti íslenskra sjávarafurða.
    Jafnframt ályktar Alþingi að á næstu fimm árum, 2004–2008, verði sjóðurinn fjármagnaður með framlagi úr ríkissjóði þannig:
Árið 2004 200 millj. kr.
Árið 2005 250 millj. kr.
Árið 2006 300 millj. kr.
Árið 2007 350 millj. kr.
Árið 2008 400 millj. kr.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Í janúar 2002 skipaði sjávarútvegsráðherra nefnd sem var falið að vinna skýrslu um hvernig mætti á næstu árum auka verðmæti sjávarfangs í þeim greinum sem fyrir eru og efla jafnframt nýsköpun. Í október 2002 skilaði nefndin skýrslu (svonefndri AVS-skýrslu) til ráðherra þar sem bent er á að á tímabilinu 1990–2001 hafi engin aukning orðið á raunverðmæti útfluttra sjávarafurða en útflutningsverðmæti sjávarafurða var um 130 milljarðar kr. á árinu 2001. Jafnframt kemur fram að þótt miðað sé við óbreyttan afla eru gríðarlegir möguleikar á að auka útflutningsverðmætið. Við vinnslu skýrslunnar var víða leitað fanga, ekki síst hjá fólki sem starfar við sjávarútvegsfyrirtæki og tengdar greinar, svo sem við sérhæfða tækjaframleiðslu og þekkingarvinnslu. Komst hópurinn að þeirri niðurstöðu að með auknu rannsókna- og þróunarstarfi sé raunhæft markmið að útflutningsverðmætið geti orðið um 240 milljarðar kr. árið 2012. Í skýrslunni er talið að slík aukning verði fyrst og fremst borin uppi af fiskeldi, líftækni og vinnslu aukaafurða, auk bættrar tækni við fiskvinnslu. Þetta markmið næst því aðeins að aukin áhersla verði lögð á rannsókna- og þróunarstarf. Er sjóðnum ætlað að styrkja það starf.
    Í skýrslunni er lagt til að gert verði átak til fimm ára til að auka virði sjávarafurða, og að átakið verði hugsanlega framlengt. Megintillaga skýrslunnar er að stofnaður verði sérstakur rannsóknasjóður sem komi til viðbótar þeim fjármunum sem nú er unnt að nýta til rannsókna og hafi hann 300 millj. kr. til ráðstöfunar á ári fyrir lok tímabilsins.
    Undanfarin missiri hafa augu manna beinst að þorskeldi í ríkum mæli. Hér á landi hefur starfað sérstakur samstarfshópur á vegum sjávarútvegsráðuneytisins, auðlindadeildar Háskólans á Akureyri, Hafrannsóknastofnunarinnar og sjávarútvegsfyrirtækja um þorskeldi. Markmið verkefnisins eru að meta samkeppnishæfni þorskeldis á Íslandi, móta stefnu í rannsókna- og þróunarvinnu og afla og miðla upplýsingum um þorskeldi. Verkefnið hefur þegar eflt mjög þekkingu og um leið stuðlað að kynningu á þessu sviði. Hópurinn tók saman ítarlega skýrslu um stefnumótun í rannsókna- og þróunarvinnu fyrir þorskeldi á Íslandi. Í tillögum samstarfshópsins var tekið mið af hugmyndum í AVS-skýrslunni þar sem m.a. er gert ráð fyrir að sérstökum verkefnahópi verði falið að fjalla um fiskeldi. Jafnframt lagði samstarfshópurinn til að ríkissjóður veitti árlega í fimm ár sérstakt 140 millj. kr. framlag að meðaltali til upplýsingamiðlunar, rannsókna- og þróunarverkefna í þorskeldi.
    Sjávarútvegsráðherra hefur tekið tillögur í AVS-skýrslunni til athugunar og sett á fót sjóð sem hefur það hlutverk að styrkja verkefni sem stuðla að auknu verðmæti íslenskra sjávarafurða. Sjóðurinn verður einvörðungu fjármagnaður af sjávarútvegsráðuneytinu árið 2003, en í þingsályktunartillögunni er gert ráð fyrir að framlög ríkissjóðs til sjóðsins taki mið af tillögum AVS-nefndarinnar og tillögum samstarfshópsins um þorskeldi og verði 200 millj. kr. árið 2004 og fari síðan stighækkandi og verði 400 millj. kr. árið 2008.
    Stofnun sjóðs þessa gerir greininni gert kleift að ná miklum árangri á skömmum tíma. Skortur á fé til rannsókna í sjávarútvegi hefur háð nýsköpun. Með aukinni þekkingu og menntun fjölgar þeim sem koma auga á ný tækifæri og nýta þau. Verkefni þetta miðar fyrst og fremst að því að auka útflutningstekjur landsmanna af sjávarfangi. Útgerð og vinnsla sjávarafurða eru verkefni sjávarútvegsfyrirtækja sem langflest starfa á landsbyggðinni. Auknar tekjur sjávarútvegs munu því skila hærri tekjum og betri afkomu til fyrirtækjanna og starfsfólks þeirra.
    Sjávarútvegsráðherra hefur ákveðið að sjóðurinn styrki og stuðli að rannsóknum á margs konar verkefnum sem tengjast sjávarútvegi, svo sem í fiskeldi, líftækni, markaðsmálum, vinnslu sjávarfangs, meðferð hráefnis, fræðslu og menntun.
    Í stjórn AVS-sjóðsins eiga sæti fulltrúar atvinnulífsins og stjórnvalda sem hafa þekkingu á hagsmunum sjávarútvegsins. Stjórnin skal móta stefnu fyrir sjóðinn og útfæra áherslusvið. Skal það gert í nánu samráði við hagsmunaaðila, vísindasamfélagið og stjórnvöld. Markmið og áherslur skulu vera í samræmi við þarfir atvinnugreinarinnar.
    Stjórn AVS-sjóðsins hefur yfirumsjón með meðferð umsókna um styrki sem sjóðnum berast. Stjórnin tekur ákvarðanir um styrkveitingar að teknu tilliti til niðurstöðu faglegs mats á umsóknum og með hliðsjón af þeim markmiðum sem sjóðurinn hefur sett sér. Þá fylgist stjórnin með framvindu verkefna sem sjóðurinn hefur styrkt. Stjórnin getur falið verkefnahópum að annast einstaka þætti í starfi sjóðsins, t.d. daglegan rekstur, mat á umsóknum og eftirfylgni, eða samið við utanaðkomandi aðila um framkvæmd þessara þátta.
    Stjórn AVS-sjóðsins skal beita sér fyrir aukinni samvinnu aðila um framkvæmd verkefna og fjármögnun þeirra. Skal hún í því sambandi leitast við að hafa yfirsýn yfir helstu verkefni sem unnið er að á sviði sjávarútvegs. Jafnframt getur stjórnin beitt sér fyrir stofnun verkefnahópa um einstök fagsvið eða tekið þátt í slíkum hópum ef það er talið henta.